fimmtudagur, september 22, 2016

12 á palli

Fyrsta þingkosningakappræðufundinum í sjónvarpssal er lokið. Tólf manns mættu fyrir hönd þeirra flokka sem hyggjast bjóða fram til Alþingis. Sömu flokkar sendu átta karla og fjórar konur til að tala fyrir framboði sínu, yfirleitt formenn flokkanna. Þessi áberandi karlhygli var ekki það eina sem var eftirtektarvert. Nýi píratinn vakti athygli fyrir að vera klæddur eins og möppudýr og fer í sögubækur fyrir litlausa framkomu. Ríkissjónvarpið stóð sig illa í að birta nöfn og flokksheiti þeirra sem höfðu orðið hverju sinni og það var óheppilega auðvelt að rugla saman píratanum, þjóðernissinnanum og húmanistanum; í sjón voru þeir allir keimlíkir.

Klæðnaður karlanna var hefðbundinn: Óttarr Proppé í sínum gulu jakkafötum og Bjarni Ben í sínum bláu. Benedikt frændi hans gerir einnig tilkall til bláa litarins, enda næstum sami flokkur, og stóðu Engeyingarnir hlið við hlið. Ég gleymdi að horfa á Benedikt þegar Bjarni talaði um að selja bankana og tók því ekki eftir hvort fór um hann eftirvæntingarskjálfti, því Engeyingum er auðvitað ætlaður góður skerfur ef ekki heilu og hálfu bankarnir þegar útdeila á því góssi.

Albaníu-Valdi skammaðist yfir Samfylkingunni og Vinstri grænum sem var afar fyrirsjáanlegt. Sigmundur Davíð kom heldur ekkert á óvart, hann fór með nú löngu þreytta ræðu um ekki aflandseyjafélagið sem hann átti ekki en kona hans borgaði allt af. Hann neitaði í ofanálag að biðjast afsökunar á neinu (en lét það hljóma eins og hann þyrfti almennt að biðjast afsökunar á mörgu, sem er asnaleg aðferð við að koma sér undan að biðjast afsökunar á tilteknum hlutum) og var ekki til viðtals um siðferðilega breytni sína. Eitthvað var húmorinn bilaður líka því hann þóttist ekki muna nafn Kára Stefánssonar. (Hafi einhver hlegið vil ég að sá gefi sig fram.) Meðan á þættinum stóð virtist Sigmundur ekki hlusta á það sem fram fór heldur var í símanum, kannski að lesa leiðbeiningar frá Jóhannesi útskýrara, eða að fá knús og hvatningu frá Önnu Sigurlaugu.

Játning kvöldsins var dregin uppúr þjóðernissinnanum þegar hann var spurður um lítið fylgi Þjóðfylkingarinnar. Fylgismennirnir reynast nefnilega vera Íslendingar í útlöndum, aðallega innflytjendur á Norðurlöndum, ef marka má svar forsvarsmanns flokksins sem berst gegn innflytjendum. Íronían virðist alveg hafa farið framhjá honum.

Nýliði kvöldsins var Inga Sæland frá Flokki fólksins. Hún var með allt á hreinu og mjög skelegg. Ég ætla að fylgjast með þessum flokki, hann virkar efnilegur, ef marka má kappræðurnar.

Oddný G Harðardóttir stóð sig því miður ekki vel. Ef ég hefði ekki vitað betur hefði ég haldið að hún væri nýliði en ekki reyndur pólitíkus. Kata rokkaði hinsvegar — og þá á ég við þegar Katrín Jakobsdóttir útskýrði hvernig hún vildi fjármagna heilbrigðiskerfið. Hún benti t.d. á að 80 milljörðum er skotið undan skatti árlega. Og svo spurði hún Ghostbusters-spurningarinnar: hverjum treystiði til að takast á við skattaundanskotin?





Efnisorð: , , ,