þriðjudagur, nóvember 15, 2016

Parísrafmagnsmetan

Eyjólfur hresstist þegar Bjarni Ben gafst uppá að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er afar ánægjulegt að svo virðist sem allir flokkar hafni samstarfi við hann (a.m.k. í stjórn þar sem hann hefur tögl og haldir). Nú fær Katrín stjórnarmyndunarumboðið, sem er enn eitt ánægjuefnið. Eftir allan bömmerinn með þingkosningarnar og svo forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þá veitti ekki af smá gleði í hjartað.

Og skal nú haldið áfram þar sem frá var horfið við bloggskrif.

Í þarsíðustu viku tók Parísarsamkomulagið gildi, okkur þessum sem höfum áhyggjur af ofhitnun loftslagsins til nokkurs léttis.

Fyrirfram var ég ekki bjartsýn, en það var aðallega vegna þess að ég átti von á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar myndi skemmileggja fyrir árangri í loftslagsmálum. Þá grunaði mig ekki að næsti forseti Bandaríkjanna yrði maður sem beinlínis hefur það að markmiði að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu. Reyndar sagði ég að „íslenska ríkisstjórnin verður örugglega ekki sú eina sem snýr þessum samningi uppá andskotann“ — en þá grunaði mig ekki að andskotinn sjálfur yrði einn valdamesti maður heims.

Fyrirsögn Fréttablaðsins endurspeglar viðhorf Trumps til loftslagsbreytinga, sem hann hafnar: „Endi olíualdarinnar frestað“.
„Trump sagði ítrekað í kosningabaráttu sinni að yrði hann kosinn forseti þá myndi hann kljúfa þjóð sína frá samkomulaginu sem leiðtogar 196 ríkja undirrituðu og taka fyrir alla fjármögnun loftslagstengdra verkefna úr bandarískum sjóðum. Eins vill hann gera allt sem í hans valdi stendur til að auka framleiðslu á olíu, gasi og kolum á leið sinni til að tvöfalda hagvöxt í Bandaríkjunum. Það loforð endurtók hann síðast í sigurræðu sinni“.

Trump er með öðrum orðum líklega hættulegasti maður heims.

Ekki það, við mannskepnurnar yfirleitt, allavega þau okkar sem ferðast um í farartækjum knúnum jarðefnaeldsneyti, erum auðvitað öll ógn við lífríki jarðar.

Notkun jarðefnaeldsneytis til að knýja vélar flugvéla, skipa og allskyns ökutækja er sérstakur skaðvaldur. Það verður að skipta um orkugjafa, hætta að framleiða farartæki sem eingöngu notast við jarðefnaeldsneyti. Fyrir nokkrum árum var talsvert talað um metan sem orkugjafa (einn helsti kosturinn er að það verður til við endurvinnslu) og var nokkrum bílum breytt þannig að þeir gengu fyrir metani í stað bensíns (eða díselolíu) áður. Þessir breyttu bílar vöktu ekki mikla lukku (farangursrýmið var tekið undir tankinn) en nú framleiða bílaframleiðendur metanbíla sem eru fluttir hingað til lands — og til er metanstrætó og metansorphirðubílar— en gallinn er sá að aðeins örfáar bensínstöðvar selja metan og aðeins ein metanstöð er utan höfuðborgarsvæðisins og hún er á Akureyri. Það er því lítt hægt að nota metanbíla til langferða eða trassa að fylla á tankinn í trausti þess að alltaf sé hægt að renna inná næstu bensínstöð til að fylla á.

Reyndar eru líka til metan-tvinnbílar, sem bæði hafa metan- og bensíntank, sem þýðir að það er þá hægt að nota bensínið þegar metanið þrýtur og komast þannig að minnsta kosti til Akureyrar og tilbaka (ef ekki hreinlega stíga bensínið í botn og keyra hringinn). Þá er auðvitað verið að nota andsvítans bensínið, en þó sjaldnar en áður, og aðeins þegar önnur úrræði eru ekki í boði. Vonandi verður samt gerð gangskör í því að setja upp metanstöðvar um landið svo metanbílar verði alvöru valkostur fyrir þá sem ekki ætla alfarið að halda sig innan höfuðborgarsvæðisins.

Flestum líst best á rafmagnsbíla sem framtíðarvalkost. Engin mengun, hægt að nota rafmagnið úr þessum vatnsaflsvirkjunum sem þegar er búið að reisa. Eini gallinn — og hann verður að bæta fyrr eða síðar með einhverju móti — er að það er eiginlega ekki nema fyrir fólk í einbýlishúsum eða blokkum með bílskýli að eiga rafmagnsbíl. Fólk sem ekki á bílskúr eða getur sett upp sína einka-hleðslustöð við sitt eigið bílastæði, á mjög erfitt með að hlaða rafmagnsbíl. Hraðhleðslustöðvar eru jú komnar upp hér og þar, en það er bara fyrir fólk sem hefur góðan tíma fyrir sér eða umburðarlynda vinnuveitendur að setja bíla þar í samband og þurfa svo að annaðhvort bíða í bílnum eða sækja hann úr hleðslu þegar hann er fullhlaðinn.

Um daginn auglýsti bílaumboð vistvæna daga þar sem var rætt um metanbíla og rafmagnsbíla og allskonar þeim tengt. Ekki mætti ég og varð ekki vör við að fjölmiðlar upplýstu neytendur um helstu niðurstöður, það gæti komið síðar. Einnig var haldinn fundur um rafbílavæðingu Íslands á vegum banka og samtöku orku- og veitufyrirtækja. Einn forsvarsmanna fundarins segir að rafbílar séu aðeins tvö prósent af öllum seldum bílum á Íslandi. Það er fáránlega lág tala, en að einhverju leyti má eflaust kenna um hve fáir hafa aðstæður til að hlaða rafbíla heima hjá sér (og hve fáir af þeim sem hafa þannig aðstæður hafa áhuga á að eiga mengunarsparandi bíl).
„Það er fljótt að tínast úr eftirspurninni. Ef fólk þarf að fara út á land oft, ef það býr í blokk og getur ekki hlaðið heima hjá sér, eða ef það er flókið að hlaða bílinn framan við húsið, dregur það úr vilja fólks til að kaupa rafbíl.“
Rafmagnstvinnbílar eru auðvitað möguleiki einsog metantvinnbílar, og ættu að henta fleirum en þeir eru 2,9 prósent seldra bíla núna. Í Noregi „eru rafbílar að slaga í 30 prósent af öllum seldum fólksbílum,“ segir í frétt um rafbílavæðingu í Markaðnum.

Litlu skrefin í átt að því að nota endurnýtanlega orkugjafa sem ekki menga eru betri en að gera ekki neitt. Ef allir keyra um á tvinnbílum (hybrid) í stað bíla sem eingöngu nota bensín eða dísel minnkar útblástur til muna. Næsta skref verður svo að fara á bíla sem nota ekkert jarðefnaeldsneyti. Og auðvitað verður að vinna að því að skip og flugvélar notist við aðra orkugjafa, það eru farartæki sem menga ekkert smáræði.

Er ekki annars Trump að fara að leggja einkaþotunni?

Efnisorð: , ,