föstudagur, september 30, 2016

September á síðustu metrunum

September bar með sér góð og vond tíðindi.Sem hér verður skipt í lof og last.

LOF

Réttindi fatlaðs fólks
„Alþingi hefur samþykkt að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og verður þar með 167. ríkið sem fullgildir samninginn. Þetta er mikilvæg réttarbót fyrir allt fatlað fólk á Íslandi … Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er nefnilega merkilegur mannréttindasamningur. Hann felur ekki í sér nein ný réttindi til fatlaðs fólks. Staðreyndin er hins vegar sú að þótt fatlað fólk hafi í orði kveðnu sömu mannréttindi og aðrir, hefur það ekki getað nýtt sér réttindi sín til fulls. Það sem Samningurinn gerir er að viðurkenna að mannréttindi fatlaðs fólks eru þau sömu og annarra og staðfesta um leið rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda.“
Þetta er afar ánægjulegt, en eins og Steinunn Þóra Árnadóttir þingkona bendir á í pistlinum sem ofangreint er tekið úr, þarf að breyta ýmsu í íslenskri löggjöf til þess að uppfylla Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Parísarsamkomulagið
Alþingi hefur einnig samþykkt fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra afhenti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fullgiltan samning á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
„Til að samningurinn öðlist gildi formlega þurfa að fullgilda hann 55 ríki sem láta samtals frá sér meira en 55 prósent af heildarlosun. Fyrir athöfnina í dag [21. septbember] höfðu 29 ríki sem saman standa að fjörutíu prósentum losunarinnar fullgilt samninginn. Bandaríkin og Kína hafa þegar fullgilt samkomulagið, en þau eru í hópi þeirra ríkja sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum.“
Þetta er allt í áttina.

Og í framhaldi af því
Útvarpsþátturinn Samfélagið fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
„Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að viðurkenningin sé veitt fyrir almenna umfjöllun Samfélagsins um mál sem snerta íslenska náttúru. Samfélagið á Rás 1 hljóti fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. Þáttarstjórnendur, ásamt sérfræðingum, sem þau hafa fengið til liðs við sig, hafi unnið framúrskarandi starf við umfjöllun um náttúruvernd í víðum skilningi, bendi á ógnir sem steðji að náttúrunni og tengi umfjöllun öðrum málefnum sem eru efst á baugi. Þá veki þátturinn hlustendur til vitundar um hve mikilvæg umhverfismál eru í daglegu lífi þeirra, segir í umsögn. Þáttastjórnendur Samfélagsins eru Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson.“
Eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins þar sem þau starfa. Verðskulduð verðlaun!

Danir eru nú svo spes
Það virðist hafa gleymst að benda danska leikstjóranum Susanne Bier á þá staðreynd að konur hafa ekkert í kvikmyndagerð að gera. Eru fáar og hugsa smátt. Eða er það kannski bara á Íslandi? En allavega segir fréttavefur Ríkisútvarpsins að
„Danski leikstjórinn Susanne Bier bætt enn einni rósinni í hnappagat sitt þegar hún vann til Emmy verðlauna í gær. Þau hlaut hún fyrir leikstjórn sína í þáttunum um Næturvörðinn sem sýndir eru á RÚV. Hún varð þar með fyrsti Daninn til þess að eiga Óskarsstyttu, Gullhnött og Emmy verðlaun. Bier hlaut Óskar og Golden Globe fyrir bestu erlendu kvikmyndina árið 2011, Hævnen, eða Hefndin. Auk þess hlaut Hefndin verðlaun sem besta kvikmynd á evrópsku kvikmyndahátíðinni og kvikmyndahátíðunum í Róm og München. Ferill Bier er skreyttur fjölda verðlauna. Samkvæmt kvikmyndavefsíðunni IMDB hefur hún unnið til 37 verðlauna fyrir leikstjórn eða kvikmyndir sínar.“
Sko hana.

Börn og unglingar sem eiga við ýmsan vanda að etja
Í þjónustumiðstöð Breiðholts er gripið fyrr inn í en áður þegar grunur er um að börn glími við fjölþættan vanda, og gefur það góða raun.
„Hið svokallaða Breiðholtsmódel var tekið í gagnið í Breiðholti árið 2007 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Í kerfinu er brugðist við mismunandi þörfum barna áður, á meðan, og í sumum tilfellum í stað þess að senda þau í greiningarferli við ADHD og öðrum fjölþættum vanda. Sá tími er oft dýrmætur fyrir þroska barnsins en greingarferlið getur tekið allt að þrjú ár.

„Við erum að tala um börn með tilfinningavanda, hegðunarvanda, námsvanda hvort sem hann er sértækur eða ekki og úrræðin eru í takt við það. Við getum boðið upp á sálfræðiviðtöl og sérfræðiviðtöl, tengt fólk við kennsluráðgjafa og félagsráðgjafa. Það kemur upp vandi, skólinn hefur sanband og það er brugðist við tiltölulega fljótt“. segir Hákon Sigursteinsson sálfræðingur og deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Breiðholts. „Milli áranna 2011 og 2015 fækkar börnum sem koma inn á göngudeild BUGL frá Breiðholti um 56 prósent.“

Í sama dúr má telja frásögn Þorsteins V. Einarssonar deildarstjóra unglingasviðs hjá Frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Hann skrifar um samstarfsverkefni sem fólst í því að
„finna lausn og mæta þörfum unglinga og ungmenna sem áttu það sameiginlegt að neyta vímuefna og vanrækja hversdagslegar athafnir sem teljast nauðsynlegar til eðlilegs þroska. Hópuðust þessir unglingar og ungmenni saman í miðbæ Reykjavíkur og höfðu ógnandi áhrif á umhverfi sitt. Komu þau víða að af stór-höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Sviðin fjögur enduðu á að búa til sex vikna prógram sem nokkrum unglingum og ungmennum var boðið að taka þátt í. 

Úrræðið var mótað með unglingunum/ungmennunum og því var það í takt við þarfir þeirra. Foreldrar þeirra sem, eins og gefur að skilja, voru orðnir vonlausir og algjörlega úrræðalausir, tóku vel í verkefnið og sögðu eftir á að það hefði haft jákvæð áhrif á líf barna þeirra. Ekki nóg með að unglingarnir, ungmennin og foreldrarnir hefðu jákvæða upplifun af verkefninu, þá bentu kannanir (sem gerðar voru reglulega yfir tímabilið) til þess að verkefnið hafði jákvæð áhrif á viðhorf þátttakendanna. Og þeir sögðust allir vilja aftur taka þátt í samskonar verkefni, stæði það til boða. Enda veitti velferðaráð Reykjavíkurborgar þessu verkefni sérstök hvatningarverðlaun á vordögum 2016.“
Til þess að vita hvað gerðist næst verðið þið að lesa grein Þorsteins. (Og þá vaknar kannski spurningin afhverju þetta er ekki undir liðnum 'last'.)


LAST

Vopnahléið í Sýrlandi
Sýrlandsstjórn og þau ríki sem styðja hana virðast hafa litið á vopnahlé í Aleppo sem tækifæri til að skipuleggja enn andstyggilegri árásir á saklausa borgara jafnt sem andstæðinga sína. Fyrir, meðan og á eftir voru hryllilegar árásir. Flutningabílar með neyðarhjálp til íbúa Urum al-Kubrah í Aleppo-héraði voru sprengdir upp, loftárásir á íbúðahverfi, börn myrt.

Fyrir vopnahléið var staðan þessi í Aleppo:
„Síðustu læknarnir sem halda út í þeim hluta Aleppo, sem er á valdi uppreisnarmanna, biðla til Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, um að koma þeim 250.000 manns sem þar eru innilokuð til bjargar með því að koma á flugbanni yfir borginni til að koma í veg fyrir frekari loftárásir. 29 læknar undirrita bréfið. Þar segir að haldi loftárásir Sýrlandshers og Rússa á sjúkrastofnanir í þessum hluta borgarinnar áfram af sama offorsi og síðustu daga og vikur verði engar slíkar uppistandandi eftir mánuð.

Í bréfi læknanna segir að á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að borgarastríðið í landinu hófst hafi þeir horft upp á óteljandi sjúklinga, vini og samstarfsmenn deyja ofbeldis- og kvalafullum dauðdaga. „Heimurinn hefur staðið hjá og talað um hve 'flókið' ástandið í Sýrlandi sé, en lítið gert til að vernda okkur. Nýleg tilboð frá stjórninni og Rússum um að yfirgefa borgina hafa hljómað eins og lítt dulbúnar hótanir í eyrum íbúa - flýja núna, en horfast ella í augu við hvaða örlög?"

Læknarnir fullyrða að sprengjum hafi verið varpað á 42 spítala og heilbrigðisstofnanir í Sýrlandi, þar á meðal á 15 sjúkrahús þar sem þeir hafi verið að störfum. „Fyrir tveimur vikum köfnuðu fjögur nýfædd ungabörn eftir að sprenging rauf súrefnisflæðið í hitakassa þeirra. Þau tóku andköf af súrefnisskorti og líf þeirra leið undir lok áður en það hafði í raun byrjað.“
Og svo loksins þegar átti að hjálpa þessu veslings fólki þá er ráðist á það með meira offorsi en áður.

Sýknudómar í kynferðisbrotamálum
Nauðgarar þessa lands hafa fengið stimpil dómskerfisins uppá að þeim sé heimilt að nauðga. Fimmmenningarnir sem nauðguðu 14 ára stelpu voru sýknaðir, einn þeirra er reyndar í smá veseni fyrir að hafa sýnt myndskeið sem hann tók af nauðguninni, hinir lausir allra mála.

Kannski hefði kynjakvóti bjargað kallaflokknum frá klúðrinu?
Sjálfstæðisflokkurinn reynir nú að bjarga sér fyrir horn með því að færa eina konu upp á framboðslista í Suðvesturkjördæmi þótt flokksmenn hafi valið eintóma karla í efstu sætin. Þungavigtarkonur úr hópi sjálfstæðiskvenna sýndu óvænt sjálfstæði sitt og sögðu sig úr flokknum vegna prófkjörsúrslitanna og þvergirðingsháttar þeirra sem neituðu, allt þar til í dag, að leiðrétta framboðslista svo liti út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki bara fyrir og um karla.

Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson ræddu prófkjörsmálin í hlaðvarpsþættinum Kvikunni, og þar kom fram að ýmsar sjálfstæðiskonur, sem löngum hafa hafnað öllum kynjakvótum, sjái nú (loksins) að flokkurinn kerfisbundið hafni konum. Ungar konur séu teknar inn (núna Áslaug Anna sem er 25 ára) en þegar þær eru orðnar reyndar og vilja meiri völd eða taka of mikið pláss er þeim vísað á dyr í prófkjörum eða flæmdar burt með öðrum hætti. Og í staðinn koma ungar konur, sem þá væntanlega er ætlast til að hressi uppá ímynd flokksins en séu um leið meðfærilegar og megi kasta burt gerist þær of uppivöðslusamar. (Ég umorða og bæti mjög frjálslega við orð Kjarnafólksins). Best er þó við þetta allt að konur sem hafa hafnað því að til sé kerfislegt misrétti gegn konum og þá jafnframt hafnað aðferðum á borð við fléttulista og kynjakvóta til að leiðrétta kerfislegt miðrétti vegna þess að þær aðhyllast einstaklingshyggju Sjálfstæðisflokksins skuli nú sjá kerfislæga misréttið svona skýrt — en bara vegna þess að það bitnaði á þeim sjálfum og konum sem þær þekkja. Næst hafna þær kannski Thatcher möntrunni „það er ekki til neitt samfélag“ og horfast í augu við feðraveldið.

Skýrsla hin síðri
Vigdís Hauks ætlar að hætta á þingi en fer ekki baráttulaust. Hún notar síðustu daga sína til að birta margboðaða skýrslu sem hún skrifaði fyrst á meirihluta fjárlaganefndar, síðan á sig og skoðanabróður sinn frá helvíti, og nú situr hún ein uppi með skýrsluna sem enginn annar vill kannast við að sé skýrsla, hvað þá þingplagg eða nokkuð vit í. Þórunn og Þórður fóru einmitt líka yfir það mál í Kvikunni og sögðu að endurreisn fjármálakerfisins hefði gengið að mestu leyti vel og ekkert sem benti til að með öðrum aðferðum hefði þjóðarbúið staðið betur. Vigdísarskýrslan er því feilskot.

Svavar hinn viðræðugóði
Enginn er betri til hrútskýringa en framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda. Þó hagaði Svavar Halldórsson sér meira eins og tuddi þegar hann áttist við Sigríði Maríu Egilsdóttur í útvarpsþættinum Vikulokin. Hann kallaði sífellt framí fyrir öðrum og heimtaði sannanir fyrir öllum fullyrðingum sem fram voru settar í þættinum, hvort sem þáttastjórnendur settu þær fram eða Sigríður — en þó aðallega ef hún vogaði sér að segja eitthvað sem honum líkaði ekki. Reyndar minnti þessi taktík mig verulega á ótal umræður um feminisma og málefni honum tengdum þar sem þokkahjúin Eva Hauksdóttir og Einar Steingrímsson heimtuðu endalaust heimildir, helst í formi tölfræði — og var það álíka gefandi og að hlusta á tuddaganginn í Svavari. Honum hefur líklega eins og þeim fundist hann hafa 'unnið' umræðuna. (Afskaplega varð ég fegin, þegar ég hlustaði á útvarpsþáttinn, að hann fluttist ekki að Bessastöðum.)

LOKAORÐ
Um helgina verður svo haldið flokksþing Framsóknarflokksins. Verður ekki örugglega bein útsending?


Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,