sunnudagur, júlí 24, 2016

Ekkert að frétta úr Mosfellsbæ og Eyjum, annað en lygar

Heilbrigðisráðherra segist ekki hafa talað um milljarðasjúkrahús í Mosfellsbæ við fjárfesta. Þeir á móti segjast ætla að reisa sjúkrahúsið og sjá svo til hvort þeir fá leyfi fyrir því hjá stjórnvöldum. Síðari útgáfan er fjarstæðukennd en ekki trúi ég frásögn Kristjáns Þórs Júlíussonar neitt frekar. Hann hefur áður haldið því fram sem síðar reyndist lygi: Guggan verður ekki seld. Enda virðast fáir trúa því að nokkrum mánuðum áður en fastákveðið er að byggja sjúkrahúsið hafi fjárfestarnir ekkert minnst á það smotterí við æðsta vald heilbrigðismála í landinu. Það bendir semsagt margt til að Kristján sé að ljúga.

Öðrum Sjálfstæðismanni gekk betur að ljúga sennilega. Elliði Vignisson átti fund með tónlistarmönnum sem ætluðu að hætta við að spila í Eyjum um verslunarmannahelgina, og fékk þá til að gera við sig samning um allt annað en kröfur þeirra gengu útá. Enda ætlar lögreglustjórinn - flokkssystir og sérlegur stuðningsmaður Elliða - ekkert að bakka með sitt þöggunarferli. Þó tókst Elliða að láta eins og hann væri ekki í liði með henni og Þjóðhátíðarnefnd, og niðurstaðan verður því líklega sú að allar hljómsveitirnar spila, og öll kynferðisbrot á Þjóðhátíð verða þögguð niður og upplýsingar um þau fást ekki fyrr en öruggt er að enginn sé lengur að spá í hvort ekki hafi verið stuð í Eyjum. Komist Elliði á þing - sem ég vona ekki - verður hann örugglega fljótlega kominn til æðstu metorða í flokknum.

Hafi það farið framhjá einhverjum, þá já, mér finnst tónlistarmennirnir hafa klúðrað þessu algerlega. Þeir létu atvinnupólitíkus spila með sig.

Efnisorð: ,