miðvikudagur, júní 08, 2016

Hvergi skjól

Rúmlega tíu þúsund manns hafa drukknað síðastliðin tvö ár í Miðjarðarhafinu. Margir reyna siglingaleiðina frá Afríkuströndum, aðrir koma frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins en eru einnig á leið til Evrópu.

Þær raddir heyrast oft að best sé fyrir flóttamenn að fara ekki langt frá heimalandi sínu (með öðrum orðum: ekki koma til Evrópu). Gallinn er hinsvegar sá að þau lönd sem næst eru Sýrlandi eru ofsetin flóttamönnum. Straumurinn hefur legið úr Sýrlandi í fimm ár; margir eru þó enn á stríðshrjáðum svæðum, og þeir sem hafa lagt á flótta komast ekki (eða vilja ekki) allir úr landi. Nú í vikunni var ráðist á flóttamannabúðir í norðurhluta Sýrlands þar sem 400.000 manns dvelja. Loftárásin var framin af Rússum eða Sýrlandsher og féllu 28 manns, þar á meðal börn.

Handan Atlantshafsins situr prófessor með nemendum sínum og skráir illvirki Assads í Sýrlandi, til að flýta fyrir verði hann sóttur til saka fyrir stríðsglæpi. Prófessorinn fylgist einnig með öðrum stríðandi fylkingum í Sýrlandi, svo sem Daesh samtökunum sem kalla sig Íslamskt ríki. Gögnin telja nú 17 þúsund blaðsíður.
„Einn kafli í ákæruskjalinu er tileinkaður þeim 130 þúsund sem saknað er í Sýrlandi og pyntingunum sem leyniþjónusta Assads hefur beitt. Meðal gagnanna sem Crane hefur rannsakað eru ljósmyndir sem herljósmyndari stjórnarhersins smyglaði út úr landinu árið 2014, á minnislykli sem hann faldi í öðrum skónum. Á lyklinum voru myndir af ellefu þúsund líkum, fimm myndir af hverju þeirra. Þær sýna hvernig fólk hefur verið myrt með markvissum hætti í pyntingaklefum Assads.“
(Arnhildur Hálfdánardóttir fjallaði um drögin að ákæru á hendur Assad í Speglinum,og má hlusta eða lesa allan textann hér.)

Á meðan stríðandi fylkingar í Sýrlandi fremja stríðsglæpi á þeim sem ekki hafa þegar flúið land, og nágrannalöndin eru að sligast undan flóttamannastraumnum, sitja skriffinnar í útlendingastofnunum í Evrópu sveittir við að skrifa ábúðarfullar skýrslur sem sendar eru til fjölmiðla til að útskýra hversvegna tilteknir einstaklingar eða fjölskyldur (eða aðrir óæskilegir útlendingar) geti ekki fengið hæli vegna Dyflinarreglugerðarinnar.

Efnisorð: , ,