miðvikudagur, ágúst 24, 2016

Fréttir af köllum í pólitík - eru þeir að svíkja lit eða sýna sitt rétta eðli?

Síðasti pistill var, þótt ótrúlegt megi virðast, ekki skrifaður til höfuðs Ögmundi Jónassyni.* Það er reyndar stutt síðan ég ætlaði að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillögu hans um fastsett launabil ríkisstarfssama: að lægstu föstu launagreiðslur verði aldrei lægri en þriðjungur af hæstu föstu launagreiðslum. Það væri lélegt af mér að styðja ekki þetta mál nú, enda hef ég áður lýst yfir stuðningi við þessa hugmynd Ögmundar. En ég styð Ögmund auðvitað allsekki þegar hann segir „grátinn“ í konum á þingi oft „vera einum of mikill harmur“, og annað í þeim dúr, hvað þá þegar hann virðist ekki vilja draga í land. Alveg burtséð frá hvað honum (og mér) finnst um Hönnu Birnu, þá er frásögn fjölda þingkvenna (og ekki bara hér á landi) á sama veg,** og engin einasta ástæða (fyrir hvítan miðaldra kall) að draga hana í efa eða hæðast að henni. Skamm Ögmundur! Svo er líka stórfurðulegt, af svo reyndum þingmanni að láta þetta útúr sér korter í kosningar, og skemma þannig fyrir kvenfrelsisflokknum sem hann tilheyrir.

Jæja, þá er búið að afgreiða það.

Önnur tíðindi af köllum í pólitík eru af tveimur karlmönnum sem lýsa yfir löngun sinni til að komast á þing. Það úir reyndar og grúir af tilkynningum fólks sem býður sig fram á lista, en þessir tveir vekja mesta athygli mína í augnablikinu.

Annar þeirra er Pawel Bartoszek sem hefur verið pistlahöfundur Fréttablaðsins. Einu skiptin sem ég er sammála Pawel er þegar hann skrifar um strætó, að öðru leyti finnst mér allt galið sem hann segir. Pawel er nefnilega frjálshyggjumaður og það stækur, og mér líkar ekkert sem þeir segja, enda gengur það þvert á félagshyggjuskoðanir mínar. Ég hélt að Pawel væri sjálfstæðismaður, en nú vill hann bjóða sig fram undir merkjum Viðreisnar, sem er reyndar hægri flokkur sem er stappfullur af fyrrum sjöllum. En ég hélt reyndar að Viðreisn væri ekki bara flokkur ESB-sinnaðra sjálfstæðismanna, heldur einhverskonar umbótaflokkur þeirra sem vildu siðbót innan Sjálfstæðisflokksins, en sáu að af henni yrði aldrei (Davíð sló hana af þegar hann rakkaði niður Endurreisnarskýrsluna á landsfundi flokksins 2009 og kallaði hana hrákasmíð***). Að þeir vildu þessvegna byrja með hreint borð, án einkavinavæðingaráráttu og hagsmunagæslu. Ég hafði eiginlega ímyndað mér að Viðreisn hafnaði frjálshyggju, þetta væri meira svona frjálslyndir kapítalistar en ofstækisfullir markaðshyggjumenn.

En svo ætlar Þorsteinn Víglundsson líka að bjóða sig fram fyrir Viðreisn. Jahá. Framvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, því jákvæða umbótaafli. Ha. (Ögmundur hefur lagt til að SA og Viðskiptaráð séu sameinuð, þetta sé sama tóbakið.) Þorsteinn segist vera hægri krati. Alveg hefði ég getað svarið að hann væri sjálfstæðismaður inn í merg og bein.

En nú semsagt ætlar Þorsteinn Víglundsson, sem hægri krati, að vera með frjálshyggjumanninum Pawel í flokki, og á sá flokkur þá að vera nýja ferska mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn. Mér sýnist að sá flokkur eigi sér ekki viðreisnar von með þessari viðbót.

___
* Síðasti pistill átti við um karlmenn almennt, en því miður eru vinstri sinnaðir karlmenn oft ekkert skárri en hinir, eins og það er nú svekkjandi. Ég hef skrifað um það áður.

** Viðbót, síðar: Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifar góðan pistil um Hönnu Birnu og stöðu kvenna í stjórnmálum.

*** Vilhjálmur Egilsson leiddi starf Endurreisnarhóps Sjálfstæðisflokksins og kennir óvild Davíð í sinn garð um að Davíð rakkaði skýrsluna niður. (Hið rétta er auðvitað að Davíð vildi drepa niður alla gagnrýni á sig, og hefur lagt undir sig heilt dagblað í því skyni.) Vilhjálmur hefur verið rektor á Bifröst um skeið og nú var hann að birta grein í Skessuhorni þar sem hann fer mikinn vegna þeirrar ákvörðunar að lögreglunám verði ekki á Bifröst. (Svo er önnur saga að Háskóli Íslands var talinn besti kosturinn fyrir þetta nám en í aðdraganda kosninga og til að fá atkvæði norðanlands hneppti Háskólinn á Akureyri hnossið. Sigmundur Davíð er ánægður með þá ákvörðun, sem sýnir best hvað hún er slæm.) Vilhjálmur kennir um nýlendustefnu og ... æ þið verðið bara að lesa grein Vilhjálms, hún er algert met.

Efnisorð: , , ,