laugardagur, október 15, 2016

Smáflokkafréttir I

Inga Sæland hjá Flokki fólksins kom vel fyrir þegar ég barði hana fyrst augum í kappræðum í sjónvarpssal. Ég vissi ekkert um hana og ekkert um flokkinn, sem enginn virtist reyndar vita hvaðan var sprottinn. Í Fréttatímanum (14. okt) er ítarlegt viðtal við Ingu þar sem á henni er að skilja að hún hafi ein og sér stofnað flokkinn, en þegar ég las viðtalið var ég þegar búin að afskrifa framboðið eins og mér leist þó vel á Ingu og málstað hennar þarna í sjónvarpinu um daginn. Ástæðan er sú að Magnús Þór Hafsteinsson er efsti maður á lista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Magnús Þór hefur „talað gegn fjölmenningarsamfélaginu og þótt hallur undir útlendingaandúð“, eins og Stundin orðar það svo pent, eða er með öðrum orðum alþekktur rasisti. Nú síðast þýddi hann Þjóðapláguna Íslam (og þýddi bókartitilinn þannig að hann er meira ögrandi en á frummálinu) sem er nú hampað mjög af allrahanda múslimahöturum þessa lands. Að hleypa honum í flokkinn, hvað þá í oddvitasæti er ekki farsælt fyrir flokk sem ætlar að berjast fyrir þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu.

Kannski hefði Inga bara átt að gúggla betur, en í viðtalinu í Fréttatímanum segir hún aðspurð að „Flokkur fólksins tali ekki fyrir þrengri útlendingaandúð og ætli ekki að láta þennan málaflokk sig sérstaklega varða.“ En málið er auðvitað, að ef Magnús kæmist á þing fyrir flokkinn (líkurnar eru afar litlar) gæti hann greitt atkvæði eftir samvisku sinni í málum hælisleitenda, flóttamanna og annarra útlendinga — og það er alveg ljóst hver afstaða hans er í þeim efnum. Magnús Þór „fann sig ekki í Íslensku þjóðfylkingunni“ segir í Stundinni, og má af því skilja að þar hafi hann fyrst ætlað í framboð. Hver sá flokkur sem tekur við Magnúsi á lista er þarmeð búinn að samþykkja hann og allar hans þekktu skoðanir. Inga Sædal er ágæt að því er virðist á allri hennar framgöngu og virðist merkiskona samkvæmt viðtalinu í Stundinni, en ekki mun ég ljá flokki hennar atkvæði eða hvetja fólk til að kjósa hann.

Og talandi um rasista, þá er gleðilegt að Íslenska þjóðfylkingin nær ekki að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum. Ástæðan er sú að of fáir fengust til að skrifa uppá meðmælendalista; raunar er nokkurnveginn pottþétt að Þjóðfylkinging kemur ekki manni á þing. Mannvalið reyndar ekki glæst: Gústaf Níelsson var efstur á lista í Reykjavík norður en hann og sá sem leiddi listann í suðurkjördæminu drógu nýlega báðir framboð sín til baka. Gústaf er upphaflega Sjálfstæðismaður en var sem frægt orðið skamma hríð í mannréttindaráði Reykjavíkur í boði Framsóknar og flugvallarvina (sem létu eins og ekki hefði verið vitað um skoðanir hans þegar honum var boðið að taka sæti í nefndinni, sbr. „hefði átt að gúggla betur“), og virðist nú aftur orðinn pólitískt munaðarlaus með allar sínar vondu skoðanir. Samúð mín — sem engin er — skiptist alveg hnífjafnt milli hans og Þjóðfylkingarinnar.

Efnisorð: ,