laugardagur, desember 24, 2016

Dómurinn yfir nuddaranum

Skal nú áframhaldið skrifum um kynferðisbrot og dóma.

Ef þetta þykir óvenjulegt umræðuefni á þessum degi má í staðinn velta upp þeim möguleikum
- að hið velskipulagða bloggplan hafi raðast svona upp af einskærri tilviljun og nú sé einfaldlega kominn tími á að birta tilbúna pistla ef á annaðborð eigi að birta þá á þessu ári
- að bloggritari sé með samviskubit yfir að hafa ekki tekið þátt í 16 daga átaki gegn kynferðisofbeldi
- eða þá að það sé svona mikill jólastemmari í gangi.

Nema auðvitað að allt ofangreint eigi við.

En semsagt.

Tveir úrskurðir Hæstaréttar verða hér nefndir. Öðru málinu skilaði Hæstaréttur aftur í hérað því honum fannst ekki eins líklegt og héraðsdómurum að kona sem væri nýbúið að nauðga með einum hætti hefði sjálfviljug tekið þátt í annarskonar kynlífi strax í kjölfarið. Héraðsdómur sá ekki tenginguna og sýknaði nauðgarann af endaþarmsnauðguninni en þarf nú aftur að skoða málið, kannski jafnvel með kynjagleraugum.

Öfugt við sjúkraflutningsmálið rúmum áratug áður (sjá síðasta pistil) þá tók Hæstiréttur sig til og dæmdi nuddara í tveggja ára fangelsi fyrir að setja fingur í kynfæri konu sem var í nuddi hjá honum árið 2012. Nuddarinn neitaði auðvitað sök og kom með aðrar skýringar á athæfi sínu en var samt dæmdur. Það er ágætt að svo virðist sem að í minnsta kosti þessu máli hafi Hæstiréttur áttað sig á alvarleika kynferðislegs áreitis, ekki síst þegar brotaþolinn er í viðkvæmri stöðu. Fólk verður að geta treyst því að geta farið til lækna og sjúkraþjálfara og annarra fagmanna — eða vera ekið í sjúkrabíl — án þess að verða fyrir kynferðislegu áreiti, burtséð frá því hvað er almennt erfitt að verða fyrir því.

Ég man reyndar vel eftir umræðu um þetta nuddaramál þegar það kom í fjölmiðlum. Það þótti allsekki öllum það neitt alvarlegt að nuddarinn hefði gert þetta við konuna. Eva Hauksdóttir, yfirlýstur andfeministi, lét sér tildæmis sæma að hæðast að fórnarlambi nuddarans.

Nú skilst mér að Eva sé í laganámi, eða eða er hún kannski útskrifuð og farin að verja kynferðisbrotamenn að hætti Brynjars Níelssonar? Hann, Sveinn Andri Sveinsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson yngri eru samherjar hennar í því að berjast gegn brotaþolum í kynferðisbrotamálum með öllum ráðum, niðurlægingarherferð ef þeim þykir það þurfa. Við hin fyllumst viðbjóði.

Efnisorð: , , ,