fimmtudagur, október 27, 2016

Ríkisstjórnarflokkarnir á síðustu metrunum

Það er mikið til skrifað um ríkisstjórnarsamstarfið á þessu kjörtímabili, sem og einstaklinga innan flokkanna, spillingarmál og þar fram eftir götunum. Til hægðarauka verður því vísað villt og galið í eigin skrif og annarra (og reyni að muna eftir gæsalöppum og tenglum, því enginn vill ég Hannes Hólmsteinn Gissurarson vera), og reynt að gera sem flestu skil nú þegar kjördagur nálgast óðfluga.

Ríkisstjórnin 2013-2016
Hallgrímur Helgason skrifar í dag eina af sínum algjöru neglum. Hann ræðir t.d. frammistöðu frjálshyggjukonunnar og þingmannsins Sigríðar Á. Andersen í sjónvarpsþætti (ég játa hér með að ég horfði ekki á nema fyrsta þáttinn sem Sjónvarpið var með en hef séð slitrur úr sumum hinna en ekkert úr þeim þætti þar sem Sigríður tók þátt) og það er kannski ágætt að byrja á því að setja úttekt Hallgríms á orðum Sigríðar í samhengi við ríkisstjórnarflokkana almennt og þá Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega.
„Og Sigríður Á. Andersen er send í umræðuþátt RÚV um auðlinda- og umhverfismál. Og í lok þáttarins er hún spurð hvort ruslið sé ekki örugglega flokkað á hennar heimili? Já, nei nei, segir fulltrúinn á löggjafarsamkundunni, hún flokkar ekki ruslið! Hún hendir bara öllu saman í sömu tunnu, gleri, plasti, pappír, hálfnýjum fötum, ljósaperum og batteríum, hún er bara frjáls í sínu rusli, hún er frjálshyggjukona! Og gerði svo í kjölfarið grín að fólki sem hefur það sem „áhugamál“ að keyra út í Sorpu með plast og gler og garðaúrgang í sitthvorum pokanum. Ha ha, er það nú áhugamál! sagði þingkonan hlæjandi. Því sjálf lætur hún engan fokka í sínu rusli og flokkar því ekki ruslið. Hún á þetta rusl og hún má þetta rusl. Hún er frjálshyggjukona og býr því við algert ruslafrelsi, og þá skiptir engu hvort það sé rusl þetta frelsi, hún er frjálshyggjukona og frjálsheggur svona.“
Að einhverju leyti kemur mér þetta á óvart því ég hélt að allir flokkuðu nú orðið rusl. En að öðru leyti kemur mér það ekki á óvart að einmitt frjálshyggjufólk, sjálfstæðismenn og fólk sem styður ríkisstjórnina gefur frat í alla flokkun, endurvinnslu og viðleitni til að minnka úrgang og mengun. Og þó það sé auðvitað ekki pólitískt klókt af Sjálfstæðisflokknum (á hann ekki að vera svo klár með heilan stjórnmálaskóla?) þá er það í raun ekkert undrunarefni að Sjálfstæðisflokknum þyki það sjálfsagt að „senda umhverfissóða í umhverfisþátt“, rétt eins og Framsóknarflokknum þykir sjálfsagt að planta sínu fólki í umhverfisráðuneytið í þeim tilgangi einum að skrifa glaðlega uppá allar virkjanir og hvaðeina annað sem hefur varanleg og óafturkræf áhrif á umhverfið.

Hér má bæta því við að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn fengu falleinkunn í loftslagsrýni sem unnin var á dögunum af fréttavefnum Loftslag.is. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut sjö stig og Framsóknarflokkurinn fjögur stig. Gefnar voru einkunnir út frá sjö þáttum en þeir þættir sem skiptu hvað mestu máli fyrir niðurstöðu greiningarinnar voru: hvort flokkurinn væri með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hvort flokkurinn hefði sett sér tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2 og hvort gert væri ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Það sem einkenndi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá upphafi var hvernig fjárhagslegir bakhjarlar þeirra fengu augljóslega að njóta þess að hafa sína menn við stjórnvölinn. Með orðalagi Dags Hjartarsonar:
„Árið 2013 greiddu íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi 12,8 milljarða í veiðigjöld til ríkisins. Svo völdu Íslendingar sér nýja ríkisstjórn, hana mynduðu lunkinn bakari úr Garðabænum og ofsóttur huldumaður frá Hrafnabjörgum. Þessir ungu milljarðamæringar lækkuðu veiðigjaldið niður í 4,8 milljarða. Þeir lækkuðu það um átta þúsund milljónir.

Á síðustu sjö árum hafa íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi hagnast um 265 milljarða og greitt eigendum sínum arð upp á sirka 50 milljarða. Fimmtíu þúsund milljónir.

Bjarni Ben lét ekki þar staðar numið heldur lagði af auðlegðarskatt. Í nýlegum pistli sýnir Indriði H. Þorláksson hvernig skattbyrði hefur aukist undan farin ár um sjö milljarða hjá 80% samskattaðra en lækkað um átta milljarða hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra.“

Í árslok 2014 skrifaði Björn Valur Gíslason þetta:
„Ríkisstjórnin hefur uppi ómarkviss og óljós áform upp flutning stofnana um landið þvert og endilangt, mest þó til Skagafjarðar. Boðuð er lagabreyting til að auðvelda ráðherrum að flytja fólk og stofnanir og starfsfólk á milli stofnana. Forystufólk ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi boðar lagabreytingar sem auðvelda eigi að reka fólk úr störfum.[…] Á síðustu dögum þingsins gekk svo þingmeirihluti hægrimanna enn lengra í aðgerðum sínum gegn almenningi en óttast var. Þá hækkuðu þau skatt á mat, bækur og menningu um 60 prósent. Einnig voru réttindi atvinnulausra verulega skert frá því sem var, þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi. Þá stóð meirihlutinn við ítrekaðar hótanir sínar gagnvart RÚV. Niðurskurðurinn á RÚV var vegna þess að stofnunin sagði ekki stöðugar fréttir af afrekum leiðtoganna. Skattlagning á mat og bækur dugði ekki og boðað var frumvarp um skattlagningu á fólk fyrir að skoða náttúru landsins. Samt dugði þessi skattlagning ekki til að lækka lyfjakostnað eða auka við almannatryggingar. Skattlagningin dugði heldur ekki til að bjóða fólki eldra en 25 ára í nám í framhaldsskólum.“

Loforð stjórnarflokkanna: Björgvin Guðmundsson bendir á að núverandi stjórnarflokkar gáfu öldruðum og öryrkjum kosningaloforð fyrir kosningarnar 2013. „Hvað var stærsta kosningaloforðið? Jú, báðir stjórnarflokkarnir lofuðu að leiðrétta lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar krepputímans.“
Reynd: Björgvin segir að „Allt bendir til þess, að það hafi aldrei verið ætlun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að efna þetta stóra kosningaloforð. Svo virðist sem það hafi átt að blekkja kjósendur. Engin leið er að vita hvað margir kusu stjórnarflokkana út á þetta loforð. Þeir geta verið margir. Ef til vill hefur þetta loforð komið stjórnarflokkunum til valda. Athyglisvert er, að stjórnarflokkarnir hafa aldrei minnst á þetta loforð eftir að þeir komust til valda.“
Lofa því aftur núna: „Það er athyglisvert, að þessi hækkun, efndir á þessu loforði, er nákvæmlega sú hækkun, sem ríkisstjórnin lofar nú að komi til framkvæmda árið 2018.“

Loforð: Þeir lofuðu að afturkalla alla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá árinu 2009.
Reynd: Af sex atriðum, voru 3 afturkölluð en hin 3 hafa ekki verið afturkölluð enn.

Loforð: Bjarni Benediktsson gaf mjög stórt kosningaloforð til aldraðra. Hann lofaði að afnema allar tekjutengingar lífeyris aldraðra hjá almannatryggingum.
Reynd: Hann hefur ekki staðið við það.
(Allt er þetta úr grein Björgvins í dag.)

Loforð Sigmundar Davíðs: Stærsta skuldaleiðrétting í heimi - erlendir kröfuhafar borga.
Reynd: „Almenningur hefur að stóru leyti fjármagnað skuldaleiðréttinguna svokölluðu“. Ekki fengu heldur allir leiðréttinguna.
„Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur og leyfðu barnabótum að tapa verðgildi sínu. Af þeim sökum standa hinir lægst launuðu nú verr eftir en ef aldrei hefði verið ráðist í skuldaleiðréttinguna. Það eru aðeins hinir tekjuhærri og þeir skuldugustu sem koma betur út úr skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.“ (Fréttatíminn.)

Loforð: Lyklafrumvarp. Hugmyndin á bak við slíkt frumvarp er að hjálpa skuldurum að forðast gjaldþrot með því að gefa þeim kost á skila yfirskuldsettri fasteign gegn því að skuldir sem á henni hvíla séu felldar niður. Báðir núverandi stjórnarflokkar töluðu eindregið fyrir slíkri löggjöf í aðdraganda síðustu kosninga (segir í afhjúpun Stundarinnar).
Reynd: Ríkisstjórnaflokkarnir ákváðu að efna ekki loforðið.

Loforð: Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.
Ómöguleikareynd: Bjarni Ben sagði það pólitískan ómöguleika að kjósa um ESB.

Ríkisstjórnin reyndi að koma þessum málum en tókst ekki, sem betur fer:
Ekkert varð af fyrirhugaðri einkasölu á áfengi (brennivín-í-búðir frumvarpið).
LÍN frumvarpið sem hentaði bara betra stæðum strandaði rétt fyrir þinglok. (Áhugaverð er úttekt Stundarinnar á fyrirbærinu Gamma sem á hundruð leiguíbúða og hefur keyrt upp leiguverð í Reykjavík, og ætlar líka að bjóða upp á námslán en Gammamenn eru innmúraðir Sjálfstæðismenn. Semsagt: LÍN frumvarpið átti hrekja nemendur til að taka lán hjá Hræ-Gamma-félaginu.)
Breyta átti lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og bæta þeim með hærri launum seinna (líklegt að það hefði gengið eftir), en heildarsamtök opinberra starfsmanna lýstu því yfir að frumvarpið sé ekki í fullu samræmi við samkomulag sem samtökin gerðu við ríki og sveitarfélög, og þar strandaði málið.

Átti að vera afrek ríkisstjórnarinnar: Forsætisráðuneytið hrósaði sér af því í maí síðastliðnum að jöfnuður tekna væri meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum.
Hið rétta í málinu: Þessi jöfnuður var afrek ríkisstjórnar Jóhönnu.
Það er heldur ekki núverandi ríkisstjórn að þakka að heimsmarkaðsverð olíu hefur verið í lágmarki, að makríllinn syndir um lögsöguna, eða að ferðamenn koma í massavís til landsins. Það síðastnefnda má að miklu leyti þakka fyrri ríkisstjórn því það var Katrín Júlíusdóttir sem hafði frumkvæði að starfsemi samráðshóps sem leiddi til markaðsátaksins Inspired by Iceland sem lauk í maí 2011. Allt hefur þetta stuðlað að bættri fjárhagslegri stöðu þjóðarbúsins.

Brot af því versta við Sjálfstæðisflokkinn
Sjálfstæðismenn setja frjálshyggjumenn í ráðuneyti heilbrigðismála, trekk í trekk. Þeir hafa það hlutverk að útvista sem flestum verkefnum sem almenningur vill að flokkist undir almannaþjónustu sem fáist (helst gjaldfrjálst) á ríkisreknum spítulum og heilsugæslustöðvum.

Enda þótt heilbrigðisráðuneytið sé á forræði Sjálfstæðisflokksins er auðvitað ábyrgðin á þeim málum hjá báðum ríkisstjórnarflokkunum. Þegar ríkisbúskapurinn fór að rétta úr kútnum (sem hann var farinn að gera áður en þessi ríkisstjórn tók við) var augljóst að það yrði að fara að gera eitthvað fyrir heilbrigðiskerfið. Vegna einlægs áhuga Sjálfstæðisflokksins til að greiða götu einkarekinnar heilbrigðisþjónustu var ekki beinlínis spýtt í lófana til að rífa Lanspítalann upp, hvorki sem byggingar né rekstur, hvað þá til að minnka kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Læknar, ljósmæður og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fóru í verkfall, langþreytt á slæmum kjörum og öllum aðstæðum sínum.

Þrátt fyrir að þjóðin æpti af óþoli var það ekki fyrr en Kári Stefánsson settist við greinarskrif sem heilbrigðismálin komust almennilega á dagskrá. Endalausar skammir hans sem dunið hafa á Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra og ekki síður ndirskriftasöfnunin sem Kári hratt af stað er ein höfuðástæða þess að heilbrigðismál eru eitt helsta kosningamálið - og að flestir flokkarnir eru sammála um aðgerðir. Nema auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sem dregur lappirnar og vill ennþá að einkaaðilar (sem svo heppilega vill til að eru innmúraðir í flokkinn) reki sjúkrahótel, heilsugæslu og helst heilu spítalana. Viðreisn fylgir svo fast þar á eftir enda er Hanna Katrín Friðriksson fyrrverandi aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs þegar hann var heilbrigðisráðherra og kom þá að stefnumótun heilbrigðiskerfisins; semsagt stuðlaði að einkavæðingu þess. En þetta á ekki að snúast um Viðreisn enda þótt augljóst sé að sá flokkur og Sjálfstæðisflokkurinn eiga afar margt sameiginlegt.

Hildur Sverrisdóttir Sjálfstæðiskona talar um aukna framleiðni í menntakerfinu, sem er einhver nöturlegasta lýsing á námi sem þroskar, eykur víðsýni og undirbýr nemendur fyrir framtíðina. Ráðleggingar Áslaugar Önnu Sigurbjörnsdóttir ritara Sjálfstæðisflokksins til barna á Krakkakosningavef eru þessar:
„Ég held að það sé nauðsynlegt að stytta tímann sem við erum í skólanum. Við erum búin að stytta hann um eitt ár og ég held að við megum stytta hann um fleiri ár. Af því að heimurinn er fullur af fólki og peningum og alls konar, en við eigum ekkert nógan tíma.“
Illugi flokksbróðir þeirra stytti einmitt framhaldsskólann og gerði hann óaðgengilegan þeim sem eru 25 ára og eldri, enda þarf fólk ekkert að mennta sig of mikið (nema það sé af efnafólki komið og ætli að læra réttu námsgreinarnar) því fólk er bara vinnuafl, og því meiri fjöldi sem er lítið menntaður og hugsar bara um peninga, því betra er fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Allt svona upplýst menntamannahugsjónadót þvælist bara fyrir í kjörklefanum.

Konur geta verið ritarar og varaformenn en ekki formenn Sjálfstæðisflokksins. Konurnar komast ekki að fyrir köllunum. Vegna innbyggðar andstöðu við kynjakvóta og framgang kvenna komu konur einstaklega illa úr síðasta prófkjöri. Ef marka má skoðanakannanir þá verða úrslit kosninganna þannig að konur verði aðeins þriðjungur þingmanna flokksins, og yrði enginn flokkur með lægra hlutfall kvenna á þingi.

Hagsmunagæslan
Kynnisferðir eru í eigu foreldra og frændsystkina Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, varar við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu en fyrsta ráðherrafrumvarp Bjarna snerist um afturköllun slíkrar hækkunar. Lífeyrissjóðir keyptu 35% hlut í Kynnisferðum af Engeyingum í fyrra, þar af lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins; fjármálaráðherra skipar helming stjórnar sjóðsins. Kynnisferðir er annað tveggja fyrirtækja sem reka flugrútuna og semur um það við ríkisfyrirtækið Isavia. Fjármálaráðherra skipar stjórn Isavia. Hentugt.

Spillingin
Listinn er langur svo að ágripið er stutt, flestu sleppt enda of margir Sjálfstæðismenn spilltir. Látum kjörna fulltrúa nægja. Gísli Valdórsson var reyndar bara aðstoðarmaður Hönnu Birnu en tók þó að sér (óumbeðinn?) að rægja hælisleitanda en endaði á að missa starfið og ráðherrann embættið. Styrkjamál Guðlaugs Þórs (sem ætlar að sitja endalaust á þingi og engum dettur í hug að losa sig við hann), Illugi og ágæti leigusalinn hans hjá Orku Energy, Ólöf með Alcoatengslin og Panamareikningana, Bjarni Bjarni Bjarni Bjarni. Fjölskylda Bjarna, Engeyingarnir, hafa tekið Kolkrabbann á annað stig og eru í óða önn að leggja undir sig ferðamannabransann auk fjármálafyrirtækja (Borgun). Bjarni þykist ekkert vera með í þessu eftir að hann settist á þing, hvort sem það er satt eða eignarhaldið er gegnum Panamafélag, en hann er lögerfingi foreldra sinna og mun því alltaf fyrr eða síðar auðgast á öllu þessu braski. Já og Panamaskjölin. Var búið að koma fram að fjármálaráðherra landsins stofnaði aflandsfélag til að sleppa við skattgreiðslur? Og að hann er óskoraður leiðtogi flokksins samt sem áður? Það er náttúrlega bara eitthvað að fólki sem kýs þennan flokk.

Í dag birtir Illugi Jökulsson ágætan pistil, „Mundum við kjósa Magnús prúða?“ þar sem hann veltir fyrir sér af hverju íslenskt alþýðufólk kýs flokka auðvalds og yfirstéttar. Það er varla til meir viðeigandi pistil til að enda þessa úttekt á Sjálfstæðisflokknum.

Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn hefur aldrei fordæmt daður borgarstjórnarflokksins við fylgi rasista. Borgarstjórnarflokkurinn veiddi einnig atkvæði útá baráttu fyrir því að flugvöllurinn yrði kjur í Vatnsmýrinni — rökin voru að það væri svo lífsnauðsynlegt fyrir landsbyggðina að sjúkraflug gæti lent sem næst Landspítalanum. Nú á síðustu metrum kosningabaráttunnar vill forysta flokksins reisa spítalann sem lengst frá flugvellinum. Eina skýringin á þessu útspili er að Sigmundur Davíð hafi gert flutning spítalans að skilyrði fyrir því að þegja í aðdraganda kosninganna.

Framsókn hefur hinsvegar fordæmt Ríkisútvarpið. Aðallega hafa það verið Vigdís Hauks (sem er hætt á þingi, vúhú!) og Sigmundur Davíð sem hafa litið á alla gagnrýni á ríkisstjórnina sem árásir og pólitískan áróður, en eftir stendur að ráðamenn þjóðarinnar hafa markvisst reynt að grafa undan trausti á ríkisfjölmiðli.

Ég ætla ekki að eyða púðri í að skrifa um allt það sem hægt væri að segja um Sigmund Davíð, ekki einu sinni rifja það sem ég hef þegar sagt um hann. Mér þykir hinsvegar athyglisvert hve allir virðast hafa sætt sig við að Sigurður Ingi hafi tekið við af honum. Fyrst reyndar varði hann skattaskjólsnotkun forsætisráðherrans og sagði að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi. Raunar var allur Framsóknarflokkurinn svo meðvirkur með Sigmundi (og sumir enn) að það leit helst út fyrir að þau hefðu lent í fjöldadáleiðslu. Eftir því sem lengur leið frá því að Sigurður Ingi tók við forsætisráðuneytinu virtust áhrif Sigmudar Davíðs á flesta dvína. Og kannski vegna þess að Sigurður Ingi getur aldrei orðið jafn slæmur og Sigmundur er nánast ekki sagt styggðaryrði um Sigurð Inga, í mesta lagi rifjaður upp Fiskistofuflutningurinn. En það er ekki alveg það eina sem hann gerði áður en hann varð forsætis. Í janúar 2014 skrifaði ég pistil þar sem ég var að furða mig á afhverju fólk kaus ríkisstjórnina yfir sig, og taldi upp ýmis mál sem tengdust Brynjari Níelssyni, SDG, Frosta Sigurjónsson, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og sagði þá þetta um Sigurð Inga:
„Með nýrri ríkisstjórn opnaðist möguleiki á að virkja meira og nú er lagt til atlögu við Þjórsárver með því að sneiða úr friðlandinu (eða það sem átti að vera friðland) en stækka það í staðinn í allar aðrar áttir — sem væri ágætt ef það væri ekki bara yfirvarp virkjanaáformum í hag. Landsvirkjunarforstjórinn á sér dyggan stuðningsmann og klappstýru í gervi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra (lesist: vinnur-gegn-umhverfinu-ráðherrann) sem stefnir nú ótrauður á að svína á rammaáætlun. Gagnrýni vísindamanna afgreiddi ráðherrann með því að þeir tækju pólitíska afstöðu í málinu og væru því ómarktækir sem fagmenn, en vísindamennirnir höfðu birt leiðréttingar við rangar fullyrðingar ráðherrans um breytingar á mörkum fyrirhugaðs friðlands Þjórsárvera, eins og þeim ber að gera. En það virðist fara framhjá honum, sem Ingimar Karl benti á, að „Umhverfisráðuneytið er ekki deild í iðnaðarráðuneyti eða skúffa hjá Landsvirkjun.“

Þó smærra mál sé, þá er það ágætt dæmi um hroka Sigurðar Inga að hann samþykkti, nú í gervi sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra (svo var verið að gagnrýna Steingrím Joð fyrir fjölda ráðherraembætta), að hvalmjöl væri notað í bjór, að því er virðist bara til að reka fingurinn framan í fólk sem er á móti hvalveiðum, því heilbrigðiseftirlitið var búið að hafna því að hvalmjöl mætti nota til manneldis (spurning í hvað það er notað, hundafóður eins og í Japan?) og þeir sem brugga ölið vilja meina að bragðið sé nánast ógreinanlegt. En Sigurði Inga þykir auðvitað mikilvægt að halda málstað hvalveiðisinna á lofti.“

Mikið gengur á í aðdraganda kosninga að kaupa atkvæði, tryggja yfirráð, og með einum eða öðrum hætti reyna að hanga á valdastólunum eða í versta falli hafa sama aðgang og áður að gæðum lands. Eitt ágætt dæmi er Gunnar Bragi Sveinsson sem hreinsaði út úr stjórn Matís til að koma rétta fólkinu að (Framsóknarfólki sem þurfti að tryggja stöður) en sást ekki fyrir og skipaði í stjórn konu sem alls ekki vildi þann mikla heiður. Honum finnst það soldið vandræðalegt en bendir sér til varnar á að stjórnarmenn sem þurftu að víkja hafi hvorteðer verið Framsóknar- og Sjálfstæðismenn. Það er galið, hvernig sem á það er litið.

Lokaorð

Fyrst eftir Panamaskjalauppljóstrunina skrifaði ég:
„Það eina undarlega er að þetta fólk hafi komist til valda. Þrátt fyrir augljós tengsl Bjarna við hrunvalda var hann kosinn til áhrifa. Hvað voru kjósendur að hugsa? Munu þeir aftur skila xD kjörseðli í næstu þingkosningum, eða xB? Slá striki yfir ekki bara aðdraganda hrunsins, heldur þetta kjörtímabil líka og láta þessa svívirðilegu eiginhagsmunaflokka enn einu sinni setjast að kjötkötlunum? Sem þó kæmi ekki á óvart heldur.“
Lára Hanna Einarsdóttir skrifaði pistil um aflandsfélög, ríkisstjórnarflokkana og þá furðulegu staðreynd að þeir voru kosnir til valda. Pistillinn heitir „Að kyssa vönd og kúga þjóð“, og ég sagði í júní að ég myndi rifja hann upp fyrir kosningarnar. Þið verðið að lesa hann aftur.

Við göngum nú til kosninga til að losna við stjórnina sem kom í ljós að var skipuð fólki sem átti peninga á reikningum í útlöndum í stað þess að nota þá í íslenska hagkerfinu, leyndi því og laug að kjósendum og þjóðinni allri. Siðspilltasta svínið hrökklaðist frá en stjórnin sat áfram lítið breytt. Panamastjórnin, Stigamannastjórnin, hvað við viljum kalla hana, er á förum úr Stjórnarráðinu, gætum þess að hún eða einstakir ráðherrar hennar og stjórnarliðar komist ekki þangað á næstunni. Við vitum nú hvernig fólk þetta er, hvert það vill fara með samfélagið, og að það hefur ekkert lært af hruninu.

Einkavæðing nýtur ekki vinsælda, hagsmunagæsla fyrir útgerðina og skagfirska efnahagssvæðið er eitur í beinum allra annarra en þeirra sem græða á henni, þessvegna hafa stjórnarflokkarnir kastað yfir sig skikkju félagshyggjunnar í kosningabaráttunni og þykist nú vilja endurreisa heilbrigðiskerfið, bæta kjör aldraðra og öryrkja, laga hitt og laga þetta sem aldrei stóð til áður. Þetta er ekki trúverðugt og skín í gegn að þetta eru innantóm kosningaloforð.

Það er góð ástæða til að taka undir með orðum Óttarrs Proppé frá í vor:

Guð blessi Ísland og allt það, en tröll taki þessa ríkisstjórn.


Efnisorð: , , , ,