fimmtudagur, maí 19, 2016

Bjarnabófinn

Cashljós gærkvöldsins var eiginlega of ömurlegt til að hægt sé að ræða það. Þó er vert að nefna það að sá sem þar var til umræðu hefur verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til margra ára.

Júlíus Vífill er horfinn af vettvangi borgarmálanna (hvað sem síðar verður) en enn situr flokksbróðir hans og formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson í stóli fjármála- og efnahagsráðherra. Margt hefur verið skrifað um vammir og skammir hans, má þar nefna yfirgripsmikla umfjöllun Stundarinnar, sem t.d. benti á að þetta væri yfirvofandi:

Átta árum eftir Vafningsfléttuna: Sjóvá hjá Bjarna og sala undirbúin
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ber nú pólitíska ábyrgð á fyrirhugaðri sölu á hlut ríkisins í Sjóvá. Fjármálaráðherra tengdist sjálfur þeim viðskiptagjörningum fyrir hrun sem leiddu til þess að tryggingafélagið fór á hliðina.“

Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, ekki síst þegar það er haft í huga að Bjarni skipar einn og sjálfur nefndina sem á að sjá um sölu Sjóvá og annarra ríkiseigna, þ.á m. bankanna.

Jónas Kristjánsson skrifaði fyrir nokkrum dögum lista yfir helstu afrek Bjarna í viðskiptalífinu til þessa, og eru þau ekki beinlínis traustvekjandi.

„Bjarni Benediktsson var stjórnarmaður, stjórnarformaður eða hluthafi í fjölda gjaldþrota fyrirtækja, sem fengu milljarða afskriftir:

BNT móðurfélag N1, 4,3 milljarða gjaldþrot.
Umtak fasteignafélag N1, 20 milljarða afskrift.
Máttur, 21 milljarða afskrift.
IAG Holding áður Naust, 3,5 milljarða gjaldþrot.
Földungur áður Vafningur, 48 milljarða tap.
Þáttur International, 24 milljarða afskrift.

Mér er ekki ljóst, hvernig slíkur 120 milljarða fjárglæframaður á kostnað okkar getur verið fjármálaráðherra. Og hvað þá átt aflandsreikninga í skattaskjólum og tafið fyrir skattrannsókn þeirra. Furðulegt er, að Bjarni Benediktsson hefur ekki enn sagt af sér.“

Enn furðulegra er það skuli ekki vera stappfullur Austurvöllur dag eftir dag að krefjast afsagnar Bjarna.


Efnisorð: , ,