þriðjudagur, maí 17, 2016

Sameinuðu þjóðirnar og „friðargæsluliðar“ þeirra

Fyrr á árinu skrifaði ég pistil um friðargæsluliða og framferði þeirra í Bosníu. Nú rakst ég á nokkurra daga gamlan pistil eftir Ruby Hamad sem skrifar í ástralska Daily Life um kaldhæðnina sem felst í því að kalla herlið Sameinuðu þjóðanna friðargæslusveit. Pistillinn fer hér á eftir, mjög styttur og þýddur í skyndingu (afsakið villurnar), algjörlega án leyfis.*

Friðargæsluliðar. Orðið kallar fram mynd af ‘góðum gæjum’ sem gæta viðkvæmra hópa af eintómri óeigingirni. Sameinuðu þjóðirnar eru svo stolt af mönnunum með bláu hjálmana að 29. maí er Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna.

En nú í ár krefjast aðgerðarsinnar að haldið verði upp á daginn með öðrum hætti: hundruð hermenn SÞ verði dregnir til ábyrgðar og kærðir fyrir kynferðisbrot.

Í mars kom í ljós að friðargæsluliðar í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu, ásamt frönsku herliði, beitt tugi stúlkna kynferðisofbeldi. Að minnsta kosti 98 stúlkur urðu fyrir barðinu á þeim. Yfirmaður í franska hernum er sagður hafa neytt fjórar þeirra til að hafa kynmök við hund. Friðargæsluliði frá Kongó hefur verið sakaður um að hafa nauðgað 16 ára stúlku á hótelherbergi.

Að minnsta kosti 480 ásakanir komu fram um kynferðislega misneytingu og ofbeldi á árabilinu 2008 – 2013. Um börn var að ræða í þriðjungi tilvika.

í skýrslu em Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna birti kemur fram að á síðasta ári hafi komið fram 99 ásakanir í 21 mismunandi landi, þar á meðal Haiti, Marokkó og Suður-Afríku. Þar á meðal eru nauðganir á börnum niður í 13 ára aldur, flóttabörn neydd til að stunda kynlíf gegn því að fá mat, og rekstur á vændishring þar sem strákar og stelpur voru seld fyrir smápeninga.

Kynferðisofbeldi af þessu tagi á sér áratuga sögu. Í Kambódíu 1991-1992 voru á sveimi ótal ásakanir um kynferðislega áreitni og ofbeldi af hendi friðargæsluliða. 2003 var herlið SÞ sem var sent til Líberíu uppvíst að því að „stunda kynlíf“ með stelpum niður í 12 ára aldur. Einnig hefur herliðið verið sakað um að hafa rekið vændishús með mansalsfórnarlömbum frá Austur-Evrópu [eins og áður segir].

Enda þótt Sameinuðu þjóðirnar hafi allt frá árinu 2005 verið meðvitaðar um ítrekað ofbeldi sem friðargæsluliðarnir beita. Og þótt sagt sé í skýrslunni að þeim seku verði að refsa, hefur enn ekki einn einasti maður verið sóttur til saka.

Sameinuðu þjóðirnar studdu þó í mars síðastliðnum hálfvolgar tillögur um úrbætur, sem snúa að því að senda heim friðargæsluliða sem beita kynferðisofbeldi; en ekki hefur verið lýst yfir lögsóknum á hendur þeim seku.

Það er því engan vegin komist fyrir rót vandans: þá goðsögn að svokallaðir góðir gæjar séu ófærir um að fremja svívirðilega glæpi. Þegar þeir sem eru beinlínis ráðnir til að „gæta friðarins“ reka þess í stað ólögleg vændishús, nauðga án þess að vera refsað fyrir það, og neyða börn til að eiga kynmök við hunda, hafa orðin misst lögmæta merkingu sína.

Gagnrýnisraddir efast um að SÞ fylgi málum eftir, hvort þar sé ekki bara verið að lappa upp á ímyndina. Það rifjar upp orð Jennifer Clement rithöfundar sem talaði á kvennasamkomu fyrr á árinu. Hún sagði að svívirðilegt ofbeldi sem þetta héldi áfram „þar til líf kvenna og stúlkna fer að skipta meira máli“.

___
* Mælt er með fyrir þau sem það vilja og geta að lesa greinina á ensku, þar eru líka fjölmargir tenglar á heimildir og greinar um þetta efni.

Efnisorð: , , , ,