mánudagur, janúar 30, 2017

Áform sem leiða til aðgerða

Hitler skrifaði um áform sín í Mein Kampf. Samt kom öllum á óvart hvaða stefnu hann tók þegar hann komst til valda. Trump var alla kosningabaráttuna að boða einangrunarstefnu, aukin hernaðarmátt, og að draga til baka ýmiskonar mannréttindi sem hart hafði verið barist fyrir, svo fátt eitt sé talið af ömurlegum stefnumálum hans. Margir voru þó vissir um að þetta væri allt í nösunum á honum, bara atkvæðaveiðar, og svo yrði hann örugglega bara fínn forseti. En hann hófst strax handa fyrir tíu dögum þegar hann tók við embætti og eru stefnumálin nú farin að bitna ekki bara á Bandaríkjamönnum í heimalandi sínu heldur fólki um allan heim.

Það er því full ástæða til að staldra við þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra fer fram með yfirlýsingum um hvernig eigi að meðhöndla flóttafólk sem hingað kemur, einsog lesa má t.d. í frétt Stundarinnar. Ekki nóg með það heldur var hún á fundi dómsmálaráðherra og innanríkisráðherra á Möltu og lýst þar yfir „efasemdum fyrir Íslands hönd gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni og áformum um aukna samábyrgð Evrópuríkja vegna flóttamannavandans“ og með því á hún við „afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda“.

Sömuleiðis er Óli Björn Kárason, einhver ömurlegasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og eru þó margir ömurlegir, með álíka málflutning og Sigríður.

Og nú þegar þau hafa sýnt okkur á spilin sín — ætlum við þá að trúa því að þau séu bara alveg sauðmeinlaus og góðviljuð í garð flóttamanna?

Auðvitað á ekki að líkja neinum við Hitler. Og engum við Trump. Sá fyrri framdi slík voðaverk að fáum er við hann að jafna. Trump ætlar sér vonandi ekkert slíkt, honum nægir líklega bara að gera líf fjölmargra óbærilegt.

Þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru auðvitað bara smápeð miðað við svona valdamikla menn. Þó er það nú svo að þetta fólk, sérstaklega ráðherrann, fer með vald sem hefur áhrif á líf annarra, jafnvel fólks í viðkvæmri stöðu. Úrslitavald um líf þess og framtíð. Það vald ætti enginn með skoðanir Sigríðar Á Andersen að hafa.



___
[Viðbót, daginn eftir] Agnar Kr. Þorsteinsson skrifar um sama fólk í fantagóðum pistli.

Efnisorð: , , ,