laugardagur, desember 31, 2016

Á heimsvísu hefur þetta (líka) verið hræðilegt ár — en það hefði getað verið verra

Ekki sér enn fyrir endann á bloggfærslu gærdagsins en þó er ljóst að þar er fyrst og fremst fjallað um innlenda atburði og fólk. Hér verður gerð smá tilraun til að láta líta út fyrir að umheimurinn sé ekki alveg afskiptur.

2016 hefur verið hörmulegt ár fyrir margra hluta sakir. Hryðjuverk. Og Sýrland. Og Trump. En það eru stríð mun víðar en í Sýrlandi og Trump er ekki eini fávitinn sem kemst til valda. Á fleti fyrir eru tildæmis Pútín og Erdoğan. Sá síðarnefndi hefur hreinsað til í Tyrklandi undir því yfirskini að reynt hafi verið valdarán. Hann hefur líka notað Sýrlandsstríðið sem afsökun fyrir að ráðast á Kúrda þegar hann þóttist ætla að ráðast á Íslamska ríkið. Pútín afturámóti er einfaldlega að hjálpa helvítinu honum Assad, svona milli þess sem hann skiptir sér af forsetakosningum í Bandaríkjunum. 2017 lítur mjög illa út fyrir Bandaríkjamenn, og jafnvel heimsbyggðina alla. Fagnaðarlætin vegna Parísarsamkomulaginu voru varla þögnuð þegar Trump var kosinn forseti, og eitt af því sem hann ætlar að vinna gegn er allt þetta sem honum þykir bull og þvæla en við hin köllum loftslagsvá.

Að því er virðist óvenju margir hæfileikaríkir frægir söngvarar og leikarar féllu í valinn á árinu. Margir syrgja þetta fólk enda hefur það haft margvísleg áhrif á aðra með list sinni. Ekki skal gert lítið úr því en hinsvegar langar mig til að minnast tveggja manna sem voru ekki frægir í sama skilningi og stórstjörnurnar, en höfðu sannarlega mikil áhrif á líf annarra.


Maður sem ég þekki er á lífi vegna þess að Henry Heimlich fann aðferð til að bjarga lífi fólks sem annars hefði kafnað vegna aðskotahlutar í hálsi. Sjálfur lést Heimlich (af eðlilegum orsökum) nú í desember. Í þættinum Samfélagið má hér heyra góða útskýringu á hvernig beita á Heimlich aðferðinni. Það er þekking sem bjargar mannslífum.

Donald Henderson, sem var hvatamaður að og stýrði herferð alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar gegn bólusótt (e. smallpox), lést einnig á árinu. Bólusótt er mjög smitandi sjúkdómur sem er einn af hrikalegustu sjúkdómum sem mannkynið hefur komist í kynni við.

Allt fram að 18. öld lést tíunda hvert barn í Svíþjóð og Frakklandi af völdum bólusóttar og sjöunda hvert barn í Rússlandi. Dánartíðni var mjög há eða allt að 30% smitaðra. Talið er að á 18. öld í Evrópu hafi 400.000 manns látist árlega af völdum bólusóttar.

Stórabóla eins og bólusóttin var kölluð á Íslandi, geisaði nokkrum sinnum á Íslandi, en sérlega skæð bólusótt gekk yfir landið á árunum 1707-1709 þegar að stór hluti Íslendinga fékk sjúkdóminn og létust um 16.000-18.000 manns.

Bólusótt sem hafði drepið 500 milljónir á 20. öldinni var útrýmt árið 1977 en þegar herferð alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hófst létust um 2 milljónir árlega af völdum sjúkdómsins. En enginn síðan þá.
(Tekið meira og minna orðrétt úr greinum á Vísindavefnum, 1, 2, 3).

Þrátt fyrir óáran megum við þó þakka fyrir að þurfa ekki að óttast bólusóttina.


Efnisorð: ,