mánudagur, júlí 18, 2016

Siðlausir, svífast einskis, og gráta það eitt að vera ekki ósnertanlegir

Sigurður Einarsson bankabófi sem nýtur sérmeðferðar er mjög reiður yfir meðferðinni á sér. Hann eins og fleiri af hans sort vildu umfram allt hefja afplánun strax og hæstaréttardómur féll, en er nú búinn að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu – í því skyni auðvitað að láta íslenska skattborgara greiða sér verulegar skaðabætur. Þetta hættir ekki að mergsjúga almenning. En hann er semsagt með einhverskonar málsvörn í Fréttablaðinu/Vísi (hvar slíkur málstaður er ávallt velkominn af hálfu eigendanna) og fer þar mikinn. Þessar tvær klausur vöktu athygli mína.

„Mig langar að hugleiða mína reynslu í nokkurskonar samantekt á þeim viðtölum og pistlum sem ég hef lesið í vikunni og endurspegla valdníðslu siðlausra dómara sem virðast vera ósnertanlegir, svífast einskis og dæma menn útfrá fyrirframgefinni skoðun sinni fremur en þeim lögum sem landið byggir á.“

„Hámark lágkúrunnar var í mínum huga þegar Sérstakur saksóknari gaf út „Red Notice“ á mig sem er alþjóðleg handtökuheimild með þann tilgang að handtaka stórhættulega glæpamenn eða hryðjuverkamanna hvar og hvenær sem er. Hann misnotaði aðstöðu sína og völd þó hann vissi vel að engin hætta stafaði af mér og ég væri staddur á heimili mínu. Úrræðið nýtti hann sér engu að síður sem tækifæri til að baða sjálfan sig í sviðsljósinu. Tilvera embættisins var vissulega háð því samkvæmt reglunum að viðhalda reiði samfélagsins og láta bankamenn líta út fyrir að vera að vera stórhættulega glæpamenn að ósekju.“

Sigurði hefði verið í lófa lagið að mæta til landsins þegar sérstakur boðaði hann til sín, en var með endalausa stæla með þeim afleiðingum að lýst var eftir honum. Snýr því svo núna öllu á haus og níðir sérstakan niður.

Best er þó að hann segir að sérstakur hafi misnotað aðstöðu sína og völd, svona í ljósi þess hvernig Sigurður fór með aðstöðu sína og völd í stærsta banka landsins. Og það er óneitanlega kátlegt að hann gagnrýni dómara með því að kalla þá siðlausa, og segir að þeir svífist einskis. Líttu í spegil, Sigurður.

Efnisorð: