fimmtudagur, desember 15, 2016

Munurinn á r og t

Með morgunmatnum eru lesnar kjötauglýsingar stórfyrirtækja. Heilsíðuauglýsing frá Hagkaup vakti sérstaka athygli mína í morgunsárið. Þar má sjá A) fölsk formerki, B) verksmiðjubúskap kynntan með ‘beint frá bónda’ stemningu, C) skemmtilega villu sem afhjúpar hið fyrra.

A) Afhverju er hamborgarhryggur undir fyrirsögninni Villibráð í miklu úrvali? Neðst á síðunni kemur fram að Hagkaup láti „framleiða sérstakan hrygg“. (Veit Kári af því að hægt er að rækta hrygg án höfuðs, fóta og innyfla?) Er framleiddi hryggurinn = villibráð?

B) Svínabóndinn á Vallá á Kjalarnesi hefur um árabil verið með risastórt svínabú. Það má vera að það komist ágætlega frá (hinu stranga eða hittþóheldur) eftirliti Matvælastofnunar, en það er ekki þar með sagt að svínin lifi í vellystingum pragtuglega. Aldrei hefur mér vitanlega sést til svína í útiveru á Kjalarnesi og gyltur eru þar þrautpíndar til undaneldis jafnt sem í öðrum verksmiðjubúskap.

C) Allt þetta afhjúpast reyndar í auglýsingunni þar sem stendur að grísinn (nú hamborgarhryggurinn) hafi verið alinn „í góðu yfirlæti við kjötaðstæður“. Einmitt, það er eingöngu litið á grísina sem kjöt og þeir meðhöndlaðir sem slíkir. Að þeir séu sagðir séraldir, fóðraðir á einhverju góðgæti og í góðu yfirlæti gefur til kynna einhvern heimalning sem allir knúsa og kjassa. Bágt á ég með að trúa að það sé raunveruleikinn sem hamborgarhryggurinn séraldist upp við meðan hann var lifandi dýr sem aldrei andaði að sér fersku lofti.

Þótt þetta sé hlægileg auglýsing finnst mér ekkert fyndið að svínakjöt seldist sem aldrei fyrr um þetta leyti í fyrra. Var þó nýbúið að koma upp um ógeðslega meðferð á gyltum í svínarækt.

Verði þeim að góðu sem vilja halda áfram að styðja verksmiðjurækt svínabænda og kjötaðstæður dýranna.






Efnisorð: ,