mánudagur, júní 13, 2016

Fjöldamorðin í Orlando

Það var í senn sorglegt og fallegt að sjá fánaborgina við ráðhús Reykjavíkur í dag. Regnbogafáni LGBTQ- fólks, fáni Bandaríkjanna og fáni Reykjavíkur blöktu þar í hálfa stöng til að minnast fórnarlamba skotárásarinnar í Orlando um helgina. Þar létu fimmtíu manns lífið og ríflega fimmtíu til viðbótar særðust þegar óður byssumaður lokaði fólkið inni klukkustundum saman og sallaði það niður með stríðstólum sem hann hafði keypt án nokkurrar fyrirstöðu í landi hinna frjálsu byssueigenda.

Fyrir utan það að þetta er mannskæðasta skotárás í Bandaríkjunum til þessa, eru nokkur atriði sem heimsbyggðin ræðir nú.

Sú staðreynd að árásarmaðurinn var afganskur að uppruna, og múslimi í þokkabót, og sagðist ennfremur styðja Íslamska ríkið (Daesh) – enda þótt ekkert bendi til að hann hafi verið á þess vegum.

Óheft byssueign Bandaríkjamanna og að hvaða vitleysing sem er getur keypt sér byssur sem eiga ekkert skylt við vopn til að verjast innbrotsþjófum eða skjóta sér í matinn.

Hatur á samkynhneigðum, sem sumir trúarhópar rækta mjög meðal áhangenda sinna. Phelps fjölskyldan í Bandaríkjunum er ein þeirra (og sú versta), en sumt hvítt fólk, sem kallar sig kristið, fætt og uppalið á Vesturlöndum — og ekki síst karlmenn — kemst í álíka uppám að sjá karlmenn kyssast og fjöldamorðinginn Omar Mateen.

Eins og Magnús Halldórsson kemst að orði í grein á Kjarnanum, þar sem hann ræðir byssueign Bandaríkjamanna ítarlega:
„Brotalöm í byssulöggjöfinni er eitt, en hatursglæpur gegn hinsegin fólki annað. Mikil samstaða hefur skapast meðal hinsegin fólks um allan heim eftir árásina í Orlando. Hún hitti samfélag hinsegin fólks í hjartastað, enda staðir eins og Pulse var, hálfgert athvarf fyrir fólk innan þessa samfélags. Það sækir styrk til fólks í svipuðum aðstæðum. „Pulse var griðarstaður fjölbreyttrar flóru hinsegin fólks, sem sumu hverju hafði verið úthýst af fjölskyldum sínum. Þar fann fólk nýja fjölskyldu, vini, gleði og ást. Árásin er því árás á hjarta hinsegin samfélagsins.“
Mér varð hugsað til hinnar ágætu hljómsveitar Bronski Beat sem gerði ekki bara fjöruga danstónlist heldur voru textarnir baráttutextar sem fjölluðu um líf samkynhneigðra, og án þess að vita neitt um tónlistarstefnu Pulse klúbbsins trúi ég því að lög Bronski Beat hafi oft ómað þar um sali. Lagið Why? á vel við eftir fjöldamorð helgarinnar en samt er finnst mér angurvær stemningin í Small Town Boy höfða meira til mín núna.

Efnisorð: , , , , , ,