sunnudagur, desember 18, 2016

Viðreisn er ekki miðju-Viðreisn heldur hægriflokkur með hægrimannaáherslur

Mikið varð ég fegin þegar ég sá grein (og greiningu) Karls Th. Birgissonar í Stundinni. Hann er þar að ræða Viðreisn sem hægri flokk, en ég var farin að halda að enginn nema ég tæki eftir því að Viðreisn er enginn miðjuflokkur heldur hægriflokkur. Með fólk eins og Pawel Bartoszek innanborðs finnst mér reyndar að megi tala um Viðreisn sem frjálshyggjuflokk (frést hefur af fólki sem rak upp stór augu þegar Pawel flutti gamla Ayn Rand möntru um að skattar séu ofbeldi, eins og hann hafi ekki skrifað á netið árum saman) og þegar Hanna Katrín Friðriksson bætist við (sem var aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs þegar hann sem heilbrigðisráðherra undirbjó einkavæðingu heilbrigðiskerfisins) hefur mér fundist undarlegt að einhver álíti Viðreisn vera miðjufólk. Og er Þorgerður Katrín kannski ekki hægrimanneskja (sem aðhyllist frjálshyggju að miklu leyti), eða Þorsteinn Pálsson? Þegar flokkurinn er meira og minna samsettur af fyrrverandi Sjálfstæðismönnum og ráðherrum þess flokks, þá er afar sérkennilegt að álíta hann miðjuflokk.

Nema hvað, Karl Th. rekur hvernig Viðreisn var stofnuð vegna óánægju sjálfstæðismanna vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hætti við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Einnig hafi fólkið sem fór yfir til Viðreisnar vegna þess að það vildi „í alvöru laata einkaframtak og frjáls viðskipti ráða för“ en dekstra ekki við sérhagsmuni „ákveðinna atvinnugreina og jafnvel einkahagsmun[i] tiltekinna fjölskyldna“. Og svo vilja Viðreisnarmenn „koma skikki á eilífðarvandamálið, gjaldmiðilinn“.
„Með öðrum orðum sagt: Við erum raunverulegir sjálfstæðismenn, raunverulegir talsmenn viðskipta og frjálsar samkeppni sem vinnurí þágu almannahagsmuna.
Undirtónninn var líka þessi: Við erum allt það sem Davíð Oddsson er ekki.
Að þessu leytinu spratt Viðreisn fram sem klassískur hægri flokkur sem aðhylltist frjáls, alþjóðleg viðskipti og markaðslausnir.“
Karl Th. segir að í sjávarútvegsmálum vilji Viðreisn lágmarks breytingar á sjávarútvegsmálum, sem sé klassísk hægri stefna: „sem sagt að reyna að koma á friðið og sátt um umdeilda atvinnugrein með því að gera lágmarksbreytingar sem skipta eingum sköpum fyrir þá sem eiga og reka fyrirtækin, bjóða varla upp á viðunandi lausnir …“ Aðhaldsstefna í ríkisfjármálum, sem Þorsteinn Víglundsson núverandi þingmaður Viðreisnar og áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, boðaði vegna þenslunnar í efnahagslífinu, er einnig klassísk sjónarmið hægri mannsins: „Á þenslutímum má ríkið ekki útgjöld og þarf helzt að draga þau saman … Hin hliðin á þessari skoðun er svona: Á samdráttartímum — hvað þá í kreppu — má ríkið ekki auka útgjöld sín af því að ekki eru til nægar tekjur…“

„Þið getið valið ykkur efnahagsástand, ágætu lesendur,“ segir Karl Th., „en niðurstaða hægri mannsins er alltaf hin sama: Ríkið þarf að draga úr útgjöldum sínum svo að ekki fari illa.“ Niðurstaða Karls er að grein Þorsteins Víglundssonar sé „skýrt dæmi um að Viðreisn er hægri flokkur í allri hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Um það verður varla deilt.“

Og þá kemur Karl Th. loksins að þeim punkti sem átti að verða aðalinntak pistlis míns, en það eru stjórnarmyndunarviðræður undanfarinna vikna. Ég vitna hér í grein Karls ekki bara vegna þess að hann rökstyður afhverju hann skilgreinir Viðreisn sem hægriflokk, heldur vegna þess að hann kemst að sömu niðurstöðu og ég:
„Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að illa gangi hjá Viðreisn og Vinstri grænum að mynda saman ríkisstjórn“.
Einhverra hluta vegna hefur því verið ítrekað haldið fram að það sé VG að kenna að ekki hafi tekist að mynda ríkisstjórn fimm flokka, en Viðreisn hafi verið ægilega tilbúin til þess, sérstaklega í seinni tilrauninni. Fyrri tilraunin fór út um þúfur vegna þess að Viðreisn átti ekkert erindi í vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna, og vildi ekkert vera þar. Síðari tilraunin var öllu skrítnari, þegar Píratar stjórnuðu ferðinni. Þá virtist Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar vera komin með sömu tök á Pírötum og Samfylkingu og hann hefur nú þegar á Óttarri í Bjartri Framtíð. Þá er ég ekki að tala um neitt ofbeldi.

Benedikt Jóh. er, eins og Karl Th. lýsir,
„fyrst og fremst viðskiptamaður, en af fágaðri skólanum, þeirri tegund sem hefur lesið bækur og býr yfir launfyndni sem þeir einir geta beitt sem hafa notið alvörumenntunar.
Benedikt getur lesið texta sér til gagns sem Bjarni frændi hans hefði ekki einurð til, og óvíst er hversu vel myndi skilja.“
Með öðrum orðum: Benedikt hefur sjarmerað Óttarr upp úr skónum, er á hans plani í húmor. Í stjórnarmyndunarviðræðum töluðu Píratar um að nú væru þau öll búin að kynnast mikið betur: nýju mennirnir voru Samfylkingarformaðurinn Logi og svo Benedikt. Og þetta fólk náði allt svona prýðilega saman, enda Benedikt skemmtilegur (eins og pistlar hans sem ég hef oft lesið bera vitni). Píratar, sem ég hef alltaf haft grunaða um frjálshyggju, voru því enn ginnkeyptari fyrir því að binda trúss sitt við Viðreisn, og Samfylkingin er aðallega þakklát fyrir að fá að vera með (og svo er Logi kannski stemningsmaður, vill vera þar sem gaman er) svo þetta stefndi allt í þetta líka ágæta samstarf. Samstarf til hægri. En Katrín, sem ég held seint að teljist fúllynd og ófélagslynd, er kannski örlítið prinsippfastari en svo að hún kasti hugmyndum um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og annarra innviða samfélagsins í skiptum fyrir blik í auga. Og þar mætti viðskiptamaðurinn Benedikt viðsemjanda sem hefur ekki gleymt tilgangi sínum.

Áhersla Vinstri grænna er á að auka verulega framlög til velferðar-, heilbrigðis-, samgöngu- og menntamála — og til þess þarf að afla fjár. „Vinstri græn hafa ekki verið hrædd við að stinga upp á leiðum til að fjármagna samneysluna“, en hvorki aukin ríkisútgjöld né leiðirnar sem Vinstri græn vilja fara til fjármögnunar hafa fallið Viðreisn í geð.

Eigi að kenna Vinstri grænum eða Katrínu um að hafa eyðilagt þetta fyrirhugaða fimm flokka samstarf, þá segi ég: Það skiptir máli hvernig ríkisstjórn þessir fimm flokkar mynda. Ef hún væri afgerandi til vinstri væri það fínt. En ef Viðreisn réði för og allir hinir hallast til hægri með þeim, þá eiga félagshyggjusjónarmið ekki góðan hljómgrunn. Ég vona að það endi ekki með að Vinstri græn fari í ríkisstjórnarsamtarf við Sjálfstæðisflokkinn. En ég sé ekki fyrir mér að það sé skárra að vera hornreka í stjórnarsamstarfi við Viðreisnar-Bensa og fylgihnetti hans.

Efnisorð: , , ,