mánudagur, október 24, 2016

Kvennafrídagurinn 2016

Það er vont að enn sé ekki búið að útrýma kynbundnum launamun. Það er vont að störf sem hefðbundnar kvennastéttir vinna séu minna metin til launa en störf hefðbundinna karlastétta.

Það er gott að konur gangi út og neiti að vinna fullan vinnudag þegar ekki er borgað fyrir fullan vinnudag. Það er gott að það sé haldinn útifundur til að mótmæla og til að sýna samstöðu gegn óréttlætinu.

Mætingin á Austurvelli var góð. Svo var líka mætt á Akureyri, Grundarfirði, Hellu, Höfn í Hornafirði, Neskaupstað og Þorlákshöfn, sem er líka jákvætt.

Óþægilega tilfinning dagsins var þegar Justyna Grosel steig á svið til að halda ræðu, og skömmin yfir hvernig við förum með erlent verkafólk og hvernig svínað er á þeim í launum helltist yfir mig. (Meðallaun Pólverja hér á landi eru aðeins 57 prósent af meðallaunum Reykvíkinga í sömu störfum.) En Justyna var ekkert að ávíta okkur fyrir það heldur sagði pólskar konur standa með íslenskum konum einsog við höfðum staðið með þeim þegar pólska ríkisstjórnin ætlaði endanlega að svipta konur öllum möguleikum til fóstureyðinga.

Aulahrollur dagsins var þegar helvítis ‘valkyrkjuklappið’ var tekið. Ég hef aldrei heyrt víkingaklappið; hef lagt mig fram um að það að heyra það aldrei. En þegar þetta skall á þarna á Austurvelli áttaði ég mig nú samt strax á hvaðan þessi hroði var upprunninn — og fannst ég samstundis vera umkringd fótboltabullum. Nei þetta var ekki valkyrjuklapp, þetta var bara asnalegt og óþolandi.

Stjörnumóment dagsins var að ganga fram á Steinunni Jóhannesdóttur, sem stóð í fremstu víglínu á kvennafrídaginn 1975, en hafði nú verið stillt upp fyrir myndatöku því hópur kvenna hafði stöðvað hana til að fá að taka af henni myndir þar sem hún stóð með Áfram stelpur skilti. Rétt eins og ég var bæði ánægð með útifundinn og fannst hann óþægilegur á köflum, voru konurnar sem tóku myndirnar af Steinunni bæði glaðar yfir samstöðunni og reiðar yfir því að að þurfa enn og aftur að taka 'kvennafrí' og mæta á útifundi til að berjast fyrir því að orðið sé við þeirri sjálfsögðu kröfu að fá sömu laun fyrir sömu vinnu.

Efnisorð: , ,