fimmtudagur, september 15, 2016

Þriðji í landbúnaði

Nú hafa komið fram skýringar hjá stjórnarandstöðuflokkunum um hvers vegna þeir kusu ekki gegn búvörusamningnum. Samfylkingin segir það mjög algengt að sitja hjá, Píratar segjast ekki hafa verið með betra plan og ekki þekkt málið nógu vel, og svo er það þessi skýring Vinstri grænna:
„Við teljum eðlilegt að innlendur landbúnaður sé styrktur eins og alls staðar annars staðar er gert. Við vorum ekki ánægð með þennan samning en töldum breytingarnar sem voru gerðar á honum til bóta. Okkur fannst ekki fýsilegur kostur að núverandi samningur yrði bara framlengdur,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún segir að núgildandi samningur hefði verið framlengdur um eitt ár ef nýjum búvörusamningum hefði verið hafnað.
Ég er svosem líka hlynnt styrkjum til innlends landbúnaðar. En mér finnst þessi samningur sem stjórnarflokkarnir gerðu við bændur, til alltof langs tíma. Hefði verið svona slæmt að láta núverandi/gamla samninginn gilda í ár í viðbót og í staðinn hefði ný stjórn (vonandi samsett úr öðrum flokkum en núverandi stjórn) samið á annan hátt og búvörulögin orðið betri? Raunar hafa bændur jafnt sem neytendur verið mjög ósáttir við gamla samninginn, og það má vera að þessi nýi sé svona mikið betri þrátt fyrir ýmsa galla, og að því leyti sé þetta bara ágætt val hjá Katrínu, að styðja ekki samninginn með jái en hafna honum ekki alfarið með neii. Gallinn er auðvitað að svo margir þingflokkar tóku til sama bragðs (af mismunandi ástæðum) og eftir stendur hin fjarstæðukennda niðurstaða að aðeins nítján þingmenn samþykktu og gerðu samninginn að lögum.

Uppnám mitt vegna atkvæðagreiðslunnar var því minna vegna efnis samningsins (eins og ég hef áður sagt hef ég ekki hundsvit á þessu) heldur vegna þess að tillaga Lilju Rafneyjar var felld, og að svo fáa þingmenn þurfti til að samþykkja svona stóran og bindandi samning , og virðist svo vera um fleiri, þ.á m. Björn Val Gíslason sem skammaðist yfir málinu sama dag og atkvæðagreiðslan fór fram, en sagði svo þetta nú í kvöld:
„Stjórnarandstaðan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir það að stjórnarliðar staðfestu búvörusamninginn í vikunni. Fjölmiðlar hafa sagt stjórnarandstöðunni að skammast sín fyrir málið og jafnvel hvatt kjósendur sína til að kjósa ekki þessa flokka, nema þá Bjarta framtíð. Ég hef ekki séð þá hvetja fólk til að taka afstöðu til stjórnarflokkanna vegna þessa máls.“
Áður hafði Björn rakið hvernig Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Jón Gunnarsson höfðu hver með sínum hætti komið búvörusamningnum á koppinn, þar af þeir tveir fyrstu með undirskrift sinni í febrúar á þessu ári. Björn Valur segir svo það sem augljóst er:
„Það má margt segja um þá búvörusamninga sem Alþingi staðfesti á dögunum og margt er þar gagnrýnivert. En það er arfavitlaust að kenna Vinstri grænum um þá. Eða Samfylkingunni, Pírötum eða Bjartri framtíð. Ábyrgðin liggur öll hjá hagsmunagæsluflokkunum tveimur, sjálfstæðisflokki og framsókn.
Er ekki tilvalið að láta þá axla ábyrgðina þann 29. október.“


Lýkur þá búnaðarbálki, a.m.k. í bili.

___
* Eitt er samt hlálegt við þetta mál allt saman, og það er þegar látið er sem nýstofnaði stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hefði staðið sig betur en stjórnarandstaðan gerði. Það er auðvelt að láta sem sá sem er ekki á staðnum hefði breytt á betri hátt en hinir. Ég leyfi mér sterklega að efast.

Efnisorð: , ,