Blóð, Busi, [Blair,] Dóri, Davi
Eftir sjö ára nákvæma rannsókn Chilcots lávarðar og nefndar hans á aðdraganda innrásarinnar í Írak árið 2003 er niðurstaðan sú að Tony Blair þáverandi forsætisráðherra Bretlands hafi anað útí glórulaust stríð til að þóknast George W. Bush. Hvorugur þeirra hafi haft neitt fyrir sér í því að innrásar væri þörf, þeir vissu ekkert hvernig ætti að haga stríðinu eða hvað tæki við þegar því lyki. Svo lauk stríðinu ekki nærri strax þótt Bush væri glaðbeittur nokkrum vikum eftir innrásina vegna þess að takmarkinu væri náð: mission accomplished – heldur fóru Bretar á brott 7 árum síðar og Bandaríkjamenn hættu ekki hernaði sínum fyrr en 2011. Og var þó innanlandsátökum í Írak hvergi nærri lokið – og ekki má gleyma að ISIS/Daesh er afsprengi stríðsins.
Blair ber sig nú aumlega en biðst ekki afsökunar, segist hafa sent þjóð sína í stríð í góðri trú. (Athyglisvert er að hann skipti um trú árið 2007 og gerðist kaþólikki, hefur þó greinilega ekki náð að tileinka sér mea culpa, mea maxima culpa syndajátninguna.) En þótt Blair biðjist ekki afsökunar hefur Corbyn núverandi formaður Verkamannaflokksins (og neitar að hætta) beðist afsökunar fyrir hönd flokksins, sem er vægast sagt neyðarlegt fyrir Blair.
Enda þótt Bush og Blair beri ábyrgð á innrásinni í Írak var íslenska þjóðin gerð samsek með þeim. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra skrifuðu upp á sitt einsdæmi Ísland á lista yfir viljugar þjóðir sem styddu innrásina. Þeir spurðu hvorki þingið, né ræddu ákvörðun sína við utanríkismálanefnd. Aðeins stækustu fylgjendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sættu sig við þessi vinnubrögð; sumir andstæðingar ákvörðunarinnar birtu heilsíðuauglýsingu í New York Times þess efnis að ákvörðunin væri „ekki í okkar nafni“. Þar fengu Davíð og Halldór verðuga ádrepu. Sumir þurftu þó ekkert hópefli eða þykka skýrslu til að gefa út ígrundað álit sitt. Helgi Hóseasson stóð löngum stundum með skilti sem á stóð: BLÓÐ -BUSI -DÓRI -DAVI.
Það eru engar líkur á því að Davíð biðjist afsökunar eða játi á sig einhverjar sakir. Gleymið því. Það er líka algjör óþarfi að setja rannsóknarnefnd í að skoða hvernig þeir Dóri Og Davíð tóku þessa ákvörðun. Við vitum að þeir tóku freka kallinn á þetta.
Hitt er verra að Lilja Alfreðsdóttir núverandi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins leitar greinilega í smiðju forvera síns í starfi þegar hún lét utanríkismálanefnd alþingis vita daginn áður en nefndin fór í sumarfrí að það stæði til að bjóða bandaríkjaher að hreiðra um sig að nýju; og vatt sér svo í það að skrifa með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna undir viljayfirlýsingu sem fjallar um „náið samráð í öryggis- og varnarmálum, loftrýmisgæslu og viðveru kafbátaleitarvéla auk annars“. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta þýði aukin umsvif og jafnvel að herinn komi til að vera. Jú, hin mikla breyting frá einleik Halldórs Ásgrímssonar er að Lilja lét utanríkismálanefnd vita í stað þess að hunsa hana algerlega, en gerði það á síðustu stundu svo það gafst auðvitað enginn tími til að ræða málið, hvað þá reyna að koma í veg fyrir undirritun viljayfirlýsingarinnar. Hersetan var eitt heitasta deilumál síðustu aldar (sem fékk endasleppan endi þegar Bush fór skyndilega með herliðið og þoturnar, og það þótt Davíð og Dóri hefðu stuttu áður skrifað uppá stríð fyrir hann) og því magnað að Lilja Alfreðsdóttir skuli sisvona semja við Bandaríkjaher um aukin umsvif hér á landi.
Það þyrfti kannski helst að fá einhverja lávarðanefnd til að skoða innvolsið í hausnum á ráðherrum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, bæði fyrr og síðar.
Blair ber sig nú aumlega en biðst ekki afsökunar, segist hafa sent þjóð sína í stríð í góðri trú. (Athyglisvert er að hann skipti um trú árið 2007 og gerðist kaþólikki, hefur þó greinilega ekki náð að tileinka sér mea culpa, mea maxima culpa syndajátninguna.) En þótt Blair biðjist ekki afsökunar hefur Corbyn núverandi formaður Verkamannaflokksins (og neitar að hætta) beðist afsökunar fyrir hönd flokksins, sem er vægast sagt neyðarlegt fyrir Blair.
Enda þótt Bush og Blair beri ábyrgð á innrásinni í Írak var íslenska þjóðin gerð samsek með þeim. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra skrifuðu upp á sitt einsdæmi Ísland á lista yfir viljugar þjóðir sem styddu innrásina. Þeir spurðu hvorki þingið, né ræddu ákvörðun sína við utanríkismálanefnd. Aðeins stækustu fylgjendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sættu sig við þessi vinnubrögð; sumir andstæðingar ákvörðunarinnar birtu heilsíðuauglýsingu í New York Times þess efnis að ákvörðunin væri „ekki í okkar nafni“. Þar fengu Davíð og Halldór verðuga ádrepu. Sumir þurftu þó ekkert hópefli eða þykka skýrslu til að gefa út ígrundað álit sitt. Helgi Hóseasson stóð löngum stundum með skilti sem á stóð: BLÓÐ -BUSI -DÓRI -DAVI.
Það eru engar líkur á því að Davíð biðjist afsökunar eða játi á sig einhverjar sakir. Gleymið því. Það er líka algjör óþarfi að setja rannsóknarnefnd í að skoða hvernig þeir Dóri Og Davíð tóku þessa ákvörðun. Við vitum að þeir tóku freka kallinn á þetta.
Hitt er verra að Lilja Alfreðsdóttir núverandi utanríkisráðherra Framsóknarflokksins leitar greinilega í smiðju forvera síns í starfi þegar hún lét utanríkismálanefnd alþingis vita daginn áður en nefndin fór í sumarfrí að það stæði til að bjóða bandaríkjaher að hreiðra um sig að nýju; og vatt sér svo í það að skrifa með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna undir viljayfirlýsingu sem fjallar um „náið samráð í öryggis- og varnarmálum, loftrýmisgæslu og viðveru kafbátaleitarvéla auk annars“. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta þýði aukin umsvif og jafnvel að herinn komi til að vera. Jú, hin mikla breyting frá einleik Halldórs Ásgrímssonar er að Lilja lét utanríkismálanefnd vita í stað þess að hunsa hana algerlega, en gerði það á síðustu stundu svo það gafst auðvitað enginn tími til að ræða málið, hvað þá reyna að koma í veg fyrir undirritun viljayfirlýsingarinnar. Hersetan var eitt heitasta deilumál síðustu aldar (sem fékk endasleppan endi þegar Bush fór skyndilega með herliðið og þoturnar, og það þótt Davíð og Dóri hefðu stuttu áður skrifað uppá stríð fyrir hann) og því magnað að Lilja Alfreðsdóttir skuli sisvona semja við Bandaríkjaher um aukin umsvif hér á landi.
Það þyrfti kannski helst að fá einhverja lávarðanefnd til að skoða innvolsið í hausnum á ráðherrum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, bæði fyrr og síðar.
Efnisorð: alþjóðamál, framsókn, sjálfstæðismenn
<< Home