þriðjudagur, maí 31, 2016

Samantekt maímánaðar

Maímánuður hefur alltof mikið einkennst af Davíð Oddssyni. Ekki hef ég enn séð sjónvarpsþáttinn þar sem hann réðst á Guðna Th, og ekki var Mogginn borinn út til mín í dag, en þennan síðasta dag mánaðarins var þetta málgagn útgerðarinnar og hrunverjenda sent á (næstum) hvert heimili með sömu árásum á Guðna. Skítkast á skítkast ofan, eins og við var að búast.

Annars voru líklega óvæntustu tíðindi mánaðarins þegar Tryggvi Gunnarsson tölti sér fram í sviðsljósið og sagðist hafa nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankana og fer fram á rannsókn. Það er svosem ekkert nýtt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser sem á að hafa verið meðal kaupenda að gamla Búnaðarbankanum 2003 sé talinn hafa verið leppur. Fyrir það hefur hinsvegar margoft verið þrætt og ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar þar staðið framarlega í vörn, ekki síst framsóknarráðherrar fyrir sína menn í kaupendahópnum. En nú er annað hljóð í strokknum og í stað þess að segja að allt hafi verið með felldu við kaupin á Búnaðarbankanum segir meira að segja Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi viðskiptaráðherra að það verði endilega að rannsaka þetta mál. Engu líkara er en fórna eigi (loksins) Finni Ingólfssyni fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóra og Ólafi Ólafssyni sem nú afplánar dóm vegna Al Thani-málsins á milli þess sem hann býður viðskiptafélögum sínum í þyrluflug.

En fleira gerðist í maí.

Listasafn ASÍ
Talandi um einkavinavæðingu. Listasalur ASÍ við Freyjugötu var seldur rétt si svona. Afhverju var ekki tilkynnt um söluna með góðum fyrirvara svo ríki og borg eða samtökum myndlistarmanna gæfist kostur á að grípa inní eða jafnvel kaupa húsið? Enginn virðist hafa vitað um að ASÍ þyrfti að selja húsið fyrr en rétt í þá mund sem það var sett á sölu. Það virðist sem búið hafi verið að velja hverjir ættu að kaupa húsið því ekki var það hæstbjóðandi sem hreppti það. Afar undarlegt mál.

Alltaf sleppa þeir
Í áramótaskaupinu 2009 sem ég minntist á í síðasta pistli voru Björgólfsfeðgar áberandi, svo og Jón Ásgeir. Þeir hafa til þessa dags sloppið við fangelsisvist fyrir sinn þátt í bankahruninu, sem og margir aðrir sem því tengjast. Nú síðast ákvað saksóknari að ákæra ekki í svokölluðu Pace máli, þar sem þrír milljarðar runnu í vasa Jóns Ásgeirs, Pálma í Fons og Hannesar Smárasonar. Sloppnir eina ferðina enn.

Bað um skilnað og var drepin
Í ljós kom að konan sem var drepin á Akranesi í apríl hafði beðið um skilnað skömmu áður en eiginmaðurinn myrti hana og framdi sjálfsmorð í kjölfarið. Þetta er enn eitt morð á konu sem hafnar karlmanni.

Nauðgunardómur mildaður yfir einum og annar sýknaður
Tveir karlmenn sem saman voru sakaðir um nauðgun fengu þriggja og fjögurra ára dóma í héraði. Hæstiréttur sýknaði annan þeirra en mildaði dóm hins um eitt ár þannig að nú á hann að sitja þrjú ár í fangelsi. Eitt er nú að hafa komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri þann sem sakaður var um að hafa tekið þátt í nauðguninni — en afhverju fær maður sem sannað þykir að hafi nauðgað konunni afslátt þegar Hæstiréttur dæmir? Þetta er furðulegt og óþolandi.

En svo loksins að einhverju sem er hresst.

Sund og kraftlyftingar
Hrafnhildur Lúthersdóttir varð fyrsta ófatlaða íslenska sundkonan til að standa á verðlaunapalli á Evrópumóti. Hún fékk þrenn verðlaun á EM í London, þar af tvö silfur og eitt brons. Fyrri silfurverðlaunin fékk hún eftir að hafa lent í öðru sæti á eftir heimsmeistara í greininni, sem sýnir hversu öflug Hrafnhildur er. Síðan brá hún sér til Bergen þar sem hún vann til þrennra gullverðlauna.

Eygló Ósk Gústafsdóttir var einnig í Bergen og fékk þrenn silfurverðlaun.

Bryndís Rún Hansen fékk þar einnig ein silfurverðlaun.

Þá varð Fanney Hauksdóttir heimsmeistari í klassískri bekkpressu og setti að auki Norðurlandamet í síðasta mánuði.


Efnisorð: , , , , , , , , , , ,