föstudagur, október 07, 2016

Gordíonshnútur Geysissvæðisins

Ríkisstjórnin er mjög framtakssöm þessa dagana, enda stutt í kosningar og auk ýmissa kosningaloforða er gott að geta flaggað nýjum afrekum sem ganga í kjósendur (sala ríkiseigna hugnast ekki þessari kjósönd en dæmi um jákvæð mál varða t.d. fæðingarorlof og bætur; það síðartalda kemur reyndar alltof seint á kjörtímabilinu og er augljóslega bara ætlað að friða kjósendur*).

Það allra jákvæðasta sem ríkisstjórnin hefur gert undanfarið og kemur mjög á óvart er samkomulag um kaup ríkisins á öllum eignarhlutum landeigendafélags Geysis innan girðingar á Geysissvæðinu.** Svæðið hefur verið bitbein ríkisins og landeigendafélagsins í áratugi og hver bent á annan varðandi umhirðu þess. Nú sér fram á betri tíð.

___
* Viðbót: „Ríkisstjórnin lagði í gær til breytingar á lögum um almannatryggingar. Í þeim felst meðal annars að lágmarksgreiðslur til öryrkja og eldri borgara hækki upp í 300 þúsund krónur á mánuði frá 1. janúar 2018. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segir ríkisstjórnina vera að reyna að slá ryki í augu kjósenda“, eins og lesa má í frétt á ruv.is. Sömuleiðis bregst Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara, illa við tillögum ríkisstjórnarinnar, eins og lesa má um í frétt Stundarinnar.

** Það er ekki jafn heppilegt að Bjarni Ben hafi aðkomu að þessu, því faðir hans og fleiri nánir ættingjar eiga eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Efnisorð: ,