sunnudagur, október 02, 2016

Dagur í lífi Sigmundar Davíðs

Helst hefði ég viljað að Sigmundur Davíð hefði verið endurkjörinn formaður, og leitt Framsóknarflokkinn í kosningabaráttunni. Því þótt Framsóknarmenn séu nógu bilaðir í bunkum til að vilja hann sem foringja sinn, þá er hinn almenni kjósandi löngu búinn að fá nóg af honum. Með Sigmund Davíð í fararbroddi hefði tap Framsóknar orðið verulega stórt í kosningunum.

Gallinn við kjör Sigurðar Inga er að nú er hugsanlegt að Framsókn haldi sjó og verði jafnvel kippt aftur í stjórn með Sjálfstæðisflokki og/eða Viðreisn. Það er, eins og maðurinn sagði, áhyggjuefni.

En úr því svona fór í formannskosningunum í dag er það mikil sárabót að Sigmundur var rasskelltur opinberlega af þeirri einföldu ástæðu að hans eigið fólk hafnaði honum. Í beinni. Og ekki þoldi hann lengi við í húsinu eftir það, eða eins og annar maður sagði: „Hann er þaulvanur að labba út þegar veruleikinn verður honum ofviða.“ Svo er það líka tilhlökkunarefni að heyra skýringar Sigmundar Davíðs á hversvegna hann tapaði. Sú skemmtun gæti enst lengi.

Efnisorð: ,