fimmtudagur, janúar 19, 2017

Obama kvaddur

Barack Obama hefur verið góður forseti. Hann hefur ekki náð að gera allt sem hann vildi, hann hefur gert sumt þveröfugt við það sem hann sagði sjálfur en að mestu leyti hefur hann verið til sóma. Hann getur auðvitað ekki annað en litið vel út í samanburði við fyrirrennara sinn, fáráðinn George Bush yngri. Hvað á sé hann borinn saman við stórhættulega klikkhausinn sem tekur við af honum á morgun, enda hafa vinsældir Obama aukist undanfarið, nú þegar fólk sér hvað við blasir og hvers verður að sakna.

Þegar Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir átta árum lagði hann mikla áherslu á að:
- Bæta aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu
- Kalla bandaríska hermenn heim frá Írak
- Loka fangabúðunum í Guantanamo. 
- Gera úrbætur í innflytjendamálum
- Herða reglur um fjármálamarkaði
- Auka samvinnu þvert á flokka

Innflytjendamálin hef ég ekki sett mig inn í og ekki veit ég hvernig honum gekk með að herða reglur á fjármálamarkaði, en hann hefur sjálfur viðurkennt
„honum hafi mistekist að brúa þá gjá sem myndast hafi milli stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum. Heift og vantraust milli flokka hefur versnað, sagði Obama.“
Annað sem mistókst var að loka Guantanamo. 245 manns voru þar í haldi þegar Obama varð forseti og hann mætti mikilli andstöðu þingsins við að uppfylla þetta loforð sitt. Mörgum var þó sleppt í hans tíð og eru nú 55 eftir í Guantanamo.

Írak og hernað Bandaríkjanna yfirleitt þarf að ræða alveg sér. Eitt af því sem við getum aldrei skilið, hér í herlausu landi, er hin fáránlega hernaðardýrkun Bandaríkjanna. Obama er ekki saklaus af stríði en hann hefur aðallega verið að reyna að bakka útúr þeim stríðum sem Bush yngri kom af stað í Afghanistan og Írak snemma á öldinni. Ein afleiðing Íraksstríðsins er uppgangur Daish/Íslamska ríkisins, og hernaðarmætti Bandaríkjanna hefur verið beitt í baráttunni við það, og eru drónaárásirnar óhugnanlegu partur af þeim hernaði.

En þetta hefðu sennilega allir forsetar Bandaríkjanna gert (líka Hillary Clinton). Það var semsagt ekkert sérlega heppilegt að veita Obama friðarverðlaun Nóbels þegar hann var nýtekinn við embætti, og ekki virkar sú ákvörðun neitt gáfulegri núna.

Burtséð frá stríðsbröltinu þá hefur Obama verið feikna góður forseti. Honum hefur ekki tekist að gera allt sem hann ætlaði sér, eða ekki á þann veg sem hann ætlaði sér. Þannig varð ACA (e. Affordable Care Act) sem allajafna er kallað Obamacare ekki eins og til var ætlast, því þingið (les: Repúblikanar) lögðust gegn því að öllu afli. Og þeir hafa haft meirihluta í þinginu. Það varð því að semja um aðra niðurstöðu í málinu, kerfið varð ekki jafn fullkomið og lagt var upp með. (Svo hneykslast andstæðingar Obama á því að hann hafi ekki uppfyllt loforðin um hvernig kerfið átti að virka.)

Jón Ólafsson ræðir þessa stöðu Obamacare í pistli:
„Heilsugæsluumbætur Baracks Obama eru í senn dæmi um hvað honum hefur tekist og mistekist í valdatíð sinni. Heilsugæslufrumvarpið fór vissulega í gegnum þingið og það hefur staðist árásir andstæðinganna síðan – þar á meðal umfjöllun Hæstaréttar um einstök atriði þess. En niðurstaðan er fjarri því sem Obama lofaði í kosningabaráttunni. Tvö mikilvæg atriði eru fallin út: Í fyrsta lagi er ekki komið á neinu almenningstryggingakerfi. Einstaklingar verða eftir sem áður að semja við einkaaðila, sem þar með ráða lögum og lofum um verðlagningu trygginga. Í öðru lagi hafa lyfjafyrirtæki eftir sem áður forréttindastöðu gagnvart ríkisvaldinu um verðlagningu á lyfjum. Verulegar hömlur eru á svigrúmi ríkisins til að semja um verð við lyfjafyrirtækin, sem í raun geta ákveðið það upp á sitt einsdæmi – þó var þetta eitt af því sem Obama lýsti skýrt yfir að hann myndi breyta í kosningabaráttu sinni.

Ástæðan fyrir því að þessi mikilvægu atriði hafa horfið úr umbótaáætlun forsetans er einfaldlega sú að í þeim samningaviðræðum sem nauðsynlegar voru til að tryggja nægan stuðning á þingi við frumvarpið um heilsugæsluumbætur hafði heilsutrygginga- og lyfjaiðnaðurinn nógu sterka stöðu til að geta komið þeim út. Þannig þurfti Obama að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem hann fordæmdi til að ná árangri í þessum málaflokki og niðurstaðan ber keim af því, hagsmunir stórfyrirtækjanna eru tryggðir – á kostnað hins almenna borgara að sjálfsögðu.“
Samt sem áður breytti Obamacare miklu fyrir mikinn fjölda fólks sem áður hafði ekki aðgang að heilbrigðiskerfinu. Ef almennilegur forseti tæki við af Obama væri enn hægt að bæta kerfið, og þá yrði þetta bara fyrsti áfanginn í átt að alvöru almannatryggingakerfi.

Jón nefnir þarna stórfyrirtækin. Þau koma víðar við sögu. Engin(n) verður forseti Bandaríkjanna nema fá mikinn fjárhagslegan stuðning frá einstaklingum og stórfyrirtækjum — sem eiga svo til að innheimta greiðann síðar. Eflaust eru til mörg dæmi um það í forsetatíð Obama en eitt þykir mér blasa við. Það var þegar hann veitti „olíufélaginu Shell heimild til að bora eftir olíu á heimskautasvæðinu á Tjúktahafi“ og sagði að „farið yrði eftir ströngum skilyrðum“, en „umhverfisverndarsamtök hafa gagnrýnt þessa ákvörðun forsetans í ljósi yfirlýsinga hans um viðbrögð við loftslagsbreytingum og sakað hann um hræsni.” 

Eitt má þó Obama eiga, og það er linnulaus gagnrýni hans og barátta gegn skotvopnabrjálæðinu. Ótal skotárásir hafa verið framdar og í hvert sinn heldur hann hjartnæma ræðu og biðlar til þjóðarinnar að taka sönsum, herða þurfi löggjöf um skotvopn. Hann hefur bent á að hann einn geti ekki breytt þessu, til þess þurfi stuðning ríkisstjóranna, þingsins og kjósenda. Allt kemur fyrir ekki. Aðeins tíu ríki banna fólki að bera skotvopn en í fjölda ríkja má fólk ganga vopnað um göturnar og er misjafnt hvort fólk þarf yfirleitt leyfi fyrir vopnunum. Þetta er náttúrlega algjör bilun.

Að jákvæðari málum þar sem vissulega hafa orðið breytingar til batnaðar. „Obama skrifaði undir lög um jöfn laun karla og kvenna og afnam skilyrði, sem Reagan setti upphaflega, um að ekki mætti styðja fjölskylduráðgjöf ef hún fæli í sér jákvæða afstöðu til fóstureyðinga (e. global gag rule). Hann hefur hvatt til jafnréttis, og leggur þar að jöfnu kvenréttindabaráttu, baráttu blökkumanna og baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum.“

„Í maí 2012 lýsti Obama sig fylgjandi því að hjónabönd fólks af sama kyni yrðu lögleg.“ Og með úrskurði hæstiréttar Bandaríkjanna varð það úr, og nú geta samkynja pör gengið í lögformlegt hjónaband.

Obama dreif í því að opna að nýju sendiráð á Kúbu og fór svo þangað í heimsókn, og hafði þá ekki starfandi forseti Bandaríkjanna komið þangað í tæpa öld, eða allt frá heimsókn Calvin Coolidge árið 1928.

Obama braut einnig blað í sögu Bandaríkjaforseta þegar hann varð sá allra fyrsti til að heimsækja ríkisfangelsi. „Hann hefur stytt fangelsisdóma fjörutíu og sex fanga og segir nauðsynlegt að endurskoða refsistefnu í Bandaríkjunum, sem ræni fólk tækifærum og bitni sérstaklega á fólki sem ekki er hvítt.“ Kynþáttamál voru reyndar mjög áberandi í forsetatíð Bandaríkjanna en það er eins og lögreglan hafi tvíelfst í ofbeldi sínu gegn svörtum (ungum karlmönnum sérstaklega) og kom ítrekað til uppþota vegna þessa. Obama er sér meðvitaður um misrétti sem bitnar á fátækum og svörtum íbúum landsins, og ræddi það þegar hann heimsótti New Orleans þegar minnst var hörmunganna þegar fellibylurinn Katrín gekk yfir.
Obama sagði í ræðu sinni að fellibylurinn hefði opinberað misréttið sem hafði gerjast í áratugi. „New Orleans hefur í áratugi verið illa haldin af ójöfnuði,“ sagði forsetinn. „Ójöfnuði sem hefur skilið of margt fólk, sérstaklega fátækt fólk og svarta, eftir atvinnulaust eða án heilsugæslu eða góðs húsnæðis. Of mörg börn hafa alist upp umkringd ofbeldisglæpum þar sem þeim hefur boðist slæm menntun og fá þeirra hafa haft tækifæri til að brjótast úr viðjum fátæktar.“
Ein af síðustu ákvörðunum Obama í embætti var að stytta fangelsisdóm Chelsea Manning svo að hún situr aðeins í fangelsi þar til í maí, en átti eftir að dúsa þar í u.þ.b. 28 ár hefði ekkert verið að gert. (Því miður eru einhverjar líkur á að Trump snúi ákvörðuninni við.)

Obama tók líka afstöðu með þolendum kynferðisofbeldis þegar hann fordæmdi hegðun Bill Cosby sem ásakaður er um að hafa nauðgað fjölda kvenna.
„Ég skal orða þetta svona,“ sagði forsetinn. „Sá sem gefur konu eða karlmanni lyf og hefur síðan samræði við viðkomandi án samþykkis fremur nauðgun. Ég tel að enginn í þessu landi eða öðru landi í hinum siðmenntaða heimi ætti að umbera nauðgun.“
Þegar Barack Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir átta árum sagði ég:
„Obama verður kannski ekki eins farsæll og ég myndi óska. Hans bíða hrikalega erfið verkefni: að greiða úr hryðjuverkastríðum Bush stjórnarinnar og takast á við efnahagsvandann sem er upphafið að heimskreppu, ef svo fer sem horfir. Líkurnar á að hann svífi átakalaust gegnum forsetatíð sína og styggi engan eða geri ekkert sem hægt er að átelja hann fyrir af einhverjum aðilum eru mjög litlar.“
Völva Vikunnar hefði ekki getað orðað þetta betur.

Það skiptir auðvitað mestu hvernig forsetinn stendur sig í starfi, hvort hann gerir meira gagn en ógagn. Ég er á því að Obama hafi gert meira gagn (er ekki að hugsa um hernaðinn hér) því hann hefur verið málsvari minnihlutahópa — séð óréttlætið sem þeir eru beittir — og gert meira en margir fyrirrennarar hans til að auðvelda löndum sínum lífið og draga úr óréttlæti.

Svo hefur það líka verið mikill kostur að hann er einstaklega vel máli farinn, fyndinn, flottur í tauinu og glæsilegur á velli, og yfirhöfuð hrikalega kúl og töff. Ekki spillir fyrir að hann er einstaklega vel giftur. (Michelle er alveg kapítuli útaf fyrir sig og aðdáun mín á henni hefur vaxið mjög.) Það er því einstaklega vond tilfinning að arftaki hans í embætti sé þetta svín sem ætlar að snúa öllu á haus og gera Bandaríkin verri en þau nú eru.

En semsagt, Barack Obama fær bestu einkunn og verður sárt saknað. Það er hreinlega alveg ferlegt að hann sé að hætta.

Efnisorð: