laugardagur, ágúst 13, 2016

Nauðgara sleppt lausum til að fremja fleiri brot

Þegar ég las nákvæmar lýsingar á tveimur nauðgunum sem nítján ára piltur framdi með viku millibili, varð mér hugsað til allrar umræðunnar um ákvörðun Páleyjar lögreglustjóra í Heimaey sem sagðist ætla að þegja um kynferðisbrot af tillitssemi við fórnarlömbin. Henni var margbent á að enginn væri að biðja um verknaðarlýsingar heldur blákaldar upplýsingar um fjölda brota. En nú, í tilviki þessa raðnauðgara, er fórnarlömbum hans — fimmtán ára stúlkubörnum — hvergi hlíft í fjölmiðlum, lýsingarnar ganga svo langt að sagt er frá því að önnur stúlkan var á túr. Og þá er eðlilegt að spyrja: þurfti virkilega að lýsa ofbeldinu nákvæmlega, þurfa lesendur að vita þetta allt? Mér finnst svarið ekki einfalt.

Annarsvegar held ég að það hljóti að vera mjög óþægilegt fyrir fórnarlömbin að allir viti allt sem þær haga gengið gegnum, og að það ætti ekki að birta það í blöðunum – og helst ekki heldur á síðum dómstóla þegar þar að kemur.

Hinsvegar, og það vegur þungt í mínum huga, er mikilvægt að almenningur átti sig á að þegar stelpur/konur leita til neyðarmóttöku og lögreglu, þá eru þær ekki bara að segja að sér hafi verið nauðgað, heldur hefur þeim raunverulega verið nauðgað; verknaðarlýsingin í þessum tilvikum er því til staðfestingar.

Það vegur auðvitað þungt í þessum tilteknu málum að sami maður fremur bæði brotin og hafði þegar komist undir lögregluhendur eftir fyrra skiptið. Það gerir það að verkum að fleiri en ella trúa stelpunum. Auðvitað ætti ekki að þurfa að bíða eftir að nauðgari sé kærður öðru sinni til að fólk trúi að hann hafi nauðgað, en í þeim nauðgunarafneitandi heimi sem við búum skiptir það máli, auk verknaðarlýsingar. Að einhverjir trúa því að þetta sé þá algert einsdæmi, að sami maður nauðgi mörgum konum, eða stundi það jafnvel vikulega að nauðga konum, er vandamál út af fyrir sig.

En semsagt, úr því að einhver (fjölmiðlar, löggan, forráðamenn fórnarlambanna) hefur ákveðið að birta þessar óþægilega nákvæmu lýsingar (vonandi ekki gegn vilja stelpnanna) þá verður að líta á þær sem upplýsingar sem hugsanlega vinna málstað þeirra gagn sem berjast gegn þöggun og afneitun á kynferðisofbeldi.

Það er auðvitað ekki hægt að minnast á þetta mál án þess að ræða aðkomu lögreglunnar á Suðurnesjum sem nú um stundir er undir stjórn Ólafs Helga Kjartanssonar sem einnig gengur undir nafninu Þvagleggur sýslumaður. Fyrra nauðgunarmálið kom til kasta lögreglunnar á Suðurnesjum. Svo gripið sé til lýsingar Illuga Jökulssonar, þá var þetta framvinda málsins þar á bæ:

„Lögreglan fór nú og yfirheyrði nauðgarann, sem er nítján ára. Hann neitaði sök en viðurkenndi í öðru samhengi að eiga stundum mjög erfitt með skapsmuni sína. Nema hvað, eftir yfirheyrslu sleppti lögreglan nauðgaranum. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald.“
Mátti þó öllum vera ljóst að ofbeldið sem hann beitti 15 ára barnið var gríðarlegt, bæði nauðgaði hann henni og misþyrmdi hrottalega. En lögreglan, ekki bara sú sem lýtur Þvagleggi, heldur löggan almennt, Páley meðtalin, lítur ekki á nauðganir sem ógn við almannahagsmuni. Enda yfirleitt konum sem er nauðgað, og það ógnar ekki tilveru ferkantaðra kallskúnka.

Reyndar segir í Fréttatímanum að aukist hafi að gæsluvarðhaldi sé beitt í kynferðisbrotamálum, en það breytir ekki því að lögreglan á Suðurnesjum brást illilega í þessu tiltekna máli. Afleiðingin er sú að nauðgarinn gekk laus og strax viku eftir fyrstu nauðgunina sem hann var sakaður réðst hann á aðra fimmtán ára stúlku með svipuðum hætti.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segir að „yfirvöld nýttu ekki þau úrræði sem þó eru fyrir hendi“ og rekur önnur mál sem ofbeldismenn gengu lausir og frömdu fleiri brot gegn konum. Hún skrifaði grein á síðasta ári sem bar titilinn „Ekki mínir almannahagsmunir“ sem er vert að rifja upp. Þar segir hún meðal annars um kynferðisbrotamenn: „Hættuna sem stafar af slíku fólki ber síst af öllu að vanmeta, líkt og sagan sannar.“

Sagan sannar líka að það steðjar hætta af Þvagleggi sýslumanni.

___
[Viðbót nærri ári síðar] Nauðgarinn heitir Elvar Sigmundsson og við hafa bæst tveir bloggpistlar um hann. Í þeim fyrri má finna tengla á ýmsar heimildir sem tengjast glæpum hans og óhemju stuttri fangavist. Hér er hinn pistillinn.

Efnisorð: , , , , , ,