fimmtudagur, janúar 12, 2017

Engeyjarstjórnin: ráðherravalið

Ekki nóg með að mér finnist hræðilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn og aftur kominn í ríkisstjórn, nú meira segja með forsætisráðuneytið og meirihluta ráðuneyta, heldur eru ráðherrar þessarar nýju ríkisstjórnar margir hverjir alveg síðasta sort.

Hver hefði trúað að Jón Gunnarsson yrði ráðherra? Hann hefur verið gerður að ráðherra samgöngumála, byggða- og sveitastjórnarmála, þrátt fyrir að vera asni á öllum sviðum.

Stundin gerði ágæta úttekt á nýju ráðherrunum og rifjaði þá þetta upp.
„Jón Gunnarsson, hefur setið á þingi frá árinu 2007, og er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur fengið hæstu styrki frá útgerðinni. Á þingi hefur hann lagt áherslu á að skapa sjávarútvegsfyrirtækjum langtímaöryggi, einfalda veiðigjaldakerfið og sagt að það sé óráð að markaðurinn ráði ferðinni við útreikning veiðigjalda. Þá hefur hann lagst eindregið gegn uppboðsleiðinni á kvóta.
Hann var formaður atvinnuveganefndar þegar meirihluti nefndarinnar ákvað að bæta fjórum virkjanakostum við þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun í nýtingarflokk, þvert á niðurstöður rammaáætlunar. Áður hafði hann reynt að bæta átta virkjunarkostum við tillöguna en bakkað vegna mótstöðu sem hann mætti á þinginu.“
Stundin nefnir það ekki en Jón hefur beitt sér mjög fyrir hvalveiðum en sonur hans gerir út á hvalaveiðar.

Sigríður Á. Andersen er orðin dómsmálaráðherra. Ég fæ flog. Sigríður er andfeministi og stæk frjálshyggjumanneskja. Hún er á móti kynjakvótum — en sér líklega ekki kaldhæðnina í því að vera tekin fram yfir karlmann með meiri þingreynslu sem var ofar en hún á framboðslista, bara vegna þess að það vantaði konur í ráðherralið Sjálfstæðismanna — hvað þá að hún afþakki að verða ráðherra við þær kringumstæður.
Stundin segir enda að hún sé
„hörð frjálshyggjukona og er einn hægrisinnaðasti ráðherra sem setið hefur á Íslandi … Hún var einn af stofnendum frjálshyggjumiðilsins Vefþjóðviljans og sat um árabil í stjórn félagsins. Sigríður sagði tækifæri til einkavæðingar felast í fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum vegna bágra launa. Hún lagðist einn þingmanna gegn stofnun Jafnréttissjóðs Íslands með þeim orðum að tillagan væri vonbrigði og ekkert annað en „enn eitt ríkisútgjaldamálið.“ Í umræðum um virðisaukaskatt sagði hún að of mikil áhersla væri lögð á mat, því helst ættum við „ættum við kannski öll að kaupa aðeins minna af mat.“ Hvatti hún til þess að horft yrði á stóru myndina og hætt „að fókusera á mat“.

Guðlaugur Þór Þórðarson. Styrkjakóngurinn sjálfur er aftur orðinn ráðherra. Núna utanríkis. Þá verður hann yfirmaður Geirs H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum. Muniði hið svokallaða hrun?

Og talandi um hrun, spillingu og afturgengna ráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, kúlulánadrottningin sjálf er orðin Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra. Hvaða starfi ætli Kristján Ari gegni núna? Ætli það sé búið að bjóða honum eitthvað vel launað djobb með miklum fríðindum, svo hægara sé um vik að fá gott veður hjá ráðherranum eins og síðast?

Auðvitað er það svo algjört hneyksli að Bjarni Ben skuli vera orðin forsætisráðherra. Vorum við ekki síðastliðið vor að losa okkur við annan forsætisráðherra úr Panamaskjölunum? Ég veit ekki hvort alþjóðapressan lítur á þetta sem hneyksli eða aðhlátursefni, aðallega er þetta bara sorglegt.

Einu kostirnir við ríkisstjórnina eru að Jón Gunnarsson er ekki sjávarútvegsráðherra, Sigríður Andersen er ekki heilbrigðis- eða félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson (fv. framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda) er ekki umhverfisráðherra, og Brynjar Níelsson er ekki ráðherra yfirhöfuð.

Efnisorð: , , , , , ,