föstudagur, desember 02, 2016

Myndlistaroktóber kynntur (örlítið seint) til sögunnar

Dagur myndlistar er haldinn árlega í október en þetta árið var allur októbermánuður tekinn undir að vekja athygli á starfi myndlistarmanna. Þetta fór reyndar framhjá mér þar til langt var liðið á mánuðinn og vegna þess að kosningarnar (hér á landi og í Bandaríkjunum) áttu hug minn allan tókst mér ekki að skrifa um sýningarnar sem ég þó sótti; ég fór semsagt bara á sýningar en ekki á vinnustofur listamanna. Mér fannst samt ekki annað hægt en sjá að minnsta kosti nokkrar sýningar enda er fátt betra til að útiloka umheiminn en fara á myndlistarsýningar. Nema auðvitað þegar myndlistin tekur uppá því að reka veruleikann harkalega framan í mann, sem hún gerir oft.

Í október heimsótti ég semsagt tvö lítil sýningarrými og þrjú söfn.

Á Kjarvalsstöðum var Kjarval sjálfur að vanda í Austursal en Hildur Bjarnadóttir með sýninguna Vistkerfi lita í vestursalnum. Lengi hef ég haft dálæti á Hildi og þessi sýning er algjört yndi.

Alltannar veruleiki var í Harbinger (listamannarekið sýningarrými á Freyjugötu 1) þar sem Unnar Örn Auðarson sýndi ljósmyndir sem fjalla um óeirð og hét sýningin Þættir úr náttúrusögu óeirðar. Þarna æstist upp í mér byltingamaðurinn.

Af einskærri forvitni en ekki vegna aðdáunar á Guðbergi Bergssyni gerði ég mér ferð í Bókasafn Mosfellsbæjar þar sem sýnt var úr smáverkasafni Guðbergs, og hét sýningin Að safna og hafna. Öllu áhugaverðari eru verk úr einkasafni Rögnu Róbertsdóttur og Péturs Arasonar sem eru sýnd í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg. Verk eftir íslenska listamenn á borð við Birgi Andrésson og Steingrím Eyfjörð eru þar í bland við mismikið kunnuglega en þó heimsþekkta útlendinga; frægasta nafnið er líklega Yoko Ono.

Í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í Grófinni eru nokkrar áhugaverðar sýningar. Erró er kominn á jarðhæðina og þar eru verk sem tengjast stríði og friði. Á hæðinni fyrir ofan er meira stríð. Írinn Richard Mosse sem dvaldist meðal uppreisnarmanna í Lýðveldisinu Kongó í fjögur ár. Ljósmyndir hans og videóinnsetning höfðu afar mikil áhrif á mig.

Yoko Ono er víða. Hún er með tvo sali í Hafnarhúsinu og breiðir úr sér á göngunum. Annar salurinn er aðallega með verk sem hún fékk íslenska listamenn til að gera með vatn í huga. Hinn er eins og leiksvæði því þar mega áhorfendur að taka þátt í að gera allskonar hluti, allt frá því að skrifa fallegt um mömmu sína til að negla nagla í vegg. Á ganginum fyrir framan er svo til sýnis frásagnir fjölmargra kvenna sem svöruðu auglýsingu frá Yoko Ono sem hljóðaði svona:
„Til allra kvenna, hvar sem er í heiminum: ykkur er boðið að senda inn frásagnir af meinum sem ykkur hafa verið unnin fyrir það eitt að vera konur.

Skrifið frásagnirnar á ykkar eigin tungumáli, með ykkar eigin orðum og eins opinskátt og þið viljið. Merkið með skírnarnafni ef þið viljið, en notið ekki fullt nafn.

Sendið mynd sem aðeins sýnir augu ykkar.“
Það er mjög magnað og mjög erfitt að lesa þessar sögur, jafnvel þótt maður gefist upp og fari án þess að lesa nærri allar.

Síðasta þátttökuverk Yoko Ono er svo einnig á ganginum skammt frá. Þar eru tré og býðst gestum að skrifa óskir sínar og hengja á trjágreinarnar. Margar óskanna eru um frið.


Úr því ég ekki skrifaði um þessa yfirreið mína um listalífið í október hefði ég kannski bara átt að geyma það fram á næsta ár í stað þess að æsa upp listaáhuga lesenda nú þegar enginn hefur tíma til annars en undirbúa jólin. En þar sem að sumum sýninganna lýkur um áramótin (öðrum er löngu lokið) finnst mér ekki annað hægt en bjóða áhugasömum þann möguleika að laumast inn á listasafn og hugsa um eitthvað allt annað, mitt í öllu jólastressinu. Það er kannski ekki óvitlaust að nota bara þessa helgi í það.


Hafnarhús: Richard Mosse, til 1. janúar 2017
Kjarvalsstaðir: Hildur Bjarnadóttir, til 8. janúar 2017
Hafnarhús: Erró, til 22. janúar 2017
Hafnarhús: Yoko Ono, til 5. febrúar 2017
Listasafn Íslands: Valin textaverk úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur, til 26. febrúar 2017

Efnisorð: