fimmtudagur, október 06, 2016

Ragnheiður fylgir flokkslínunni gegn réttindum kvenna

Pólska þingið felldi í dag með miklum meirihluta fóstureyðingafrumvarpið sem mótmælt var á mánudaginn. Það er ánægjulegt, þótt betra væri ef þau ströngu lög sem nú gilda þar væru felld úr gildi svo pólskar konur hefðu í rauninni val, en því fer fjarri. En það er gott að pólskir ráðamenn átta sig á því að svo má brýna deigt járn að bíti, og að konur láta ekki endalaust taka af sér réttindi. Svo hefur líka hugsanlega munað um stuðninginn sem aðrar þjóðir, t.a.m. Íslendingar sýndu með mótmælum á mánudaginn.

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni skrifaði meirihluti íslenskra þingmanna undir bréf til kollega sinna í pólska þinginu, en þingmenn stjórnarflokkanna tóku fæstir þátt í þeirri áskorun. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er ein þeirra sem ekki skrifaði undir, og eiginlega bjóst ég við að hún vildi bara fylgja sínum flokk og sínu fólki í því máli. Það vill reyndar svo til, eins og Stundin bendir á, að pólski stjórnarflokkurinn, sem stóð að hinni umdeildu atlögu að rétti kvenna yfir eigin líkama, er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna (AECR),* sem þýðir þá væntanlega að Sjálfstæðismenn vilja ekki gagnrýna svona góð skoðanasystkin sín.

Í dag tók Ragnheiður uppá því, eftir að Lilja Rafney Magnúsdóttir hafði farið að ræða fóstureyðingamálið í Póllandi (og útskýra að hún var fjarverandi þegar undirskriftum var safnað), að bera það saman við hið undarlega mál íslenska drengsins sem norsk barnaverndaryfirvöld vilja setja í fóstur í Noregi enda þótt móðir drengsins sé flutt til Íslands og hér á landi eigi hann ættingja sem vilja taka hann að sér ef móðurinni er ekki treyst af yfirvöldum til að hafa hann hjá sér. Ragnheiður notaði semsagt tækifærið í ræðustól til að bera saman ástandið í Sýrlandi, norska barnaverndarmálið og fóstureyðingabaráttuna í Póllandi, að því er virðist því síðarnefnda sérstaklega til hnjóðs.
„Við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum og við tölum um mannréttindabrot á fólki í Sýrlandi. Virðulegur forseti. Fyrir mig sem þingmann, fyrir mig sem móður og ömmu, þá er þetta mannréttindabrot sem ég get ekki sætt mig við og ég skora á hæstvirtan innanríkisráðherra og Barnaverndarstofu að ganga í málið nú þegar og koma í veg fyrir að þessi litli fimm ára drengur verði rifinn frá móður sinni og fjölskyldu hér á Íslandi,“ sagði Ragnheiður.
Hér mun ég ekki ræða hvað Ragnheiði finnst um mannréttindabrot í Sýrlandi ( og nenni ekki að fletta því upp og vil ekki gera henni upp skoðanir um það mál), en miðað við það að Ragnheiður leggur ekki lið baráttu kvenna fyrir réttinum til að láta rjúfa meðgöngu með læknishjálp (hér má minna á að til stóð að gera það refsivert að fara í fóstureyðingu í kjölfar nauðgunar og sifjaspella) þá má gera ráð fyrir að henni sé ekki sérlega um það gefið að konur hafi þessi réttindi eða noti þau. En að hún skuli býsnast fyrir því að „við tölum um mannréttindabrot á pólskum konum“, því það gerir hún með því að segja í næstu andrá „þá er þetta mannréttindabrot“ (leturbreyting mín). Það er varla hægt að draga af þessu aðra ályktun en henni finnist þessar pólsku vera með tómt píp og að það sé hreint ekki mikilvægt að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Alveg er það hrikalega ömurleg afstaða hjá Ragnheiði — og reyndar Sjálfstæðisflokknum í heild. Réttindi einstaklingsins hvað.

___
* Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn varaformaður stjórnar AECR í fyrra, en hann sagði í sömu umræðum á þinginu í dag: „„Ef við ætlum hins vegar að gagnrýna mannréttindabrot í Evrópu í hvert skipti sem þau eru framin, þá er af nógu að taka, því miður.“ Í frétt Stundarinnar má lesa um félagsskapinn sem Guðlaugur lætur sér vel líka í AECR, þar kippa menn sér ekki upp við smáræði eins og mannréttindabrot, því miður.

Efnisorð: , , ,