föstudagur, júní 24, 2016

Forsetakosningar á morgun

Bannað er að vera með áróður á kjörstað og ég ætla að reyna að stilla mig um að það. Í staðinn verða hér tenglar og tilvitnanir í ummæli og góðar greinar um forsetakosningarnar en þó aðallega gegn ákveðnum forsetaframbjóðanda.

Meðan ég pota þessu inn í bloggið horfi ég með öðru auganum á forsetaframbjóðendur í sjónvarpssal. Sá hluti sem hafði fjóra efstu frambjóðendur er búinn (fáránlegt að hafa þau ekki öll saman) og nú stendur yfir sá hluti sem þau sem ekki mælast með tveggja stafa tölu í skoðanakönnunum fá náðarsamlegast að tala.

Að því sögðu er rétt að vara fólk við að fara í drykkjuleiki meðan það horfir á þáttinn. Ætli fólk að drekka sopa, hvað þá heilt staup, í hvert sinn sem Sturla segir ‘verðtrygging’ eða ‘stjórnarskrá’, er bráð áfengiseitrun yfirvofandi.

Hafi fólk sömuleiðis ætlað að skála fyrir Davíð í hvert sinn sem hann talaði um annað sem hann var spurður, skaut á fólk (jafnvel Katrínu Jakobsdóttur sem hann talaði um eins og hún hefði verið í forsetaframboði) eða var yfirhöfuð dónalegur, er mjög líklegt að mælist í þeim áfengi framundir mánaðamót.

Ég býst reyndar fastlega við að margir hafi hellt ótæpilega í sig meðan Guðrún Margrét Pálsdóttir reyndi að svara spurningum um hjónabönd samkynja para og fóstureyðingar, svo pínlegt sem það var að hlusta á hana tafsa og stama. Það mætti reyndar skrifa margt um það atriði, en það bíður betri tíma, enda liggur ekkert á þegar Guðrún Margrét á í hlut, ekki frekar en henni liggur á að klára setningar.

Hefst þá áróðurinn.

Illugi Jökuls skrifaði opið bréf til sægreifanna og ræddi við þá um forsetaframbjóðandann þeirra sem þeir réðu til starfa:
„Og þið réðuð Davíð Oddsson til að stýra áróðursmálgagninu ykkar.
Sjálfur hrunkóngurinn varð ritstjóri eins áhrifamesta fjölmiðils á Íslandi.
Þetta var náttúrlega bara eins og blaut tuska framan í andlit fólks sem ímyndaði sér að eftir hrun væri bæði brýnt og mögulegt að skapa óspilltara Ísland - en þurfti á heiðarlegum fjölmiðlum að halda til þess.[…]
Þið réðuð hann til að prédika yfir þeim sannfærðu. Þið réðuð hann til að stappa stálinu í valdamenn, æðstu embættismenn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, ykkar fólk!
Þið réðuð hann til að brýna fyrir ykkar mönnum að halda árunni hreinni. Marsera í takt. Lofsyngja sægreifa. Lækka gjöld ykkar. Ráðast af offorsi gegn minnstu tilraunum til að hrófla við ykkur. Hæðast að öllum sem blökuðu við ykkur.
Og það hefur ykkar maður gert skammlaust.[…]
Og nú er ykkar maður kominn í forsetaframboð.
Við skulum hafa sem fæst orð um þá beisklegu baráttu.
En auðvitað er helsta baráttumálið að berjast gegn hugsanlegum breytingum á stjórnarskránni. Það segir sig sjálft.[…]
Þið látið nú hvað eftir annað dreifa Morgunblaðinu ókeypis í öll hús á landinu, og þá bregst ekki að þar er að finna ómerkilegar áróðursgreinar sem ætlað er að níða skóinn af helstu keppinautum ykkar manns.
Heiðarlegu fólki.
Síðast nú í morgun.
Þar sem ábyrgðinni af Icesave er varpað á alla nema Davíð Oddsson. Manninn sem þó ber meiri ábyrgð á málinu en flestir aðrir.
Greinaskrifin í Mogganum vekja margar og leiðar spurningar um siðferðið á bak við svo skefjalausan áróður.
Bæði fyrir frambjóðandann sjálfan, þá starfsmenn Morgunblaðsins sem taka þátt í þessu, og fyrir ykkur sem eigendur blaðsins sem notið það í blygðunarlausum áróðri gegn tilteknum forsetaframbjóðendum.“

Í athugasemdakerfi við grein Jóns Trausta Reynissonar segir Reynir Eggertsson m.a.:
„Hjá forseta Íslands liggur undirskriftalisti tugþúsunda Íslendinga sem krefjast þess að hann vísi öllum breytingum á lögum um nýtingu auðlindarinnar til þjóðarinnar. Meirihluti á þingi hefur ekki enn treyst sér til að samþykkja þessi lög og senda til forseta af ótta við að hann vísi þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta vitum við. Óskastaða LÍÚ er að fá á Bessastaði ,,traustan" liðsmann sem kærir sig kollóttan um einhverjar undirskriftasafnanir; þ.e. mann sem ,,lætur ekki hræra í sér" heldur tekur eigin ákvarðanir. Slíkan forseta þarf á Bessastaði áður en kemur að væntanlegum haustkosningum þannig að lögfesta megi kvótakerfið endanlega í sessi og afgreiða stærsta rán Íslandssögunar frá. ,,Eftir það mega kosningar koma fyrir mér", syngur þá eignastéttin. Það verður stórmerkilegt að fylgjst með svörum forsetaframbjóðandans DO við spurningum um þjóðaratkvæði um kvótakerfið, eða hversu hann brygðist við fyrirhugaðri lagasetningu.“
Annarstaðar segir Reynir Eggertsson svo þetta:
„Framboð Davíðs er neyðarráðstöfun LÍU því þeir þurfa nauðsynlega að fá ,,traustan" mann á Bessastaði fyrir haustkosningarnar svo núverandi meirihluti þings geti samþykkt áætlaðar breytingarnar á kvötalögunum og sent til forseta ,,sem lætur ekki hræra í sér" með einhverjum undirskriftasöfnunum og undirritar í snatri endanlega stærsta rán Íslandssögunnar: ránið á nýtingarrétti fiskveiðiauðlindarinnar. Varist Trójuhestinn eða aðrar glíkar ,,gjafir Grikkja" og þeirra líka.“‬

Hér er svo grein Jóns Trausta Reynissonar, þar er margt sem ekki má gleyma þegar forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson er til umræðu, t.d. þetta:
„Tímaritið Time taldi [Davíð] upp sem einn af 25 mönnum sem báru mesta ábyrgð á efnahagskreppunni 2008. … taldi sig mikilvægan til að standa vaktina vegna reynslu sinnar og getu, en þegar hann stóð vaktina í Seðlabankanum fór bankinn á hausinn. Eftir bankahrunið, þremur árum eftir að hann tók við stöðunni, stökk hann með stýrivextina fram og til baka, snarlækkaði þá úr 15,5% í 12% en hækkaði þá aftur um 6 prósentustig á tveggja vikna tímabili. Hann tilkynnti líka um 620 milljarða króna lán frá Rússlandi eftir samskipti við Vladimir Pútín, en lánið stóðst síðan ekki, líklega sem betur fer, því hver vill skulda Pútín 620 milljarða? Það er að segja annar en Davíð, sem reyndi það fyrir okkar hönd, og gagnrýnir svo fyrri ríkisstjórn fyrir að reyna að semja um skuldir við breska og hollenska sparifjáreigendur. … baðst ekki afsökunar á því að seðlabanki þjóðarinnar fór í þrot þegar hann bar ábyrgð á honum - heldur fór í staðinn að endurskrifa söguna, gagnrýna aðra og bauð sig síðan fram sem forseti […] lét gera sjálfan sig að Seðlabankastjóra þannig að Seðlabankinn missti stöðu sína sem óháð aðhald við ríkjandi ríkisstjórn.”
Ingi Freyr Vilhjálmsson:
„Enginn einn einstaklingur á Íslandi ber eins mikla ábyrgð á efnahagshruninu sem varð á Íslandi árið 2008 og Davíð Oddsson […]Samfélagið sem hrundi 2008 var mannfélagið sem Davíð hafði lagt grunninn að og byggt upp með nær óhefta markaðshyggju sem leiðarstef þegar hann var forsætisráðherra á árunum 1991 til 2004. Á þessum tíma einkavæddu hann og Halldór Ásgrímsson - formannsræðið í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum á þessum tíma var nær algjört - ríkisbankana upp í hendurnar á pólitískum vildarvinum flokkanna og hófu bankarnir í kjölfarið gengdarlausar lántökur erlendis.
Þessi útlánasöfnun bankanna, og annnarra fjármálafyrirtækja á Íslandi, leiddi til þess að skuldir íslenska bankakerfisins urðu tólfföld landsframleiðsla og af því að það samræmdist ekki hugmyndum stjórnvalda og ríkisstjórnar Davíðs þá var fjármálaeftirlitið á Íslandi ekki styrkt og bætt samhliða vexti bankakerfisins. Bankakerfið á Íslandi var nær eftirlitslaust og af því það var ekki vilji til að veita því almennilegt og gagnrýnið aðhald þá fór sem fór.
[…]
Spurningin er: Hversu dýr verður Davíð allur? Og þá er ekki bara átt við beint fjárhagslegt tjón heldur siðferðilegt tjón, lýðræðislegt tjón, stjórnmálalegt tjón, orðsporslegt tjón; tjón af því að hafa þennan valdasjúka fulltrúa sérhagsmunafla í mögulega valdamesta, pólitíska embætti landsins í fjögur ár eða jafnvel lengur. Davíð hefur nú þegar valdið Íslandi djúpum og langvinnum pólitískum skaða.“
Svo má líka orða þetta í styttra máli eins og Sveinn nokkur Hansson gerði í athugasemd við fyrstu fréttir af framboði Davíðs:
‪Maðurinn sem setti seðlabankann á hausinn vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem skapaði allar aðstæður fyrir hrunið vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem samþykkti Írsksstríðið vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem er talinn einn af 25 helstu gerendum í hruninu vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Maðurinn sem gaf vildarvinum sínum Landsbankann vill verða forseti.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Endilega kjósum Davíð Oddson til að opinbera og staðfesta endanlega heimsku og siðblindu þessarar þjóðar.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
‪Til hamingju Ísland.‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬‬
Fyrirsögn Sunnu Kristínar Hilmarsdóttur segir líka margt um feril Davíðs: „Davíðs saga Oddssonar: Einkavæðingin, Íraksstríðið, Big Mac og Bermúdaskál“. Fleira er reyndar tínt til, svosem ummæli hans um fegurðardrottningar.

Og svo var það hin ágæta grein Bjargar Árnadóttur sem ég hef áður hampað, þar sem hún segir m.a. frá því þegar hún hitti Davíð Oddsson.

Eitt sem virðist hvergi koma fram í allri þessari pistlasúpu (eða mér hefur sést yfir það þegar ég þrælaði mér gegnum skjalasafnið) er að Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun með lögum árið 2002, og rökstuddi það m.a. svona í frumvarpinu: „Þá hefur starfsemi fjármálastofnana á þessu sviði eflst verulega með tilkomu greiningardeilda þeirra og margar þeirra gefa út mánaðarlegar skýrslur um efnahagsmál. Þær eiga því stóran þátt í umræðunni. Rannsóknastofnanir háskólanna hafa einnig eflst. Þótt þessir aðilar birti ekki heildstæðar þjóðhagsspár setja þeir fram rökstutt álit á þeim spám sem birtast og ekki ólíklegt að þeir muni í framtíðinni gera eigin spár. Það er því af sem áður var að slíkar upplýsingar verði að sækja til einnar og sömu stofnunar.“ Og var greiningardeildum bankanna látið eftir að fabúlera um efnahagsástandið og stöðugleika bankanna. Rauðu ljósin hefðu blikkað hjá Þjóðhagsstofnun en greiningadeildirnar voru eins og hverjar aðrar markaðsdeildir bankanna og börðu fótastokkinn sem ákafast þegar hylurinn blasti við. Það er annars skemmtilegt að í fréttinni (í Mbl. fyrir tíð ritstj.) þar sem sagt er frá dauðadómnum yfir Þjóðhagsstofnun, er vitnað í sumt af því fólki sem tók að sér hreinsunarstarfið eftir hrunið; þarna eru þau að vara við því að þjóðhagsstofnun verði lögð niður.

En aftur að framboðsþættinum áðan. Guðrún Margrét Pálsdóttir sagði snemma í þættinum eitthvað á þá leið að við eigum að heiðra fólk í stað þess að tala illa um það. Ég vil taka hana á orðinu og legg til að Ástríður Thorarensen verði heiðruð fyrir ótrúlega þolinmæði.


Efnisorð: , , , , ,