miðvikudagur, maí 25, 2016

Eftir urðu níu

Þá er orðið ljóst hvaða níu manneskjur eru í framboði í forsetakosningunum. Hér, undir „frambjóðendur“ má stöðluð viðtöl við þau næstum öll (einum frambjóðanda hugnast ekki að tala við ríkisfjölmiðilinn, þið megið giska á hver það er). Mér líst afar vel á tvo frambjóðendur en mun síður á hina, af ýmsum orsökum.

Skulu nú frambjóðendurnir níu afgreiddir snarlega í stafrófsröð.

Andri Snær Magnason
Andri Snær segir að forseti geti „vakið máls á málum sem brenna á fólki hverju sinni, hvort sem það eru húsnæðismál ungs fólks, framtíð menntunar eða málefni eldri borgara“. Hann „segist telja að forsetinn geti stuðlað að aukinni umræðu um náttúruvernd og stór hagsmunamál sem varða umhverfið - ekki síst málefni hafsins“.

Hann talar fyrir þjóðgarði á hálendinu og að klára stjórnarskrárferlið. Hann vill leggja rækt við íslenskuna og önnur móðurmál og berjast gegn ólæsi. „Góður lesskilningur og orðaforði eru mikilvægt veganesti til að takast á við lífið. Ísland á að vera land tækifæranna fyrir öll börn, ekki síst þau sem flytja til landsins.“

Svo má ekki gleyma að Andri Snær skrifaði hið magnaða Draumaland — sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð.

Mér finnst Andri Snær afar góður kostur í embætti forseta og tel að hann yrði okkur mjög til sóma.

Ástþór Magnússon
Enn einu sinni auglýsir Ástþór að hann á ekkert erindi við þjóðina. Síendurtekin framboð hans eru fyrst og fremst áminning um að það þarf að breyta skilyrðum til framboðs; að það þurfi ákveðna prósentutölu kosningabærra manna til að mæla með frambjóðandanum í stað þess að 1.500 undirskriftir dugi mönnum áfram í framboð eins og nú er. Enda þótt Ástþór tali fyrir friði þá hefur hann aldrei náð eyrum almennings, til þess er hann alltof galinn.

Davíð Oddsson
Davíð hefur verið formaður þáverandi stærsta stjórnmálaflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, Seðlabankastjóri, og ritstjóri fyrrum stærsta dagblaðsins. Honum þykir ekki nóg að gert og vill nú tróna efst í stjórnkerfinu, ráðskast með stjórnarmyndanir, stoppa allar tilraunir til að breyta eða koma á nýrri stjórnarskrá, og hafna öllum undirskriftalistum sem t.a.m. koma illa við stuðningsmenn hans í útgerðinni. Til allrar hamingju nýtur framboð hans lítils fylgis. Annaðhvort á hann eftir að finna sér tylliástæðu til að hætta við framboðið þegar nær dregur og hann sér fram á ekki bara tap heldur stórtap, eða þá að hann verður með skítadreifarann á lofti allt framá síðustu stund. Hann er þegar farinn að nota Moggann til að ata aðra frambjóðendur auri, varla skánar það úr þessu.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Elísabet skrifaði eina bestu ljóðabók síðustu ára, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta. Elísabet er líka skemmtilega öðruvísi, en hún stimplaði sig hinsvegar algjörlega út sem forsetaframbjóðandi í viðtali við Stundina með þessum ummælum.
Sér Elísabet til dæmis fyrir sér senuna þegar hún, sem forseti Íslands, hittir fyrirmenni í Evrópusambandinu og les þeim pistilinn. „Pútín og Margrét Danadrottning og þau öll, ég segi bara við þau „þið eruð öll helvítis skíthælar, að koma svona fram við flóttamenn. Og þú Pútín þarna, hvernig þú bombarderar Sýrland!“
Þetta átti kannski að vera fyndið, og auðvitað væri ágætt ef einhver læsi yfir hausamótunum á Pútín og fyrirmennum ESB (Margrét Danadrottning er þó líklega ekki rétta manneskjan til að skamma), en það er afar óþægileg tilhugsun að forseti landsins leyfði sér slíkt. Forsetaefni ætti ekki einusinni að gantast með svona.

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni segir að forseti á að vera öllum óháður, mannasættir, málsvari landsins, og sameiningartákn. Forseti á að „tryggja að þjóðin eigi síðasta orðið í stærstu málum sem hana varðar.“

Guðni er utan trúfélaga (ekkert bendir þó til að hann sé trúlaus) og segir sína trúarjátningu vera „mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna: „Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hver við annan.““ Þetta er besta trúarjátning sem ég hef heyrt.

Ef svo fer sem horfir verður Guðni næsti forseti. Það líst mér alveg hreint ágætlega á.

Guðrún Margrét Pálsdóttir
Það er skammarlegt en ég þurfti að rifja upp hvor er hvað, Guðrún og Hildur. En Guðrún er semsagt hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi formaður ABC barnahjálpar, og hefur fengið fálkaorðuna fyrir líknarstörf á alþjóðavettvangi. Það hljómar mjög vel, en svo versnar í því. Guðrún Margrét er nefnilega svo trúuð að hún vill halda bænastundir í Bessastaðakirkju, og ætlar að „standa fyrir Góð­gerð­ar­viku þjóð­ar­innar þar sem allir leita leiða til að verða öðrum til góðs og safna fjár­magni til að blessa aðra“, verði hún forseti. Sem ég leggst eindregið gegn.

Halla Tómasdóttir
Eins og ég vildi gjarnan að það hefði komið fram ‘sterk’ kona sem hægt hefði verið að kjósa, þá líst mér ekkert á Höllu. Jújú, hún virðist vera feministi, og margt sem hún segir er voða áferðarfallegt. En fortíð hennar hjá Viðskiptaráði er henni fjötur um fót, og ekki finnst mér Pepsi starfsreynslan vera neitt til að stæra sig af. Ef það er eitthvað sem Ísland þarf ekki á að halda er að einstaklingur úr viðskiptalífinu verði húsráðandi á Bessastöðum. Þar hafa áður allar gáttir staðið opnar fyrir allskyns ‘viðskiptajöfrum’ (sjá dómsmál yfir mörgum þeirra) og ekki á það hættandi að slíkt gerist aftur. Nei takk.

Hildur Þórðardóttir
Hildur er þjóðfræðingur að mennt, hefur skrifað leikrit og sjálfshjálparbækur (sem eru ekkert í átt við Draumalandið). Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og Samhjálp. Hún virðist vænsta kona og sósíalisti í þokkabót. En orkulíkamatal, fyrralífspælingar og allskonar heilunar-eitthvað á ekki uppá pallborðið hjá mér þegar ég kýs forseta.

Sturla Jónsson
Sturla er fulltrúi þeirra sem fóru illa úr hruninu, og virðist ætla að berjast fyrir sömu hlutum sem forseti og hann ætlaði sér þegar hann hugðist setjast á þing. Hann svarar spurningum um afstöðu sína til málefna ýmissa hópa fólks með vísun í 65. grein stjórnarskrárinnar (hann vill ekki nýja) sem segir að allir séu jafnir fyrir lögum. Eitthvað er það þröngur skilningur.

Hluti af forsetastarfinu felst í gestgjafahlutverki fyrir erlenda tignargesti. Ég sé ekki fyrir mér Sturla tækla það verkefni.


Læt staðar numið að sinni, en mig rennir í grun að ég eigi eftir að skrifa meira um einstaka frambjóðendur.

Efnisorð: , , ,