fimmtudagur, október 20, 2016

Hillary Clinton berst við þríhöfða skrímsl

Þá er lokið sjónvarpskappræðum Hillary Clinton og Donalds Trump. Ég horfði á þær allar, sem er meira en ég get sagt um allt sjónvarpsefnið um íslenska flokka og frambjóðendur til þingkosninga. Hillary átti alveg fyrstu kappræðurnar. Þær næstu fannst mér jafnt á komið með þeim, því Trump náði nokkrum góðum skotum á hana sem hún átti erfitt með að svara þótt hún héldi ró sinni. Það voru reyndar undarlegustu kappræðurnar því Trump elti hana um allt sviðið og virtist vera harðákveðinn að vera alltaf í mynd um leið og hún.

Kappræðurnar í gær voru svo aftur Hillary í hag þótt hún ætti enn erfitt með sumar spurningar spyrilsins og skotin frá Trump. En allar yfirlýsingar hans um hvernig dómara hann vill velja í hæstarétt, að hann ætli ekkert endilega að taka tapi með sæmd (ætlar mannhelvítið að efna til borgarastyrjaldar?) og um fóstureyðingar sem þar sem barnið sé rifið úr konunni tveimur dögum áður en barnið ætti að fæðast (halló keisaraskurður) voru galnar. Og allt hans látbragð og hegðun eftir því.

Einna fróðlegast fannst mér - en líka nett klikkað - þegar Hillary fór að brigsla Trump um að vera handbendi Pútíns. Það að tölvupóstar hennar og önnur óþægileg gögn sem Wikileaks hefur verið að birta, sé hugsanlega runnið unnan rifjum Pútíns til að koma heldur Trump á forsetastól er verulega óþægileg tilhugsun. Nógu slæmt væri það ef Trump yrði forseti yfirleitt en ef það væri vegna þess að hann væri sérvalinn af Pútín hljómar ekki vel. En Pútín er auðvitað í sínu prívat kalda stríði við Bandaríkin (og Evrópusambandið, og næstum alla nema Assad) svo það ætti ekki að koma á óvart.

En að Julian Assange, sem margir hafa haldið uppá þrátt fyrir vafasamt athæfi hans í Svíþjóð (sjáiði hvað ég orðaði þetta pent?) og ótrúlegan gunguskap þar sem hann liggur eins og mara á Ekvadoríska sendiráðinu í Lundúnum, skuli leggja Pútín og Trump lið með því að birta efni sem kemur Hillary illa í kosningabaráttunni, það er ansi magnað. Raunar má líka snúa því við og segja að herferð Assange gegn Hillary (sem er eflaust mikið til komin vegna þess að Hillary mun aldrei náða hann en Trump gæti þakkað honum stuðninginn með því að rúlla út rauða dreglinum) komi Pútín og þá sérstaklega Trump vel, en þótt sá síðastnefndi eigi (vonandi) ekki lengur möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna, ef marka má spár og skoðanakannanir, þá er hættan ekki enn liðin hjá. Og hvað ef Trump vinnur - með fulltingi Assange? Ætlar þá fólk, sem aðhyllist baráttu WIkileaks gegn leyndarhyggju stjórnvalda, að fagna ógurlega?

Það þarf ekki að vera sérlega hrifin af Hillary til að sjá að hún er fimmtíumilljón sinnum betri kostur en Trump.

Andúð mín á Assange minnkar sannarlega ekki þessa dagana.