föstudagur, nóvember 18, 2016

Tunnufólk er ekki allstaðar eins

Nærri tvær vikur eru liðnar síðan ég sá auglýsingu sem kollvarpaði heimsmynd minni, gerði mig órólega og olli því að nú óttast ég aðkomufólk.

Heilsíðuauglýsing frá Kópavogsbæ með yfirskriftinni Kópavogur flokkar lýsir því í máli og myndum að nú geti íbúar Kópavogs flokkað allt endurvinnanlegt plast með pappírnum í bláu tunnurnar. PLAST MEÐ Í BLÁU TUNNURNAR? Hvaða villimennska er þetta? Hér í höfuðstaðnum er svoleiðis búið að banna manni að setja neitt annað en pappír í bláu tunnurnar að aldrei fer svo gluggaumslag útí tunnu án þess að umslagið sé augnstungið. Plasthimnan sem rifin er af umslaginu fer svo auðvitað í græna tunnu - með hinu plastinu! En svo kemur í ljós að nágrannasveitarfélög leyfa sér að vera með allt annað flokkunarkerfi!

Hvað á svo að gera ef einhver þessara illa uppöldu Kópavogsbúa flytja (flýja) yfir til Reykjavíkur? Munu þeir aðlagast siðmenningunni? Þarf að senda þá á námskeið? Eða er eina ráðið að neita að taka við 'þessu fólki' í heiðvirð fjölbýlishús?

Ekki það, það eru auðvitað smávægilegir gallar á þessu stranga kerfi hér í höfuðstaðnum. Það væri tildæmis ágætt ef einhver vildi útskýra fyrir mér hvenær brúsi með hárnæringu telst nægilega vel skolaður til að mega fara í grænu plasttunnuna. Eða segja mér hversvegna tunnum undir plast var valinn grænn litur. Þetta vefst fyrir mér. Þó ekki eins mikið og hin furðulega staðreynd og að í næsta sveitarfélagi megi blanda plasti og pappír saman í eina tunnu.


Efnisorð: