mánudagur, nóvember 28, 2016

Glæpsamleg meðferð á dýrum árum saman og enginn fær neitt að vita

Það er ógeðslega vond tilfinning að hafa stutt dyggilega við bakið á Brúneggjaverksmiðjunni. Brúnegg hefur komist upp með árum saman, ÁRUM SAMAN, að fara hræðilega með hænsn og á sama tíma selja eggin úr þeim sem vistvæn egg úr hænum sem njóta frelsis og verpa í hreiður.

Árum saman keypti ég egg frá Brúneggjum, eða allt frá því að ég frétti fyrst af þeim. Þar til í fyrra (eða var það á þessu ári?) keypti ég Brúnegg í þeirri sælu trú að varphænurnar lifðu ívið betra lífi en hænum byðist almennt í eggjaframleiðslu. Og þar sem ég er sólgin í egg þá vildi ég allavega versla við þá sem færu vel með hænur. Hah!

Inni í skáp fann ég gamlan eggjabakka frá Brúnegg sem ég hef keypt í fyrrasumar — þegar ástandið var sem verst í húsum Brúneggja — og á honum eru upplýsingarnar sem seldu eggin árum saman, trúgjörnum vitleysingum eins og mér.

Á eggjabakkanum stendur:
10 vistvæn brún egg
Brúnar hænur eru frjálsar og verpa í hreiður

Inni í eggjabakkanum stendur:
Velferð hænsna er höfðað leiðarljósi hjá Brúneggjum. Fyrir tækið hefur hlotið vistvæna vonttun og má nota merkið Vistvæn landbúnaðarafurð á framleiðslu sína. Til að vistvæna vottun fáist er lögð sérstök áhersla á umhverfistengda þætti við framleiðslu eggjanna auk þess að ekki eru notuð óæskileg hjálparefni.
„Free range“ hænur eru ekki búrum, heldur ganga um gólf og verpa í hreiður.“

Einhvernveginn fær maður ekki þá tilfinningu af að lesa þennan texta, að hænurnar séu þúsund talsins og séu þetta frá 13,75 til 24,4 hænur á hverjum fermetra hússins. Hvað þá að þær vaði blautan skít, grindhoraðar og fiðurlausar. Deyi ýmist úr hungri eða kóleru.

Ég man ekki hvenær ég hætti að kaupa egg frá Brúneggjum. Kannski þegar þau vantaði í búðir í nóvember í fyrra (ef ég skildi Kastljósþáttinn rétt) eða hugsanlega þegar ég rak augun í að fleiri eggjaframleiðendur voru farnir að bjóða egg frá lausagönguhænum. Ég hef helst reynt að kaupa lífrænu eggin frá Nesbú, eða það sem Nesbú allavega heldur fram að séu „lífræn egg frá frjálsum hænum sem fá lífrænt fóður, njóta útiveru og verpa í hreiður“. Þegar ég finn þau ekki í búðum kaupi ég „brúnu vistvænu eggin“ frá Stjörnueggjum, en innan á eggjabakkanum stendur:
Stjörnuegg eru náttúrulegur og næringarríkur orkugjafi
Fyrirtækið Stjörnuegg hf. býr yfir 80 ára þekkingu og reynslu við framleiðslu eggja og hefur ávallt haft það markmið að framleiða fyrsta flokks vöru.
Vistvæn Stjörnuegg eru hágæða afurða frá lausagönguhænum, sem flögra frjálsar um híbýli sín og verpa eggjum í hreiður.
Engin sýklalyf eða önnur óæskileg aukaefni eru notuð við framleiðslu Stjörnueggja.
Stjörnuegg notar einungis óerfðabreytt fóður.
Mér finnst reyndar nett óþægilegt að kaupa Stjörnuegg því ég held að sömu aðilar séu með svínabú, eitt af þessum sem ekki er leyft að heimsækja og taka myndir. En það sama gæti átt við um Nesbú. Kannski kemur það í ljós næstu daga í Kastljósi.

Í Kastljósi kom fram að Brúnegg séu 40% dýrari en egg úr venjulegum búrhænum. Ég sem neytandi hef fúslega borgað meira fyrir þessi egg (og örugglega eru líka „vistvænu og lífrænu“ eggin sem ég nú kaupi líka dýrari en önnur, á þeim er þó vonandi ekki músaeitur einsog á eggjunum frá Brúneggjum) því ég hef viljað stuðla að betra lífi fyrir þessi hænugrey sem verpa eggjunum. Nú kemur í ljós að Brúnegg hafa ekki bara staðið fyrir hræðilegu dýraníði í margvíslegum myndum, heldur hafa neytendur eins og ég verið blekktir til að kaupa vöru sem þeir hefðu aldrei annars keypt, og það á okurprís.

Kristinn Gylfi Jónsson framkvæmdastjóri Brúneggs sem salírólegur talaði við Tryggva Aðalbjarnarson játaði í sjálfu sér allt hvað varðaði aðbúnað hænsnanna, og svaraði ítrekað að „slíkt gæti komið fyrir“ og „það má vel vera“. En var samt alveg harður á því að í raun hefði ekkert verið að og að þetta hefði allt verið eðlilegt (líka að fara svona ansi hressilega fram úr vistvæna viðmiðinu 8 hænur á fermetra, auðvelt sé að þrífa húsin og þau séu þurr og vel loftræst). Í hans huga er það lítilvægt að hafa þurft að slátra 14.000 fuglum að kröfu MAST. Hann er samt ekkert reiður útí MAST, helst að það sé þeim að kenna að hafa komist upp með þetta svona lengi. Engin iðrun í gangi. Ánægður með að vera að stækka enn meira við sig.

Og talandi um Matvælastofnun. MAST telur neytendur hafa verið blekkta, segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins. En samt er það MAST sem vissi um ástandið í húsum Brúneggs allt frá árinu 2007 en upplýsti ekki neytendur. Að Brúnegg hafi ekki verið svipt rekstrarleyfi og öll dýrin tekin frá þessum dýraníðingum er auðvitað hneyksli. Að MAST hafi ekki upplýst neytendur um að verið væri að svindla á þeim er hneyksli.* Að MAST hafi ekki látið fjölmiðla vita (nafnlaust þessvegna) til þess að neytendur hefðu getað hætt að kaupa egg frá Brúnegg — og þarmeð kippt fótunum undan rekstri fyrirtækisins — er stórfurðulegt.

Hafi Tryggvi Aðalbjarnarson fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins þökk fyrir rannsóknarblaðamennsku í þágu dýra og neytenda.


___
* Vegna þess að ég er á móti illri meðferð á dýrum reyni ég að haga innkaupum mínum eftir því. Það má auðvitað búast við því að einhverjir framleiðendur merki vörurnar ranglega (vel sé farið með varphænur, varan sé ekki prófuð á dýrum) en það þýðir ekki að maður eigi að hætta að kaupa vörur með slíkri merkingu. Hætta að kaupa af þeim framleiðanda sem verður uppvís að svindli og dýraníði jú, en ekki hætta að trúa því að sem neytandi geti maður ýtt framleiðendum í þá átt að selja vöru sem þar sem dýraníð kemur hvergi við sögu. Vegna þess að enginn einn einstaklingur getur fylgst með hvort yfirlýsingar á umbúðum séu réttar verður hann að kaupa vörurnar í góðri trú, og vona að ekki sé verið að ljúga að sér. Í þessu efni er því mjög mikilvægt að neytendur geti treyst á eftirlitsiðnaðinn til að fá upplýsingar um framleiðsluhætti og innihald vöru eftir því sem við á. Þá og ekki fyrr getur neytandinn tekið upplýsta ákvörðun um að kaupa — eða sniðganga vöruna. Eða í þessu tilfelli framleiðandann.

Efnisorð: ,