föstudagur, febrúar 03, 2017

Brennivín í búðir, eina ferðina enn

Þá er eina ferðina enn búið að leggja fram frumvarp um brennivín í búðir. Á sama tíma stendur enn og aftur yfir „Reykjavík Coctail Weekend“ og af því tilefni er gefið út blað sem vekur athygli á þessu fyrirbæri, þar sem annarsvegar eru lög um áfengisauglýsingar brotnar og hinsvegar verið að ota því að almenningi að áfengisdrykkja sé hið besta mál. Í nýjustu útgáfu frumvarpsins er gefið grænt ljós á áfengisauglýsingar, en það var ekki áður.

Mér finnst reyndar ágæt sú kenning að Sjálfstæðisflokkurinn (með hjálp frá meðvirkum flokkum) tefli fram áfengissölufrumvarpinu til þess að afvegaleiða umræðuna. Kannski var það þessvegna sem þetta frumvarp var einmitt rætt í pontu meðan Austurvöllur logaði fyrir utan, til að tala um eitthvað annað en Hrunið? Og núna, til þess að Bjarni Ben þurfi ekki að svara miklu um skýrsluleyndarleikina sína, því allir eru uppteknir að ræða um heimskulegt frumvarp. Eða til þess að hægt sé í rólegheitum að einkavæða heilbrigðisþjónustuna? Margt er þessi ríkisstjórn að bralla. Það væri svo auðvitað tvöfaldur sigur frjálshyggjuaflanna í stjórnarflokkunum að ná frumvarpinu í gegn, engin spurning. En það er semsagt ástæða til að staldra við og setja spurningarmerki við frá hverju er verið að leiða umræðuna.

Þessvegna ætla ég ekki að eyða meiri orku í að skrifa um áfengissölufrumvarpið — enda þótt andstaða mín við það hafi ekki minnkað (og ekki heldur landlæknis) —  heldur vísa bara í gamla pistla. Hef skrifað helling um það gegnum tíðina en þessir tveir pistlar ná ágætlega utanum afstöðu mína: annar segir frá skoðanakönnun sem gerð var í mars 2014 sem sýndi yfirgnæfandi andstöðu við áfengissölufrumvarpið og rekur ýmsar ástæður þess að fólk er er á móti sölu áfengis í matvörubúðum, og hinn er að mestu leyti ræða Róberts Marshall sem hann flutti á þingi í nóvember 2015. Með bestu ræðum sem hafa verið fluttar á alþingi.

Efnisorð: , , , , , ,