föstudagur, desember 23, 2016

Meðvitund og munnviksvatn

*Líklega er rétt að vara við lestrinum (sem ég man of sjaldan eftir að gera) því hér eru nokkuð nákvæmar lýsingar.*

Þegar ég hafði skrifað síðasta pistil rifjaðist upp fyrir mér gamalt mál þar sem kona kærði karlmann fyrir kynferðislega áreitni, hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi í héraðsdómi fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi en Hæstiréttur sýknaði hann. Ég las dómana í gær og margt sem þar kom fram stakk mig mjög. Ég tek fram að ég þekki ekkert til málsins annað en það sem ég hef lesið mér til um, og veit því ekkert um sekt og sýknu þótt ég dragi mínar ályktanir og sé sammála öðru dómstiginu en ekki hinu. Þess má líka geta að fyrir héraðsdómi hafði ákærði einhvern nóboddí sér til varnar en í Hæstarétti var hann kominn með harðsnúinn verjanda sem nú situr á þingi og heitir Brynjar Níelsson.

Það er ágætt að vitna í blaðafrétt frá 2003 til að fá yfirlit um hvað málið snýst:
„Hæstiréttur sýknaði í gær sjúkraflutningamann af ákæru um að hafa áreitt kynferðislega konu sem flutt var frá heimili sínu á Landspítalann í ágúst árið 2001. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn sekan.

Lífsýni sem tekin voru af brjósti konunnar og borin saman við blóðsýni úr manninum þykja ekki með óyggjandi hætti benda til að maðurinn hafi, líkt og konan hélt fram, sleikt brjóst hennar. Þá sakaði hún manninn einnig um að hafa káfað á lærum sínum og kynfærum. Konan hefur staðfest að hafa tekið inn lyf umrætt kvöld í þeim tilgangi að svipta sig lífi.

Í dómi Hæstaréttar segir að þegar litið sé til lýsinga mannsins á því hvað honum bar að gera samkvæmt starfsreglum þyki ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að lífsýni úr honum fannst á brjósti konunnar, hvort sem það hafi komið úr munnvatni hans eða á annan hátt, en annarra gagna naut ekki við um ætlað áreiti hans. Þar segir ennfremur að ekki verði útilokað eins og aðstæðum var háttað að konan hafi getað mistúlkað athafnir mannsins.“
Hér á eftir er vitnað í dóma Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar (sem var kveðinn upp 15. maí 2003) en þá má lesa í sama skjalinu undir málsnúmerinu 544/2002 á síðu Hæstaréttar.

Málavextir eru semsagt þeir að í ágúst 2001 tekur kona inn lyf í þeim tilgangi að stytta sér aldur. Dóttir hennar kemur að henni og hringir á sjúkrabíl og lækni. Konan fyrirverður sig mjög fyrir þessa mislukkuðu tilraun og grúfir andlit í höndum sér þegar sjúkraflutningamenn koma á staðinn til að flytja hana á spítala. Hún virtist „með litla meðvitund“, „hjálpaði ekkert eða lítið til“ þegar var verið að færa hana í sjúkrakörfu til að bera hana út, og „hafi þeir eiginlega farið með hana eins og meðvitundarlausa manneskju“. Læknirinn fylgir með útí sjúkrabíl en fer ekki með á spítalann svo að sjúkraflutningamaðurinn, hinn ákærði, er einn aftur í hjá konunni. Fram kemur að hann er með latexhanska, að minnsta kosti meðan læknirinn sér til (sem skiptir máli síðar enda þótt ekki sé útskýrt hvort hanskarnir eigi að vernda hann fyrir sjúklingunum eða þá fyrir honum).

Hann setur á hana elektróður til að fylgjast með hjartslættinum. Þau greinir á um restina.
„Kærandi sagði að sig hafi bara langað til að sofna en sjúkraflutningamaðurinn hafi kallað til sín nokkrum sinnum og ýtt á bringuna á sér. Hún hafi ekki svarað honum og hafi þá orðið þess vör að hann kleip og þuklaði á vinstra brjóstinu á sér og muni að hún hugsaði hvort hann ætti að gera þetta til að athuga vökuástand hennar. Hún hafi verið fljót að ýta þeirri hugsun frá sér. Hann hafi haldið þessu áfram og þuklað bæði brjóstin og farið með höndina ofan í buxurnar og snert skapahárin en ekki farið neðar. Hún hafi stífnað öll upp og hann þá fært höndina. Hann hafi þá kallað aftur til hennar og ýtt aftur á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi farið með höndina strax upp á hægra brjóst og þuklað á sér þar. Síðan hafi hún orðið þess vör að hann nartaði í vinstri geirvörtuna. Þetta hafi ekki verið langur tími, en fyrir sér heil eilífð. Síðan muni hún eftir því þegar verið var að bakka að sjúkrahúsinu hafi hann staðið upp og glennt fætur sína í sundur, en hún hafi verið með bogna fætur, og síðan hafi hann káfað á lærum sínum og sköpum að utanverðu. Loks hafi hann lagt fæturna niður og lagað bolinn. Hún hafi allan tímann haft hendur fyrir andlitinu. Þegar sjúkraflutningamaðurinn hafi örugglega verið farinn hafi hún sagt hjúkrunarkonu frá því að hann hefði káfað á sér.

Hjúkrunarfræðingarnir, sem tóku á móti kæranda, sögðu fyrir dómi að hún hefði eflaust verið eitthvað undir áhrifum lyfja en ekkert „útslegin“, bara miður sín, og staðfestu að hún hafi strax sagt þeim að ákærði hefði leitað á sig. Þær töldu að sjúkraflutningamaðurinn hefði lýst meðvitund kæranda minni en þær upplifðu hana.

[H] læknir, sem síðan var kölluð til, kvaðst muna óljóst eftir atvikum. Tilfellið hafi verið tilkynnt sem lyfjaeitrun, en hún taldi þó að kærandi hefði rætt við sig með fullri meðvitund. Hún hafi sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á sig og sleikt geirvörturnar. Hún kvaðst ekki hafa viljað trúa þessu og þótt þetta út í hött og viljað spyrja hana um lyfin, sem hún hefði tekið, en kærandi hefði alltaf komið aftur að þessu. Þar sem hún var þetta stöðug í framburði sínum hafi hún kallað til geðlækni sem var á bakvakt.

[Þ] geðlæknir kvaðst muna greinilega eftir samtali við kæranda. Hún hafi verið ágætlega vakandi, ef til vill eitthvað merkt því að vera undir áhrifum lyfja. Hún hafi sagt sér frá því að sjúkraflutningamaður hefði þreifað á brjóstum sér og kysst þau. Hún hafi komist í uppnám við að segja frá þessu. Hann hafi rætt frekar við hana og síðan deildarlækninn og þar sem sagan sem kærandi sagði þeim hvoru í sínu lagi var samhljóða, hafi í raun ekki verið um annað að ræða en að senda kæranda á neyðarmóttöku.

[A] læknir, sem skoðaði kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi, hefur eftir henni líka frásögu um áreiti sjúkraflutningamannsins og aðrir. Segir í skýrslu hans að kæranda hafi liðið illa og grátið einkum þegar hún rifjaði atburðinn upp. Kærandi hafi virst eðlileg við almenna skoðun og hafi síðan verið tekin strok frá geirvörtum í von um að finna lífsýni úr munnvatni.“
Lífsýni fannst með DNA frá ákærða, þótt Hæstiréttur tæki ekki jafn mikið mark á þeirri niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur gerði. (Ég rek ekki tæknilegu hliðina á því hér en bendi á að lesa dómana.)

Sjúkraflutningamaðurinn hafnaði lýsingum brotaþola og hélt því fram að hann hafi fylgt starfsreglum í einu og öllu (sem lýst er ítarlega í dómnum). Útskýring hans á því hvernig munnvatn hans hefði borist á brjóst konunnar var sú að „hann hefði þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu.“ Og svo bæta hæstaréttardómararnir við: „Þessi tilgáta hans virðist ekki hafa verið könnuð nánar.“ Kannski vegna þess að í héraðsdómi þótti þessi skýring fjarstæðukennd?

Er ekki annars merkileg tilviljun að það hittist svo á að konan ímyndi sér að maður, sem hefur einmitt þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu, skuli sleikja á henni brjóstin og skilja þar eftir munnvatn? Hversu óheppinn getur einn ákærður karlmaður verið? Jú, hann getur verið svo óheppinn að sjúklingurinn, sem hann telur að sé nánast meðvitundarlaus, er með nægilegri rænu til að taka eftir því sem fram fer.

(Og hér er tilefni til að spyrja: ef sjúkraflutningamenn eru með hanska til að verja sjúklingana, er þá ekki alveg galið að nota hanskaklæddar hendur til að þurrka úr munnvikunum á sér? Eða er almennt bara viðurkennt að það megi liggja munnvatnsslóð á líkömum sjúklinga eftir sjúkraflutningamenn eða heilbrigðisstarfsfólk?)

Hæstaréttardómararnir sýknuðu semsagt manninn og rökstyðja mál sitt þannig (í styttri útgáfu):
„Í niðurstöðu héraðsdóms er sagt að framburður kæranda sé helsta sönnunargagnið í málinu og því haldið fram að hún sé staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Á það er bent að hún hafi strax sagt frá atvikinu er ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu og frásögn hennar hafi, samkvæmt framburði hjúkrunarfólks þar og á neyðarmóttöku Landspítalans, verið í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá er talið að trúverðugleiki kæranda styrkist af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram komi um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta. Þó ráði úrslitum að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda.“

„Þótt ásakanir kæranda á hendur ákærða hafi verið staðfastar verður að fallast á það með verjanda ákærða að nokkrar breytingar hafa orðið á frásögn hennar frá fyrstu skýrslutöku 19. ágúst 2001, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu 11. desember 2001 um nokkur atriði og síðar fyrir dómi varðandi stöðu brjóstahaldarans.“
(Minnispunktar til sjálfrar mín: ekki rugla neitt með stöðu brjóstahaldarans.)

„Þá hefur hún frá upphafi borið að hún hafi allan tímann haft hendur fyrir augunum og ekki séð athafnir ákærða heldur skynjað þær … Þótt hjúkrunarfræðingarnir sem fyrst sáu hana á sjúkrahúsinu beri að hún hafi verið með meiri meðvitund en sjúkraflutningamennirnir sögðu þeim, liggur ekkert fyrir um veruleikaskyn hennar meðan á flutningi þeirra stóð.“

„Vitnið A, sem ók sjúkraflutningabifreiðinni, varð einskis óvenjulegs var og sat hann þó rétt fyrir framan kæranda og ákærða og gat fylgst að hluta með því sem fór fram á milli þeirra um baksýnisspegil bifreiðarinnar. Kærandi vissi samkvæmt framburði sínum af honum en lét ekkert vita af ætluðu broti.“
Algengt er að fólk frjósi þegar það verður fyrir kynferðisofbeldi og konan segist hafa orðið stjörf. Hún var auk þess vægast sagt ekki í sínu besta formi — skammaðist sín reyndar svo mikið að hún hélt fyrir andlitið allan tímann — en átti semsagt að æpa á bílstjórann þegar starfsfélagi hans var að misnota aðstöðu sína?

„Þegar litið er til lýsinga ákærða á því hvað honum bar að gera og athöfnum hans í greint sinn þykir ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að DNA-snið úr ákærða fannst á vinstra brjósti kæranda, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt. Annarra gagna nýtur ekki um ætlað áreiti ákærða við kæranda. Verður ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að kærandi hafi getað mistúlkað athafnir ákærða.

Af því sem að framan er rakið leiðir að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt ákærða.“
Það er ekki útilokað að það séu eðlilegar skýringar á því að munnvatn karlmanns finnist á brjósti konu sem hann er að setja elektróður á. Það er oftúlkun að það skipti máli að DNA-ið er úr ákærða (eins og einnig kemur fram í dómnum). Það getur hafa komið DNA úr ákærða á annan hátt en með munnvatninu. Þetta eru allt frábær rök.

Hér kemur svo tengingin við síðasta pistil: Heldur einhver að ef sjúkraflutningamaðurinn væri gamall hommi en sjúklingurinn á sjúkrabörunum 17 ára strákur, að frásögn sjúklingsins yrði ekki tekin trúanleg? Eða að það þýddi eitthvað að vera með einhverja útúrsnúninga á því hvernig munnvatn gat borist á líkama hans?

Ég er nokkuð viss um ekki.

Efnisorð: ,