þriðjudagur, janúar 24, 2017

Stefnuræða Bjarnabófans og umræður um hana

Bjarni Benediktsson sem því miður er orðinn forsætisráðherra — þrátt fyrir að vera í Panamaskjölunum, leyna skýrslu um þau og ljúga um hana að auki — flutti stefnuræðu sína í kvöld.

Bjarni vitnaði tvívegis í Tómas Guðmundsson. Nú þyrfti einhver ræðurýnir að geta svarað mér því hvort Bjarni sé vanur að vitna í skáld í ræðum sínum, eða hvort telja megi þetta áhrif frá ræðum Guðna Th. sem fer um víðan völl í sínum ræðum og vitnar jafnt í virt skáld sem poppara. Katrín Jakobsdóttir benti reyndar á, í sinni ræðu (þar sem hún vitnaði í 21. aldar skáldið Kött Grá Pje), að kvæði Tómasar er
„frá fjórða áratug síðustu aldar því að stjórnarsáttmálinn er um margt í besta 1920-stíl, kannski táknrænt að hann er undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi“.
Bjarni sló sér reyndar upp á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur jafnvel þótt hann sé í forsvari fyrir flokk sem treystir ekki konum til valda. Aukinn hlutur kvenna fer fram í ræðustól þegar Svanhildur Hólm skrifar ofan í Bjarna ræðurnar. Fingraför hennar eru mjög áberandi þegar talað er um unglinga í tilvistarvanda, flókinn heim íslenskra fjölskyldna og jafnvægið milli vinnu og einkalífs.

Ræðan fór þó verulega út af sporinu þegar Bjarni fór að tala um heilbrigðiskerfið.
„Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif. Ríkisstjórnin hefur með stefnuyfirlýsingu sinni gert heilbrigðismál að forgangsverkefni … Áskoranir í heilbrigðisþjónustu eru margar. Við leysum þær ekki allar með nýju fjármagni. Til þess er fjármagnið af of skornum skammti.“
Hughrifin að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki tryggt. „Hughrif“ sem reyndar eru staðfest með tölulegum staðreyndum, fjölmennri undirskriftarsöfnun en ekki síst fjölmörgum reynslusögum starfsmanna heilbrigðiskerfisins og sjúklinga.

Katrín Jakobsdóttir hjó einnig eftir þessu með hughrifin (frábær ræða hjá henni að vanda) og sagði:
„Hughrifin birtast líklega í 86.000 undirskriftum frá Íslendingum sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi er umtalsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og skortir fjármuni til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstv. forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana og þyngdist á aðra hópa. Sumir myndu reyndar kalla þetta staðreyndir fremur en hughrif.“
Mikla áherslu lagði Bjarni á menntamál — en ekkert um 25 ára aldursþakið sem skerðir aðgengi að námi, eins og Katrín benti á:
„Við þurfum að tryggja að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum ólíkt því sem verið hefur og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda.“
Og hún gagnrýndi að sjálfsögðu að ætlunin sé að
„fresta nauðsynlegri eflingu velferðar og menntakerfis, það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má ekki afla aukatekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Undir þetta er kvittað í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir: Fjármagnið er af of skornum skammti.“
Skemmtiatriði kvöldsins voru freudísk mismæli Bjarna þegar hann ætlaði að tala um loftslagsmál og Parísarsamkomulagið, en sagði: „Í aðgerðaáætlun í tengslum við Panama — Parísarsamkomulagið“.

Sorglega ræðan var varnarræða Óttars Proppé. Aumkunarvert.


Efnisorð: , , , , , ,