þriðjudagur, október 18, 2016

Píratar óska eftir háseta á bát

Það er nokkuð áhugavert þetta útspil Pírata að bjóða öðrum stjórnarandstöðuflokkum og Viðreisn til viðræðna við sig um kosningabandalag. Það staðfestir svosem það sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa meira og minna lýst yfir; að vilja ekki vinna með stjórnarflokkunum. En taki þeir saman höndum við Pírata um að ganga bundnir til kosninga eru þeir þá jafnframt búnir að missa tækifærið til að ganga inn í ríkisstjórnarsamstarf með Framsókn eða Sjálfstæðisflokk, og einhverjum kann að þykja gott að eiga þann möguleika ef ske kynni að þeim yrði boðið upp í dans. Öðrum flokkum gæti þótt erfitt að þiggja boð Pírata vegna þess að boðið virðist vera á þeirra forsendum, og þeir þá nánast búnir að samþykkja Pírata sem leiðtoga nýrrar (hugsanlegrar) ríkisstjórnar. Já og svo gæti þetta með stutta þingið vegna nýrrar stjórnarskrár staðið í þeim, raunar gæti það staðið í kjósendum líka að eiga von á fleiri kosningum á næstunni.

Skrítnast af öllu í þessu kosningabandalagskrulli Pírata að bjóða Viðreisn með. Á hún eitthvað sameiginlegt með stjórnarandstöðuflokkunum? Hún virðist mjög fjarri þeim í flestu, en þó aðallega í mannvali, með fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins innanborðs. Var Viðreisn kannski bara boðið með til að stilla henni upp við vegg og sjá hversu gírug hún er í samstarf við núverandi ríkisstjórnarflokka eða hvort hún vilji í raun ýmsar umbætur sem Píratar og fleiri stjórnarandstöðuflokkar leggja áherslu á? Svo virðist sem Viðreisn hafi þegar afþakkað boðið. Hún segist í öðru orðinu ekki vilja vinna með núverandi ríkisstjórnarflokkum en í hinu að hún útiloki ekkert stjórnarsamstarf eftir kosningar (semsagt með Sjöllum). Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir flokkar taka höndum saman við Pírata. Kannski verður þetta kosningabandalag fárra flokka og þá er fróðlegt að sjá hverjir þeir verða.

Það er líka áhugavert að vita hvort kjósendur vilji kjósa heilan pakka af allskyns stjórnmálaflokkum (og vona að þeir tolli saman og út kjörtímabilið) eða hvort slíkt samstarf fæli kjósendur frá og beint í fangið á þeim flokkum sem ekki taka þátt — með þeim afleiðingum að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur setjist að nýju í ríkisstjórn.

Þeirri spurningu er ósvarað hvort svona kosningabandalag (margra eða fárra flokka) gangi upp. Hugsanlega verður hver höndin verður uppá móti annarri, milli flokkanna og innan þeirra, og allt springur eftir stutta stund (með eða án nýrrar stjórnarskrár). Á Norðurlöndunum ku þetta vera algengt stjórnarform og ganga ágætlega. Það er auðvitað engin trygging fyrir því að sama eigi við hér. En kannski er þetta stórsnjallt og verður hér eftir alltaf svona. Ef af verður.

Efnisorð: ,