miðvikudagur, september 07, 2016

Viðreisnarmannval gegn mannvali Sjálfstæðisflokks

Sífellt kemur í ljós hve Viðreisn er gríðarlega ólík gamla Sjálfstæðisflokknum. Nú ætlar tildæmis Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins að bjóða sig fram til að leiða lista Viðreisnar í suðvesturkjördæmi. Bjarni Ben fer fyrir Sjöllum í sama kjördæmi.* Hægri sinnaðir kjósendur geta því valið um kúlulánadrottninguna eða silfurskeiðaprinsinn sem hefur snatast fyrir Engeyingana frændur sína (tildæmis með Vafningnum sem endaði með því að ríkið varð að hlaupa undir bagga með Sjóvá eftir að Milestonemenn höfðu tæmt bótasjóðinn), svo ekki sé minnst á aflandsfélagseignina sem hann man bara ekkert eftir en hefur þó alltaf greitt skatta af.

Það eru því fjölbreyttir valkostir fyrir hægrimenn: kúlulán, skattaskjól, 7 hægri eða Milestone. Þetta er allt svo ferskt eitthvað.

En það er svosem tímanna tákn að Þorgerður telji sér óhætt að bjóða sig fram aftur. Það er blússandi gróðæriseftirspurn eftir gróðærisvönu fólki.


___
* Reykvíkingar eiga kost á að kjósa Ólöfu Nordal aftur á þing, hún kom einnig við sögu í Panamaskjölunum, sem sjöllum virðist viðeigandi hjá efstu mönnum í kjördæmum.

[Viðbót, síðar:] Kári Stefánsson skrifar pistil 9. september og segir m.a. um Þorgerði Katrínu: „Það gegnir öðru máli um hana Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem á að baki glæstan feril innan Sjálfstæðisflokksins sem endaði á því að hún þjónaði sem menntamálaráðherra Íslands. Hún hraktist úr pólitík vegna þess að hún flæktist á óbeinan hátt inn í málefni Kaupþings á sama tíma og hún sat í ríkisstjórn sem stóð fyrir misheppnaðri og óvinsælli tilraun til þess að bjarga bankanum.“

Efnisorð: , , ,