fimmtudagur, ágúst 11, 2016

29. október

Framsóknarmenn sem aðhyllast hinn afturgengna standa frammi fyrir óumflýjanlegri staðreynd: að þingkosningar verða 29. október. Á þessu ári. Það verður fróðlegt að sjá hvort sá afturgengni verður formaður flokksins þegar þar að kemur og hvort hann leiðir aftur lista í einhverju eyðibýliskjördæmi. Eða hvort hann fær hreinlega reisupassann, eins og líklega allir almannatenglar myndu ráðleggja. Andstæðingar Framsóknar (hvar ég er fremst í flokki, andstæðinganna sko) vilja auðvitað heldur að hann leiði flokkinn og tapi stórt, geri útaf við Framsókn með sólkonungshætti.

En áður en kjördagur rennur upp verður mikið að gera hjá þinginu, mörg mál ríkisstjórnarinnar liggja fyrir og misgáfuleg. Búnaðarsamningur (Framsókn), frumvarp um lán til námsmanna (Sjálfstæðisflokkur), eru meðal þeirra mála sem stjórnarandstaðan lætur trauðla fara óáreitt gegnum þingið. Þetta verður átakatími, og varla verður kosningabaráttan nein rjómablíða heldur. Nægur tími og tækifæri ætti því að gefast til að rifja upp helstu vammir og skammir stjórnarflokkanna í nýlegri sem fjarlægri fortíð, svo ekki sé minnst á stefnu hans í ýmsum ókláruðum málum, sbr. þingmál haustsins. Orð og æði þingmanna sem og forystumanna stjórnarflokkanna gefa einnig tilefni til að íhuga alvarlega hvort við sem kjósendur viljum fá meira af sama. Er almenn ánægja með Brynjar Níelsson? Hann er þessa dagana ekki beinlínis að viðra auð­mjúkar og und­ur­fag­rar fiðr­ildaskoðanir heldur hæðist að vanda að öllum þeim sem hann lítur niður á.

Það verður því í mörg horn að líta fyrir kjósendur næstu mánuði, og ekki er verra að hafa hárbeittar myndir til hliðsjónar. Halldór, hinn frábæri teiknari Fréttablaðsins (sem er fjölskyldublað hjónanna Ingibjargar og Jóns Ásgeirs þessa dagana en hingað til hefur Jóni Ásgeiri varla komið blaðið við, enda bláóskyldur aðili) teiknaði í dag frábæra mynd sem ætti að vera hengd upp á hverju heimili.

Efnisorð: , , ,