mánudagur, september 26, 2016

Eldhúsdagsumræður

Það kemur varla á óvart að mér fannst Katrín Jakobsdóttir standa sig best í eldhúsdagsumræðum — enda var hún best.

Bjarni Benediktsson sagði margt, ég man það fæst nema lokaorðin sem voru um það að klára lífeyrissjóðsmálin fyrir kosningar. Þau ganga í sem stystu máli útá að ríkisstarfmenn fái ekki lengur betri lífeyriskjör en aðrir á vinnumarkaði. Ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn beiti sér mikið fyrir því að þessir sömu ríkisstarfsmenn fái launahækkanir umfram aðra á næsta kjörtímabili (kannski er þetta eitrað epli sem bíður eftir næstu ríkisstjórn?) en þeir hafa sætt sig við lægri laun vegna betri lífeyriskjara.

Hvorki formaður Framsóknarflokksins né forsætisráðherra sem er varaformaður flokksins héldu ræðu. Þeir eru of uppteknir af því að kljúfa flokkinn. (Það væri ágætt ef einhver fjölmiðill tæki saman allt það sem framsóknarfólk og þá sérstaklega Sigmundur Davíð hefur sagt háðslegt um sundurlyndi í stjórnarflokkunum þegar Jóhanna var forsætisráðherra.) Þeirra í stað hélt Lilja Alfreðsdóttir utanþingsráðherra ræðu (má það?) og byrjaði á að tala um grunsamlegar ferðir Rússa við landið og ræddi síðan m.a. um vörumerkjadeilu bresku verslunarkeðjunnar Iceland við íslensk stjórnvöld (sem nú virðist hafa verið stofnað til eingöngu til að Lilja gæti rætt deiluna á Alþingi) og fylgir þannig í fótspor vinar síns Sigmundar Davíðs sem er einmitt drjúgur við að mála allt og alla upp sem óvini sína. Svo tók hún upp gamla myndlíkingu um að keyra útaf og rútur, og fórst það heldur óhönduglega því hún vildi meina að það þyrfti vanan bílstjóra. Varla er það traustsyfirlýsing á Sigmund Davíð, eða færi einhver sjálfviljugur upp í bíl hjá honum?

Annars var fyndið að hún nefndi rútur því Katrín Jakobsdóttir hafði sérstaklega nefnt rútubílstjóra í sinni ræðu. Óþægilegra var þegar Ásta pírati kom í pontu og hóf ræðu sína á að rifja upp af hverju ætti að kjósa í haust, svona eins og það hefði alveg gleymst í umræðunni, en nánast hver einasti þingmaður stjórnarandstöðunnar hafði áður nefnt það. Flokksfélagi hennar Helgi Hrafn tók sinn ræðutíma í að ræða hvernig Pírötum hefði gengið í skoðanakönnnum og sagði að minnsta kosti þrisvar um hvað það væri merkilegt að „litli flokkurinn með skrítna nafnið og fánann með svarta lógóinu og skrítna fólkinu“ hefði náð svona langt. Talaði svo að því er virtist til þeirra sem ættu að bjóða sig fram til stjórnmálaþátttöku en það er kannski full seint að hvetja fólk til þess fyrir þessar kosningar. Ja nema til standi hjá Pírötum að hræra meira í framboðslistunum hjá sér.

Eini þingmaðurinn sem ég öskraði á var Karl Garðarsson. Hann hélt því fram að heilbrigðiskerfið hefði verið nagað að innan í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Það er fullkomlega óþolandi þegar fólk sem er í eða aðhyllist núverandi ríkisstjórnarflokka lætur eins og fyrri ríkisstjórn hafi tekið við stjórnartaumunum árið núll og ekkert hafi gerst þar á undan. Og Jóhanna og Steingrímur hafi af einskæru mannhatri skorið niður í útgjöldum ríkisins, en þar hafi allt verið í blóma áður.

Það er margbúið að benda á — og það veit Karl Garðarsson líka sjálfur — að heilbrigðiskerfið hafði verið svelt árum saman áður en hrunið varð. Það var illa statt, og Landspítalinn var tæknilega gjaldþrota í hruninu. Það var ekki úr miklu að spila fyrir ríkisstjórnina sem tók við, þessi sem svo aftur á móti skilaði svo góðu búi til núverandi ríkisstjórnar, að þegar þeir Sigmundur og Bjarni þurftu að monta sig, þá gripu þeir til talna frá fyrri ríkisstjórn sem sýndi að jöfnuður tekna væri meiri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum — áður en Bjarni og Sigmundur tóku við. En þetta framsóknarhyski þarf sífellt að ljúga. Og Karl Garðarsson ætti lítið að tala um hvað fyrri ríkisstjórn gerði lítið fyrir aldraða og öryrkja — því þegar hann hafði tækifæri til þá greiddi hann atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til þeirra.*

En nú segjast allir flokkar ætla að laga heilbrigðiskerfið og rétta hlut öryrkja og aldraðra. Sá hljómur er holur þegar hann kemur frá ríkisstjórnarflokkunum. Öllu trúverðugri eru félagshyggjuflokkarnir.


___
* Hér stóð áður að hann hefði greitt atkvæði gegn hækkun í 300 þúsund, en skv. þessu er það ekki rétt, heldur að hann vildi ekki afturvirkar hækkanir. Sem hann iðrast nú sárlega, svona rétt fyrir kosningar.

Efnisorð: , , , , ,