miðvikudagur, ágúst 31, 2016

Ágústmánuðurinn

Þingið kom saman í ágúst og fjölmiðlar fullir af fréttum um búnaðarsamninga, námslán og fleira það sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja að verði að lögum áður en gengið verður til kosninga. Nú síðustu daga eru bónusgreiðslur fordæmdar ótt og títt af þingmönnum, meira segja Falsonsilfurskeiðungnum – enda um að gera að þykjast vera á móti því að sumir hagnist (óeðlilega) mikið meira en aðrir. Eftir kosningar mun Sjálfstæðisflokkurinn, komist hann aftur til valda (úff), svo aftur aðhyllast að græðgi sé góð, og greiða götu fjárglæframanna ýmislegra (ekki að hann sé neitt að fara að leggja stein í götu Kaupþingsgræðgispunganna). Fram að því ætlar „velferðarráðherrann Bjarni“ að þykjast hafa hug á að „bæta samfélagsþjónustu, minnka greiðsluþátttöku sjúklinga, efla Landspítalann og bæta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum“. Alltaf verður til fólk sem trúir svona kosningabrellum, því miður.

Hér verður gerð tilraun til að skoða nokkra viðburði ágústmánaðar. Reyndar má stytta sér leið með því að endurrita það sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði í Fréttatímann nú um helgina.

„Forstöðukona á barnaheimili þarf að gefa hundrað manns að borða þrisvar á dag, fyrir 30 þúsund krónur.

Braskarar dusta rykið af úreltu borgarskipulagi frá því fyrir hrun og reikna út að það eigi að greiða þeim mörg hundruð milljónir fyrir að leyfa gömlum húsum að standa. Af því það væri vel hægt að byggja hótel í staðinn. Eða bara eitthvað annað.

Öryrkjar og sjúklingar selja lyfin sín á Facebook til að eiga fyrir mat og húsaleigu. Einhvers staðar í myrkrinu, í skarkala helgarinnar, hnígur ungur maður niður fyrir utan veitingahús eftir of stóran skammt af verkjalyfi og félagi hans reynir að blása í hann lífi.
[…]
Landspítalinn sendir innheimtulögfræðinga á skjólstæðinga sína til að rukka fyrir veitta þjónustu á geðdeild. Það vantar peninga til að reka spítala og sjúklingar fá ekki liggja þar. Þeir eru sendir fárveikir heim og unglingum í sjálfsvígshættu er vísað út á götu. Á meðan liggja milljarðar ríkasta fólks landsins á aflandsreikningum og þrír ráðherrar þurfa aldrei að sýna fram á svart á hvítu hvort þeir notuðu sín aflandsfélög til að svíkja undan skatti líkt og þorri þeirra sem eru í sömu sporum.
[…]
Það er auðvitað líka kominn verðmiði á sjúklinga. En bara suma. Hinir eru ókeypis og bráðum vill þá enginn.
[…]
Og útgerðarmenn réðu sér nýjan framkvæmdastjóra í vikunni. Einu sinni var hann talsmaður þess að ekkert væri athugavert að láta almenning borga auðmönnum peninga fyrir að horfa á fallega náttúru. Nú er hann orðin talsmaður þeirra auðmanna sem vilja veiða fiskinn í sjónum án þess að borga markaðsverð til almennings.“
Ég setti inn tengla þar sem mér fannst eiga við, vonandi skemmir það ekki hinn stórgóða leiðara Þóru Kristínar, sem ætti auðvitað að lesa í heild sinni.

Í ljós hefur komið að ríflega 23 þúsund aldraðir og öryrkjar greiddu rúmlega tvöfalt meira í tannlækniskostnað en þeir áttu að gera. Ég er alveg að sjá þeim þetta endurgreitt af núverandi ríkisstjórn, eða kannski þeirri næstu þegar frjálshyggjumenn á borð við Guðmund Edgarsson , sem er andsnúinn ódýrum hvað þá ókeypis tannlækningum, komast hugsanlega á þing.

Loksins er farið að byggja leiguíbúðir í höfuðborginni og ættu þá allir að kætast. Það er bara þetta litla spörsmál um leiguverðið, en Leigufélagið er með að því virðist hreint ágætar 2ja herbergja íbúðir sem leigja má fyrir 240.000 krónur á mánuði. Ætli þeir einu sem hafa efni á þessum prís séu ekki landeigendur við Sólheimasand? Þeir rukka 100.000 kall fyrir að skoða flugvélaflak og þurfa ekki marga áhugasama flakgesti til að geta reitt fram leiguna. Það væri ágætt ef landeigendur og leigusalar með svona prísa ættu bara innbyrðis viðskipti. Kjaftur og skel og allt það.

Af öllum þeim flóttamönnum sem flúið hafa Sýrland munum við best eftir Alan Kurdi sem var þriggja ára þegar hann drukknaði við Grikklandsstrendur. Þeir sem gagnrýna fólk sem kemur til Evrópu á flótta frá stríðsástandinu í Sýrlandi var svo veitt annað kjaftshögg þegar myndir birtust af Omran Daqneesh sem er fimm ára og býr í Aleppo þar sem hann varð fyrir loftárás. Þeir sem ekki flýja eru ekki óhultir, hafi það farið framhjá einhverjum hingað til.

Já og vel á minnst: Svei þeim Íslendingum sem hafa áhuga á að greiða götu „Norrænu mótstöðuhreyfingunni“ sem hefur rasisma á stefnuskránni og að Ísland verði bara fyrir fólk frá Norður-Evrópu.

Sýrland er ekki eina landið þar sem ekki er friðvænlegt eða lífvænlegt að búa. Kólumbía hefur verið undirlagt af innanlandsstríði í áratugi. Nú hafa stjórnvöld skrifað undir friðarsamkomulag ásamt FARC-skæruliðunum sem hafa haldið íbúum landsins í heljargreipum (og séð umheiminum fyrir fíkniefnum). Vonandi heldur friðarsamkomulagið svo Kólumbía geti risið úr öskunni.

Að lokum fréttir úr dýraríkinu: Hákarlar geta orðið allt að fimm hundruð ára gamlir. Þeir elstu gætu hafa komið í heiminn um svipað leyti og Kólumbus rambaði á Ameríku árið 1492, eða í síðasta lagi á tímum frönsku byltingarinnar árið 1789. Það væri ráð að athuga hvort mannskepnan getur ekki átt einhver samskipti við hákarla svo hægt sé að spyrja þá um hvar þeir voru þegar ...

— Eða það sem betra er, spurt hvort sagan sé dæmd til að endurtaka sig. Svona í ljósi þess að svo virðist sem 2007 sé komið aftur og stefnir jafnvel í 2008 endurtekningu líka. Nema nú með dassi af þjóðernishyggju og útlendingaandúð.

Efnisorð: , , , , , , , , ,