fimmtudagur, júní 30, 2016

Fyrst F svo umheimurinn

Uppgjör mánaðarins snýst ekki um forsetakosningar (Guðmundur Andri Thorsson var afturámóti með frábæra – og jákvæða – greiningu á forsetaframbjóðendunum sem lengst náðu; fulljákvæður í garð Davíðs þó) eða hitt f-orðið, ekki einu sinni um Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur sem notaði síðasta dag mánaðarins til að viðra siðleysi sitt og tilkynna að úr því að það varðaði ekki beinlínis við lög að gera ekki grein fyrir aflandsfélagaeign sinni þá ætlaði hún sko bara víst að setjast aftur í borgarstjórn. Áfram Framsókn, ekkert stopp. Eða jú, úr því allskonar f ryðjast fram þá er kannski rétt að geta þess að Katrín Pétursdóttir í Lýsi fékk fálkaorðu á 17da júní. Hún hlýtur að hafa fengið fálkaorðuna fyrir frækna framgöngu við uppskipun, en hún er ein yfirmanna Rio Tinto Alcan sem stóð í ströngu við að brjóta verkfall starfsmanna á bak aftur. Sannarlega verðugur orðuhafi.

Allskonar gerðist hinsvegar í útlöndum í júní og verður nú gerð grein fyrir einhverju af því. (Brexit fær hugsanlega sér pistil á næstunni.)

Tyrkland – þrjú börn
Erdogan Tyrkjasoldán hefur hamingjulausnir fyrir konur á hreinu:
„Líf kvenna er ófullkomið án barneigna, og þrjú börn er mátulegur fjöldi fyrir hverja konu … Hver sú kona sem hafnar því að verða móðir og sinna heimili sínu, sagði Erdogan, er ófullkomnuð, hvernig sem henni gengur á framabrautinni.“

Pólland – fóstureyðingar
Erdogan virkar hlægilegur þar til orð hans eru sett í samhengi við önnur afskipti af frjósemi kvenna, eins og lagasetning sem er í uppsiglingu í Póllandi. Konur þar berjast gegn fóstureyðingalöggjöf sem sviptir konur í raun öllum þeim litla rétti sem þær hafa haft til að fara í fóstureyðingu. Í framtíðinni eiga aðeins konur sem eru í bráðri lífshættu kost á að láta rjúfa meðgönguna. Það er hrikalegt.

Börn á flótta, og svo bara versnar það
„Kynferðislegt ofbeldi, vinnuþrælkun og vændi er raunveruleiki hundruða fylgdarlausra flóttabarna sem hafast við í norðanverðu Frakklandi. Glæpahringir nýta sér neyð barnanna og stúlkur þurfa að selja sig oftar en þúsund sinnum til að eiga fyrir ferðinni yfir Ermasundið,“
sagði í frétt Ríkisútvarpsins þar sem vitnað var í nýútkomna skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
„Það er auðvitað alveg óásættanlegt að þegar hægt væri að flytja börnin yfir sundið með löglegum og einföldum hætti að við neyðumst til að horfa upp á þau fara inn í kæligáma eða annars konar gáma til að reyna að smygla sér yfir sundið. Að ég tali nú ekki um að við þurfum að horfa upp á börn stunda vændi til að koma sér þessa leið og reyna að fá öruggt skjól í Bretlandi,"
segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

Á Kjarnanum birtist stuttur pistill um þennan nöturlega veruleika og lýkur honum á þessum orðum:
„Þegar svona upplýsingar koma fram, hugsa flestir eflaust strax, að við þessu þurfi að bregðast og hreinlega bjarga þessum börnum. Því miður sýnir sagan, að svo einfalt er það ekki oft er alþjóðasamfélagið svifaseint þegar að kemur að þessum málum. Vonandi verður svo ekki í þessu tilfelli, og vonandi verður eftirfylgni þessarar skýrslu kraftmikil þannig að staðan nái eyrum þeirra sem ráða, og eru í stöðu til að gera betur.
Staða eins og þessi er smánarleg fyrir alþjóðasamfélagið og raunar algjörlega ólíðandi.”

Byssuóðir Bandaríkjamenn eru (byssu)óðir
Hvað gerðist eftir skotárásina á Pulse næturklúbbnum í Orlando þar sem rúmlega fimmtíu manns létu lífið? Jú, hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða skotvopn hækkuðu í verði. Að einhverju leyti má rekja gróðavon þeirra sem keyptu hlutaféð til þess að í eitt augnablik leit út fyrir að skotvopnalög yrðu hert (og það yrði svo mikið keypt af byssum áður en þau gengu í gildi) en auðvitað komu Repúblikanar á þingi í veg fyrir það. Höfðu þó þingmenn Demókrata gripið til þess örþrifaráðs að vera í setuverkfalli í þinginu. En allt kom fyrir ekki, frumvarp um hert eftirlit með hverjir mega kaupa hvað komst ekki í gegn. Ekki fylgir sögunni hvort hlutabréfin lækkuðu aftur í verði.

Kröfuhafar: ólíkt hafast þeir að
Jákvæð frétt birtist á vef Ríkisútvarpsins í byrjun mánaðarins. „Grínistinn, samfélagsrýnirinn og sjónvarpsþáttastjórnandinn John Oliver hefur keypt upp kröfur í 9.000 ógreidda læknisreikninga í vanskilum upp á 15 milljónir Bandaríkjadala, ríflega 1,8 milljarða króna. Hann hyggst ekki innheimta þessa reikninga heldur gefa öllum skuldurunum 9.000 upp skuldir sínar. Þessi aðgerð Olivers var liður í harðri gagnrýni hans á nýja og ört vaxandi grein í fjármálalífi Bandaríkjanna og reyndar heimsins alls - brask með skuldir annarra.

Fjöldi fyrirtækja sérhæfir sig í að kaupa vanskilaskuldir sem bankar og innheimtufyrirtæki hafa eða hyggjast afskrifa, fyrir brotabrot af upprunalegri upphæð skuldarinnar. Í framhaldinu fara þessi nýju hrægammafyrirtæki fram gegn skuldurunum af áður óþekktri hörku, óskammfeilni og óheiðarleika. Þetta segir Oliver hinn mesta skítabisness, og það sem meira er, hver sem er virðist geta stundað þetta eftirlitslaust. Þessu til sönnunar stofnaði hann sitt eigið innheimtufyrirtæki. Að hans sögn var það skelfilega einfalt. Hann keypti svo nærri tveggja milljarða vanskilaskuldir sjúklinga við lækna sína fyrir litlar 7,4 milljónir - og felldi þær niður.“
Þetta er óvenjuleg leið til að koma beittri gagnrýni á framfæri, en afar snjöll, og John Oliver til mikils sóma.

Muhammad Ali allur
Uppáhalds músliminn minn sem var jafnframt uppáhalds íþróttamaðurinn minn lést 4. júní, 74 ára að aldri.



Efnisorð: , , , , , , , , , , ,