sunnudagur, nóvember 20, 2016

Stífluð klósett, fossar og fantafínt sjónvarpsefni

Sitt lítið af hverju sem rekið hefur á fjörur.

Heilsuvera
Frúin á Hálsi kynnti fyrir mér möguleikann á að endurnýja lyfseðla á netinu. Á Heilsuveru er einnig hægt að láta vita um hvort maður heimili að nota líffæri sín til ígræðslu, fylgjast með bólusetningum og panta tíma á heilsugæslunni. Takk fyrir ábendinguna, Ásta!

Ríkisfjölmiðillinn
Ríkissjónvarpið sýnir nú um stundir þætti um eða undir stjórn kvenna, sem eru allir ólíkir en mjög fínir. Reimleikaþáttur Bryndísar Björgvinsdóttur er mjög flott gerður, viðmælendur fróðir og Bryndís sýnir að henni tekst vel upp í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Edda engum lík“. Ég hélt að þetta væri sjónvarpsgerð á leikritinu „Eddan“ sem Edda Björgvinsdóttir sýndi í fyrra en þá er þetta um lífshlaup hennar með viðtölum við starfsfélaga, vini, ættingja og aðra aðdáendur, auk allskonar atriða úr ferli Eddu. Sem er auðvitað skemmtilegt.

Af eintómum fordómum hef ég aldrei horft á „Stiklur“ eða „Ferðastiklur“. Ekki haft nokkurn áhuga. En þeir tveir þættir sem ég óvart hef slysast til að sjá af Ferðastiklum (og þá kom mér á óvart að það var Lára en ekki Ómar pabbi hennar sem var í aðalhlutverki, svona fylgist ég nú vel með) hafa verið mjög áhorfsvænir og Ísland verið einstaklega fallegt. Í seinni þættinum sem ég sá var talað við Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur bónda í Bárðardal sem var svo bráðskemmtileg að litlu mátti muna að ég rifi mig uppúr sófanum og brunaði norður Sprengisand í heimsókn til hennar. Og svo sá ég loksins Aldeyjarfoss, þennan umtalaða foss sem greinilega nýtur sín ekki á ljósmyndum en sjónvarpsmyndavélin sýnir allar hliðar hans. Ég segi eins og konan (sem þó var ekki í þættinum):
„Hugsa sér þrælmennin sem ætluðu að eyðileggja þetta!“

Ég vissi ekki Illugi Jökulsson væri aftur byrjaður með „Frjálsar hendur“ í Ríkisútvarpinu. Ég er heltekin af forsetakjörinu í Bandaríkjunum svo ég byrjaði á þætti um Bandaríkjaforseta, hef hlustað á þann fyrri (frá 6. nóvember) af þeim tveimur sem komnir eru á hlaðvarpið, hann lofaði góðu.

Illugi Jökulsson skrifar einnig í Stundina og þar hvetur hann fólk á að vera stolt af því að vera vinstri sinnað, og rekur hversvegna í stuttum pistli.

Skandinavíusjónvarp
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata varð sér til skammar í skandinavískum sjónvarpsþætti. Breskur aðalsmaður sem heimsfrægur er orðinn fyrir að vera handritshöfundur Downtown Abbey þáttanna sýndi henni reyndar talsverðan yfirgang og greip frammí fyrir henni, en viðbrögð hennar voru að svara með hávaða og dónaskap.

Ég hef ekki séð alla Skavlan-þættina frá upphafi en ég efast um að nokkur gestur þar hafi sett upp slíkan reiðisvip áður eða komið svona fram við aðra gesti. Maður æpir ekki á fólk í rabbþætti að það eigi að skammast sín þótt maður sé ósammála því. Væri ég þáttastjórnandinn myndi líða langur tími áður en nokkrum öðrum Íslendingi (óuppdregið pakk sem kann sig ekki) yrði boðið inná gafl hjá sjónvarpáhorfendum á Norðurlöndum.

Umhverfis lúpínuna
Lúpínan er umdeild planta. Úrsula Jüneman hefur vakið athygli á eiturefnahernaði sem meðal annars beinist gegn lúpínunni. Skaðræðiseitrið Roundup hefur verið notað í því skyni, meðal annars af Vegagerðinni. Nú berast hinsvegar þau jákvæðu tíðindi að land sem grætt hefur verið upp með alaskalúpínu að tuttugufalt fleiri fuglar þrífist þar en á óuppgræddu landi.
„Mikill munur var á fjölda fugla milli gróðurlenda. Á óuppgræddu landi var að meðaltali 31 fugl á ferkílómetra, 337 á endurheimtu mólendi og 627 á landi sem hafði verið grætt upp með lúpínu. Þar sem fuglar voru fleiri var einnig meira af smádýrum sem eru mikilvæg fæða fuglanna,“ segir á skogur.is.

Í endurheimtu mólendi var mest um vaðfugla, tegundir sem fer hnignandi á heimsvísu, en í lúpínu var meira um algengari tegundir. Heiðlóa og lóuþræll voru algengustu tegundirnar í endurheimtu mólendi en hrossagaukur og þúfutittlingur í lúpínu.
Lúpínan fóstrar mikið mófuglalíf — hættum að eyða henni.

Blautklútar í salerni - eða öllu heldur enga blautklúta í salerni
Ég get ekkert umorðað þetta, vitna bara beint í frétt á rúv.is.
„Í rauninni er kannski einfaldara að segja bara hvað má fara í klósettið, það er auðvitað kúkur og piss og svo klósettpappír. Allt annað fer frekar illa með lagnirnar okkar og fráveitukerfið,“ segir Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum.
Þar með talið tannþráður, túrtappar, eyrnapinnar, dömubindi og bómull. Íris segir svokallaðar blautþurrkur sérstakan skaðvald fyrir lagnirnar, Veitur þurfi að senda fólk út af örkinni mörgum sinnum í viku til að losa stíflur vegna þeirra, en viðhaldið er greitt með almannafé.
„Og við höfum fundið mjög mikla aukningu já síðustu ár, hvort sem fólk er að nota meira, það er kannski aðeins meiri markaðssetning á alls konar svona blautþurrkum. Eða hvort fólk er að kasta meiru í klósettið,“ segir Íris.
Hún segir það villandi að margir þessara blautklúta eru á umbúðum sagðir leysast upp.
„En það gerir það bara alls ekki og fráveitur um allan heim eiga við þetta vandamál að stríða,“ segir Íris. „Ef fólk sér þörf fyrir að nota blautþurrkur þá bara gerir það það, bara að henda henni í ruslatunnuna.“

Að lokum er vert að minna á þessar safnanir:
Unicef safnar fyrir sveltandi börn í Nígeríu og Stígamót til að styrkja rekstur samtaka sem hafa létt þungum byrðum af herðum þúsunda þolenda kynferðisofbeldis.


Efnisorð: , , , ,