miðvikudagur, júlí 13, 2016

BC hefði átt að koma á undan MT og TM

Bretar fengu nýjan forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn í dag án þess að boðað væri til kosninga. Ég hélt að slíkt gerðist aðeins í lýðræðislega vanþróuðum ríkjum á borð við Ísland. Íhaldsflokkurinn heldur semsagt enn völdum þótt Cameron hafi sagt af sér en nýi formaður flokksins og forsætisráðherra er kona, sem væri ánægjuleg tíðindi ef fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Bretlands hefði ekki verið Margaret Thatcher. Fréttablaðið segir Theresu May leggja áherslu á kristilega íhaldssemi frekar en frjálshyggjukreddurnar hennar Thatcher, sem er auðvitað verulega illskárra. Þó er ekki glæsilegt að lesa ‘afrekalista’ Theresu því hún hefur það eitt sér til ágætis að hafa kosið með hjónabandi samkynhneigðra. Hún hefur greinilegt horn í síðu velferðarmála og er á móti aðgerðum til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar. Það eru ekki góð tíðindi.

Keppinautur Theresu May um formannsembætti Íhaldsflokksins (og þarmeð forsætisráðuneytið) sagði tóma þvælu um feminisma og móðurhlutverk sem varð líklega til þess að hún þurfti að draga framboð sitt til baka. Skortur á feminískri vitund þvældist þó ekki fyrir Margareti Thatcher á sínum tíma þannig að það er öllu nútímalegra yfirbragð yfir nýja forsætisráðherranum að þessu leyti því hún er yfirlýstur feministi. Sem er auðvitað jákvætt, og fyrsta verk hennar ku verða að skipa allmörgum konum til sætis með sér við ríkisstjórnarborðið.

Annars ætla ég ekki að ræða MT eða TM meir, heldur annan ráðherra sem er horfin af sjónarsviðinu, og sem hefði átt að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Breta. Barbara Castle var fædd 1910 og lést á 92. aldursári. Hún var með BA-gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Oxford (boðið er upp á slíkt nám hér á landi að breskri fyrirmynd). Hún hóf pólitíska þátttöku á námsárunum og var kjörin í bæjarráð 1937, og vann í matvælaráðuneytinu í seinni heimsstyrjöld. Hún fór fyrst á þing fyrir Verkamannaflokkinn árið 1945. Hún varð þekkt fyrir andstöðu sína við nýlendustefnu Breta og apartheid í Suður-Afríku auk baráttu sinnar fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín. Hún varð fjórða konan til að gegna ráðherraembætti þegar hún settist í ríkisstjórn Harold Wilson 1964 og stýrði ýmsum ráðuneytum í öllum hans ríkisstjórnum allt til 1976. Eftir að þingmennsku hennar lauk 1979 var hún þingmaður á Evrópuþinginu í tíu ár. Virk var hún í stjórnmálum til dauðadags árið 2002.

Barbara Castle var fyrst ráðherra þróunarmálefna handan hafs (aðdáunarverð þýðing á Minister for Overseas Development) um skeið og síðan samgönguráðherra. Í því embætti kom hún í gagnið tækjum til að mæla áfengi í andardrætti ökumanna, og setti í lög að allir nýir bílar yrðu að vera búnir bílbeltum. Þetta tvennt hefur vafalaust bjargað fjölmörgum mannslífum. Um tveggja ára skeið var hún atvinnumálaráðherra, og þar setti hún einnig mark sitt á söguna. Tveimur mánuðum eftir að hún tók við ráðuneytinu hófst verkfall saumakvenna hjá bresku Ford-verksmiðjunum. Konurnar unnu við að sauma sætisáklæði fyrir laun sem þær sættu sig ekki við. Ekki nóg með að starf þeirra var flokkað sem ófaglært (en þurfti þó þjálfun og leikni), heldur voru þær umtalsvert verr launaðar en ófaglærðir karlar hjá sömu verksmiðjum. Þær fóru því í verkfall og þegar Ford varð uppiskroppa með sætisáklæði til að setja í nýframleidda bíla stöðvaðist öll bílaframleiðsla fyrirtækisins í Bretlandi.

Eftir þriggja vikna verkfall greip Barbara inní og leysti verkfallið. Í bíómyndinni „Made In Dagenham“ sem gerð var um þessa atburði (og sýnd var í norska sjónvarpinu í fyrradag undir titlinum Jentene fra Dagenham) var það Barbara sjálf sem kallaði verkfallskonurnar á sinn fund og ætlaði að ganga að öllum kröfum þeirra, en vegna þess að Ford í Bandaríkjunum hafði hótað að loka öllum verksmiðjum sínum í Bretlandi ef verkakonum fyrirtækisins byðist karlmannskaup, bauð hún verkfallskonum þá málamiðlun að hækka laun þeirra í áföngum. Þetta var nú kannski ekki alveg svona einfalt, og öruggt má telja að verkakonurnar voru ekki himinsælar með niðurstöðuna. En hitt er rétt sem segir frá í myndinni að tveimur árum síðar kom Barbara því í lög að konum bæri að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Barbara Castle var nefnilega feministi sem vann ötullega að réttindum kvenna.

Ferli Barböru eru hér engan veginn gerð nægilega ítarleg skil, en ofangreint auk ýmissa annarra verka hennar svosem að koma því þannig fyrir að barnabætur runnu beint til mæðra, í stað feðra áður, er ástæða þess að Barbara Castle hefur verið fyrirmynd margra kvenna sem lagt hafa fyrir sig pólitík. Hún er talin meðal helstu hetja Verkamannaflokksins fyrr og síðar, og hefði karlveldið innan flokks og á þingi verið eftirgefanlegra hefði hefði hún líklega orðið fyrsta konan til að setjast í stól forsætisráðherra Bretlands.

En ekkert af þessu skiptir neinu máli ef marka má blaðamenn Vísis (og eflaust margra kollega þeirra hér og erlendis) því þeir einblíndu heldur á útlit Barböru Castle og annarra þingkvenna eftir bresku þingkosningarnar 1974.
Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu
Aldrei fyrr hafa verið jafnmargar konur í framboði í kosningum í Bretlandi. Alls buðu sig fram 103 konur — 40 úr Verkamannaflokknum, 33 í Íhaldsflokknum og 30 aðrar.

Meðal þeirra, sem náðu endurkjöri, var Barbara Castle, úr Verkamannaflokknum, en hún hefur setið 30 ár á þingi. Um sinn var hún atvinnumálaráðherra, og eitt sinn þótti hún líklegt forsætisráðherraefni. — Þrjár flokkssystur hennar Joan Lestor, Renee Short og dr. Shirley Summerskill náðu einnig endurkjöri. (Allar fjórar eru heitar rauðsokkur og þrjár þeirra eru rauðhærðar). Þykja allar líklegar í ráðherrasæti, ef Verkamannaflokkurinn fer í stjórn.

Þrjár úr Íhaldsflokknum héldu sætum sínum: Peggy Fenner slapp með 900 atkvæða mun. Lena Jeger og Sally Oppenheim áttu við að stríða breytingar á kjördæmum sinum, Verkamannaflokknum í hag, en náðu samt endurkjöri.

Dame Joan Vickers, sem setið hefur 19 ár á þingi, tapaði kjördæmi sínu Plymouth Devonport með aðeins 437 atkvæða mun. Við stækkun kjördæmisins fjölgaði atkvæðum Verkamannaflokksins þar um nokkur þúsund.

Það kom mönnum nokkuð á óvart, að ljóshærða fegurðardísin, Margo MacDonald, sem í framboði fyrir þjóðernissinna í Skotlandi komst inn á þing í fyrra, féll núna að þessu sinni eftir tæpa eins árs veru í neðri málstofunni.

Athygli vekur að íhaldsþingkonurnar eru ekki dæmdar af útliti sínu. Ekki að ég óski Theresu May þess. Ef ég ætti að óska henni einhvers, þá væri það helst að hún tæki sér Barböru Castle og hennar góðu verk sér til fyrirmyndar, en það er líklega borin von. Bara svo framarlega sem hún dregur ekki dám af skaðræðisskepnunni henni Thatcher.


___
Lauslega þýtt og byggt á eftirtöldu.

BB og GP, Rauðhærðu rauðsokkurnar náðu endurkosningu, Vísir
Becky Crocker, The real story of Made in Dagenham
Patricia Hewitt, Labour's greatest hero: Barbara Castle, The Guardian
Ann Perkins How Barbara Castle broke the glass ceiling of politics, BBC
Ann Perkins, Barbara Castle, Labour heroine and champion of women's rights, dies at 91, The Guardian
Michael White, Working-class heroes, and middle-class ones too - but who will be voted Labour's greatest?, The Guardian
Wikipedia: Barbara Castle
Wikipedia: Ford sewing machinists strike of 1968
imdb: Made in Dagenham

Meðal þess sem ekki gafst ráðrúm til að ræða er tilraun Barböru til að fletta ofan af barnaníðingshring í breska þinghúsinu. Sjá Daniel Boffey, Media ‘gagged over bid to report MP child sex cases’, The Guardian

Efnisorð: , , ,