miðvikudagur, nóvember 09, 2016

9.11.

Kvíði minn var ekki ástæðulaus. Niðurstaða kosninganna í Bandaríkjunum er ótrúleg og vond.

Donald Trump verður forseti. Repúblikanar hafa báðar þingdeildirnar. Það þýðir að allir hæstaréttardómarar sem skipaðir verða næstu fjögur árin verða harðlínumenn sem eru á móti fóstureyðingum og samkynja hjónaböndum. Mikilvæg mannréttindi — sem Bandaríkjamenn hafa öðlast með blóði, svita og tárum — verða afturkölluð.

Fyrir heimsbyggðina alla, eða allavega Vesturlönd (Pútín er kátur) er þetta sjokk. Fyrir íbúa í Bandaríkjunum sem tilheyra minnihlutahópum, hvort sem það eru múslimar eða innflytjendur frá löndum sunnan við Bandaríkin, eru þetta afar vond tíðindi svo vægt sé til orða tekið. Þegar KKK fagnar er fokið í flest skjól fyrir stóran hluta þeirra sem búa og starfa í Bandaríkjunum.

Eftir Brexit, þegar Bretar bjánuðust til að velja að skella í lás á evrópusamstarf og innflytjendur, hafa samkynhneigðir og minnihlutahópar af erlendum uppruna orðið fyrir ógnunum og ofbeldi í meira mæli en áður í Bretlandi. Ofbeldismennirnir eru rasistar sem þykir sem þeirra málstaður ('burt með alla útlendinga sem stela störfunum okkar’) hafi fengið hljómgrunn og lögmæti með niðurstöðu Brexit kosninganna. Þegar ljóst var hvert stefndi eftir því sem leið á talningu í forsetakosningunum í nótt hlýtur að hafa runnið kalt vatn milli skinns og hörunds á fólki sem tilheyrir ýmsum minnihlutahópum í Bandaríkjunum.

Stjórnmálaskýrendur segja, réttilega, að þetta hafi verið sigur hinna ómenntuðu láglaunastétta sem finnst kerfið hafa svikið sig. En það má ekki líta framhjá þeirri staðreynd að höfuðandstæðingur Trumps var kona. Nógu erfitt hafa margir átt með að þola að hafa svartan karlmann sem forseta (lögregluofbeldi gegn svörtu fólki hefur verið mjög áberandi í forsetatíð Obama, sem ekki var af virðingu við hann; ef Hillary Clinton hefði orðið forseti hefðu konur kannski verið myrtar í meira mæli?) en tilhugsunin um konu sem æðsta yfirmann landsins, það mátti greinlega ekki gerast. Frekar ómennið Trump en konu. Frekar vanstilltan og dónalegan kall en konu. Allt frekar en konu.

Og nú sitjum við öll uppi með Trump.

Jesúsminn.

Efnisorð: