laugardagur, janúar 07, 2017

Veganúar 2016

Æ þessi janúar. Eftir tæpar tvær vikur verður Trump forseti Bandaríkjanna. Í ofanálag stefnir í svæsna hægristjórn hér á landi. Það fer hrollur um mig.

Eini bjarti punkturinn er Veganúar. Samtök grænmetisæta á Íslandi hafa semsé skorað á landsmenn að prófa að vera vegan í janúar. Borða engar dýraafurðir, og „leitast við að útiloka og forðast eftir fremsta megni hagnýtingu og ofbeldi gagnvert dýrum, hvort sem það á við um fæðu, fatnað, skemmtun eða aðra neyslu“. Og „stuðla þannig með virkum hætti að dýravernd, umhverfisvernd og bættri heilsu“, eins og segir í annarri af tveimur heilsíðuauglýsingum sem ég hef séð um veganúar.

Veganismi, eða grænkeralífstíll, hefur orðið æ meira áberandi og ljóst að hópur þeirra sem íhuga að gerast grænkerar eða hafa þegar tekið það skref fer sístækkandi.* Ég dáist að fólki sem treystir sér til þess að hætta að nota dýraafurðir alfarið, flestum finnst nógu erfið tilhugsunin að gerast grænmetisæta. Það sem mér finnst þó skrítið er hvað margar kjötætur verða reiðar yfir grænkeralífstíl. Sérstaklega varð það áberandi þegar aðgerðarsinnarnir í Aktí-vegan mótmæltu við sláturhús SS á Selfossi. Umræðukerfið við frétt DV um mótmælin telur 203 athugasemdir, mestmegnis frá æfareiðu fólki sem hatast útí aðgerðarsinnanna fyrir að berjast fyrir réttindum dýra.

Ég hafði ekki séð þessa frétt þegar kunningi minn fór æstur mjög að býsnast yfir mótmælunum, og af hans endursögn mátti skilja að tugir ef ekki hundruð manna hefðu veist að starfsmönnum SS með hótunum um ofbeldi. Ég flýtti mér að fordæma ofbeldishótanirnar en aldrei skildi ég almennilega afhverju þessi kunningi minn varð svona reiður. Ef þú vilt ekki vera grænkeri þá bara borðar þú þitt kjöt? En nei, hann eins og fólkið í athugasemdakerfi DV þurfti að lýsa yfir heimsku mótmælendanna (sem mér virtust vera örfá og mestmegnis ungir krakkar, og ég skildi vel að þau voru í uppnámi og fannst gott hjá þeim að vekja athygli á dýraslátrun), veruleikafirringu þeirra (Disney-rökin**), og ræða í þaula hvað honum þætti kjöt gott.

DV fréttinni fylgdu einmitt margar yfirlýsingar um hvaða kjöttegund fólk ætlaði að borða í tilefni af því að hafa lesið fréttina („Nú langar mig í djúsí steik, já eða vænan hammara með hellings baconi. Og í tilefni þessarra mótmæla verða pylsur á mínu heimili alla sunnudaga í náinni framtíð. Jafnframt munum við hafa lambakjöt næstu 7 daga í röð til að sýna þessu samhug“), og sem mest gert í að segja eitthvað sem myndi valda vegan-aðgerðarsinnunum ógleði eða sorg („best að tyggja eitthvað sem hafði púls og sál“). Einnig var hneykslast á að mótmælendurnir væru ekki í vinnu eins og annað fólk (mótmælt var á sunnudögum) — hvort það væri kannski á atvinnuleysisbótum (sem allir vita að er versta fólkið). Þá var spurt með vandlætingu afhverju aðgerðarsinnarnir berðust ekki frekar fyrir sveltandi börnum eða gegn stríðinu í Sýrlandi (sömu rök og feministar fá; alltaf er einhver annar málstaður mikilvægari en sá sem þið berjist fyrir), og svo var auðvitað óttinn við að grænkerar ætluðu að þröngva öllum til að hætta að borða dýr („ef þú hefur samúð að vilja ekki drepa dýr þá skaltu bara rækta þinn eigin búfénað og elska þau, það er enginn að banna þér það við öll höfum valið en að neyða aðra að gera sama val og þú er ekkert nema frekja.“)*** Já, og svo voru það þeir sem þóttust sniðugir og vildu ræða tilfinningalíf gulróta, og hvort grænmetisát sé ekki morð?

Margir voru reyndar að æsa sig yfir orðanotkun aðgerðarsinnanna, en þar höfðu orð eins og nasistar, morðingjar og dýraníðingar heyrst. Tvö seinni orðin hljóta að eiga rétt á sér þegar verið er að mótmæla við sláturhús — en býður ekki skammstöfun Sláturfélags Suðurlands uppá samlíkingu við nasista? Í hita leiksins er sú samlíking allavega mjög nærtæk. Og mótmælendurnir voru augljóslega í tilfinningauppnámi. En í athugasemdakerfinu var fólk tryllt yfir þessu líka. „það er vegna alls sem þið kallið okkur. Áttaðu þig á því að það voruð ÞIÐ sem byrjuðuð að kalla OKKUR morðingja og dýraníðinga.“**** Mikið sem þetta fólk verður reitt þegar því finnst vera ráðist á lifnaðarhætti sína.

Það er freistandi að nafngreina alla vitleysingana, en ég ákvað að kippa nöfnum þeirra út. Afturámóti finnst mér rétt að birta hér góðar athugasemdir grænkera undir fullu nafni.

Tinna Björg Hilmarsdóttir:
„Vissulega ekki vonlaus barátta, ekki þegar þessi málstaður dýranna er hjartans mál og ástríða þúsunda ef ekki milljóna manna, þegar vísindin sýna fram á skaðsemi dýraafurðarneyslu bæði fyrir heilsu okkar og náttúru jarðar. Það hefur engin réttindabarátta verið jafn sterk og breiðst jafn hratt út og veganisminn, sem er jú réttindabarátta fyrir hönd allra dýraegunda
við erum flest dýravinir inn við beinið, viljum huga vel að heilsu okkar og hugsa vel um jörðina okkar og því er veganisminn að blómstra í samfélaginu sem betur fer :) Vonandi muntu kynna þér málin betur í framtíðinni og tileinka þér þennan fallega lífsstíl einn daginn.“

María Magnúsdóttir:
„Tegundahyggja fjallar um að gera eða að gera EKKI upp á milli dýrategunda.Verksmiðjudýr hafa sömu þarfir og gæludýrin þín að öllu leyti. Kýr og svín eru t.d. mjög miklar tilfinningaverur. Kýr gráta þegar kálfarnir þeirra eru teknir frá þeim eða drepnir ef þeir eru kk og flestar þeirra ná sér aldrei eftir missirinn. Þær eru sæddar hvað eftir annað og látnar fæða og pyntaðar svona aftur og aftur, svo ekki sé minnst á að þær eru mjólkurmaskínur fyrir mannkynið. Mjólk er óholl ,það vita orðið margir í dag og það sýna rannsóknir berlega. Myndirðu vilja að gæludýrið þitt liofði við sömu aðstæður og verksmiðjudýrin og væri slátrað á endanum. Sum dýr eru svo óheppin að vera í fangelsi hefðar, þau eiga að vera étin og eiga að vera öðruvísi en eru það alls ekki, þau hafa bara öðruvísi útlit en gæludýrin ykkar.“

Sirrý Klemensdóttir:
„Haldiði í alvöru að veganisminn sé bara byggður á disney hugmyndum? Eruði í alvöru að segja mér að þið haldið að milljónir manna séu haldin ranghugmyndum um að dýr eigi skilið sömu grunnréttindi og mannkyn? Eruði í ALVÖRU að segja mér að dýr eigi skilið að vera lokuð í stíum, notuð á allan hátt mögulegan, upplifi sársauka andlegan og líkamlegan fyrir mannfólks hag og það sé í lagi því dýr séu óæðri mannfólki og okkur ber að nýta þau þess vegna? Finnst ykkur það réttlætanlegt og eðlilegt?? Ok... áttum okkur á einu! Mikill meiri hluti vegana var einu sinni kjötæta! Þ.a.l. Í gegnum ferlið að breytast frá kjötætu yfir í vegan, liggja miklar rannsóknir (byggðar á samviskubiti) á réttlætingu kjötáts! Það er alveg sama í hvaða horn maður snýr sér í rannsóknum á kjötáti og iðnaði, maður rekur hausinn allt í og meiðir sig!

Svo það sem veganinn hefur umfram kjötætunni (þið sem haldið því fram að veganisminn snúist um að litlu krúttlegu lömbin eigi bara að að fá knús) er mikil þekking og rannsókn á báðum hliðum! Flest vegan fólk veit ALLT um kjötát og kjötiðnað. Meira heldur en kjötætan (sem lifir í sjálfsblekkingu um að þessi iðnaður sé í lagi, nauðsynlegur, réttlætanlegur og óbreytanlegur) Veganisminn er byggður á miklum rannsóknum í tugi ára gerðum af fagfólki út um allan heim. Kjötætan sem berst gegn veganismanum (í raun eruði að berjast gegn fólki sem vill dýrum vel.... what does that make you then? ) veit hins vegar lítið sem EKKERT um vegan. Það er algjört lágmark að kynna sér málefnið sem maður gagnrýnir! Bottom line: Ekki koma upp um eigin fávisku og dæma það sem þú veist ekkert um. Það er bara kjánalegt.“

Já, og svo sagði Jón nokkur Bergsson þetta, sem ég tek hjartanlega undir:
„Held að við hin ættum frekar að sýna þessum krökkum þá virðingu að kynna okkur málstað þeirra nánar í stað þess að hlaupa í vörn yfir því að einhver gagnrýni lífstíl okkar. Hvort sem einhver er þarna með ullartrefill eða ekki held ég að þau séu mun minni hræsnarar en við sem köllum okkur dýravini eða umhverfissinna um leið og við höldum sláturhnífnum á lofti.“


_________
* Það fer betur á að nota íslenska heitir grænkeri yfir vegan. Grænkeralífstíll er ágætt orð en veganismi þykir mér þó tengjast hugmyndafræðinni og baráttunni og mun því nota það áfram, eða víxla þessu öllu einhvernveginn.

** B: „Kannski búinn að horfa á of mikið af Disney teiknimyndum í dag þar sem dýr eru manngerð? Nei þetta er ekki spurning um skoðanir. þetta eru staðreyndir. Dýr hafa ekki sama rétt og við. Það er staðreynd. ef þú heldur öðru fram ertu ekki í tengingu við raunveruleikann.“ B fór mikinn og sagði einnig þetta í mörgum aðskildum athugasemdum: „efast um það að dyr hafi sömu andlegu tilfinningar og við. Þau eru ekki nalægt okkur í greind, hvað þa hugsun … Dýr eru ekki menn. Afhverju eiga þau að njóta "mann"réttinda? … Dýr hugsa ekki eins og menn og eru ekki nálægt okkur í greind. Eru langt á eftir okkur í vitsmunalegri þróun. Þannig að NEI, dýr eiga ekki að njóta sömu réttinda og menn … Mér er bara drullusama. Þau eru dýr ekki menn.“ Og svo kom þessi skarplega athugasemd: „Afhverju skyldu 90% af þessari vegan stétt vera kvenkyns?“ G, sem einnig barðist hatrammlega í athugasemdakerfinu gegn þessum stórhættulega veganisma, reyndist skoðanabróðir B að þessu leyti líka, og svaraði: „pròfađu ađ spyrja vegan hvort ađ hann eđa hùn sè feministi þà skýrist þetta allt saman... Same brand of crazy.“

*** S var búinn að grafa sig ofan í skurð, tilbúinn að berjast gegn þessum yfirgagnssömu grænkerum. GG var líka voða sár: „Því getið þið ekki veganfólkið ekki bara etið ykkar gras og látið okkur hin í friði.“

**** Sveinn Þórhallsson sem ekki er grænkeri (meira svona grænkeravinsamlegur) svaraði þessu svona: „Ég velti hins vegar upp þeirri spurningu hvort mótmæli við þessa orðanotkun snýst aðeins um skilgreininguna á orðinu, en ekki það sem verið er að benda á sem er að framleiðsla kjöts leiðir óhjákvæmilega til þess að einstaklingar deyi - svo ég endurtaki nú sjálfan mig. Ég kalla þetta persónulega ekki morð, það er lagalega skilgreindur verknaður milli manneskja. Mér finnst þessi munur og þessi orðanotkun samt ekki skipta nokkru einasta máli í þessari umræðu“

Efnisorð: