þriðjudagur, júní 28, 2016

Er það einhverstaðar í verklýsingu innanríkisráðherra að taka sum málefni ráðuneytis síns fantatökum?

Innanríkisráðherra er yfir kirkjumálum, lögreglunni, útlendingamálum.

Í nótt sköruðust þessi þrjú svið þegar lögreglan dró útlendinga útúr kirkju sem þeir höfðu leitað skjóls í. Hælisleitendurnir voru þarna í boði sóknarprestsins sem bauð þeim kirkjugrið; lögreglan að boði Útlendingastofnunar. Hvort það var innanhússákvörðun hjá lögreglunni eða sérstök ósk Útlendingastofnunar að senda fautann sem barði viðstadda um leið og hann dró unglingspiltinn miskunnarlaust út, er óvitað. Innanríkisráðherra er yfirmaður löggufautans jafnt sem sóknarprestsins. Með hverjum tekur hún afstöðu – burtséð frá því að hún tekur augljóslega ekki afstöðu með hælisleitendum frá Írak. Var það ekki fyrrverandi formaður flokksins hennar sem kvittaði uppá innrásina þar? Það er eins og mig minni það, en það er auðvitað ekki til siðs hjá innanríkisráðherra að rifja upp orsakir og afleiðingar. Hvað þá að átta sig á hvenær er gengið út fyrir velsæmismörk.

Útlendingastofnun er í aðalhlutverki í öðru andstyggilegu máli – og innanríkisráðherra líka. Fjölmiðlum er nú bannað að taka við hælisleitendur. Reyndar má hreinlega enginn heimsækja þá eða tala við þá, sýna þeim samúð í aðstæðum þeirra eða reyna að stytta þeim stundir á nokkurn hátt. Það er nefnilega svo óheppilegt þegar ‘málsnúmer fá andlit’. Það hefur nefnilega sýnt sig að þá hættir venjulegum íslenskum ríkisborgurum stundum að standa á sama um hælisleitendur. Útlendingastofnun vill að við verðum öll eins og Útlendingastofnun sem stendur á sama um hælisleitendur. Og yfir þetta leggur innanríkisráðuneytið — ráðuneyti Ólafar Nordal — blessun sína.

Þó ég hafi talið upp þrjá málaflokka sem heyra undir innanríkisráðuneytið eru þeir vitaskuld fleiri. Mannréttindi heyra líka undir ráðuneytið. Það er vægast sagt kaldhæðnislegt.

Efnisorð: , , , , ,