fimmtudagur, ágúst 04, 2016

Fordæmi Færeyinga

Ekki er það oft sem Færeyingum tekst að koma Íslendingum í bobba. En nú hefur það gerst að íslenskir útgerðarmenn eru í standandi vandræðum eftir að Færeyingar buðu upp fiskveiðiheimildir. Og fengu bara rokna pening. Útlendingar (eða félög í erlendu eignarhaldi eins og það heitir) keyptu að vísu megnið af kvótanum, en af getur ekki gerst hér á landi, ef marka má Steingrím J. Sigfússon fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem segir að hér sé
ströng löggjöf sem banni erlent eignarhald í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. „Auk þess sem eignarhaldið í íslenskum sjávarútvegi er innlent það best ég veit … Við vorum forsjál að því leyti þegar við girtum alveg fyrir það að auðlindin gæti lent í höndum útlendinga hvað varðar fiskveiðar og frumvinnslu," segir hann.
En hin mjög svo kapitalíska uppboðsleið Færeyinga, þar sem sá fær kvótann sem borgar mest, fer mjög fyrir brjóstið á hinum mjög kapitalísku íslensku útgerðarmönnum. Hamast þeir nú sem mest þeir mega við að berja niður þann kvitt sem kominn er upp á Íslandi að útgerðin geti kannski bara borgað hressilega fyrir að veiða fiskinn í sjónum (veiðigjöldin eru, eins og kunnugt er, svo lág að ríkiskassinn fitnar lítið en sérstaklega stærri útgerðirnar greiða eigendum sínum gríðarlegan arð).

Til mótvægis eru því hagfræðingur og „samskiptastjóri“ (líklega nýtt heiti fyrir almannatengil) Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS, áður LÍÚ) nú sífellt að skrifa í fjölmiðla til að benda á hvað uppboðsleiðin sé hættuleg. Báðir þessir starfsmenn SFS eru ungar konur, brosmildar, og koma í staðinn fyrir miðaldra kallana í jakkafötunum sem hingað til hafa verið í forsvari fyrir sægreifana, og hafa borið með sér svip valds og auðs. Þær eru partur af breyttu ímyndinni rétt eins og nýja nafnið. Hér er allt nýtt og ferskt og þarf að þekkja söguna til að geta flett upp fréttum um LÍÚ.

Samskiptastjórinn og hagfræðingurinn lögðu, fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, mikla áherslu á hvað starfsöryggi skipti máli fyrir starfsfólk í sjávarútvegi, í grein sem birt var 27. júlí. Starfsöryggi sem væri í hættu ef ríkið færi nú alltíeinu að bjóða upp kvótann. Þá gæti farið svo að stórfyrirtæki eignuðust hann allan.

Greinar þarf að senda inn með einhverjum fyrirvara og líklega var of seint að kippa henni til baka þegar enn bárust fréttir af sölu kvóta úr Þorlákshöfn til HB Granda. Og í raun er búið að selja sextíu prósent kvótans úr bænum á einu ári. Íbúarnir í öngum sínum. Starfsöryggi hvað?

Samskipta-og hagfræðiteymið er þó ekki af baki dottið. Í dag var önnur grein í Fréttablaðinu, sem birtist nokkrum klukkustundum áður en Steingrímur sagði að löggjöf kæmi í veg fyrir að kvóti geti lent í eigu útlendinga. Þar er enn haldið á lofti hvað veiðigjöldin séu góð en uppboðsleiðinni fylgi ýmsar ógnir, til að mynda gæti kvótinn endað í eigu útlendinga. Gullkornið „hér á landi er mikil arðsemi í sjávarútvegi“ vekur kátínu. Nær hefði verið að segja hreint út að sjávarútvegsfyrirtæki færa eigendum sínum mikinn arð, með dyggri aðstoð ríkisstjórnarinnar. Hjá Granda fá eigendurnir til að mynd þrjá milljarða í arð en ríkiskassinn fær einn í sinn hlut, svona til skiptana fyrir okkur hin, eigendur auðlindarinnar.

Á sömu opnu og góðu arðsömu uppboðsleiðaskelkuðu fyrirtækin reka áróður sinn er grein eftir Þorvald Gylfason. Hann er að tala um allt aðra hluti. En hann gæti allt eins verið að tala um útlenda og innlenda útgerðarmenn, þegar hann vitnar í það sem Arnaldur segir við Sölku Völku:
„Það voru bara höfð þjóðernaskipti á ræningjunum.“

Efnisorð: