þriðjudagur, febrúar 07, 2017

Hinar mörgu birtingarmyndir ofbeldis í málinu

Þetta hefur verið dagur stórra og vondra tíðinda. „Allt að 13 þúsund fangar voru hengdir í alræmdu fangelsi sýrlenskra stjórnvalda nærri Damaskus á fimm ára tímabili“, las ég á vef Ríkisútvarpsins í morgunsárið.

Síðar í dag var svo kynnt skýrsla um Kópavogshælið þar sem hræðilega var farið með fólk áratugum saman. Grátlegt og óhugnanlegt. Ég treysti mér ekki að lesa skýrsluna að svo stöddu en fréttirnar sem skrifaðar eru uppúr henni og viðtölin við formann vistheimilanefndarinnar eru sláandi.

Ég treysti mér ekki að skrifa um þessa atburði en ætla hinsvegar að ræða orðalag sem stakk mig þegar ég las fréttina um hroðalegu meðferðina á föngum í sýrlenska fangelsinu.

Í fréttinni stóð:
„Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að Sýrlandsstjórn hefur áður neitað fyrir morð og misnotkun á föngum í þessu fangelsi.“
Ég hef áður pirrað mig á þessu „neita fyrir“ orðalagi. Það neitar enginn fyrir neitt heldur þrætir fyrir eitthvað eða hafnar ásökunum.

Svo er það orðið 'misnotkun'. Það dúkkar upp á ólíklegustu stöðum í þýðingum þegar orðið abuse er notað í enskum texta. Hér er það reyndar þýðing á ‘mistreat’ (setningin hljóðar svo: „The government has previously denied killing or mistreating detainees“) sem Snara segir mér að geti verið þýtt sem fara illa með, misþyrma eða leika grátt. En segir ekkert um misnotkun.

Það er eins og fréttamaðurinn haldi að alltaf þegar rætt er um einhverskonar ofbeldi þá hljóti það að vera misnotkun. Það á eflaust sér einhverskonar upphaf í því að þegar farið var að tala um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum var notað orðalagið ‘kynferðisleg misnotkun’, sem þýðingu á ‘sexual abuse’. Og smám saman varð allt ‘abuse’ að misnotkun. Og misnotkun er sannarlega viðeigandi þegar talað er um ýmiskonar ‘abuse’. Orðið misnota er tildæmis notað þegar rætt er um vímuefnaneyslu eða spillingu: að misnota vímuefni (e. abuse drugs), misnota aðstöðu sína eða vald (e. abuse of power*). En abuse þýðir líka allskyns ill meðferð: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. En ekki bara kynferðislegt og ekki alltaf í þeirri merkingu sem búið er að tengja við kynferðislega misnotkun á börnum (child abuse er ofbeldi gegn börnum en ekki í merkingunni kynferðislegt ofbeldi).

Þessvegna er óheppilegt þegar notað er orðalagið misnotkun í tíma og ótíma þegar verið er að þýða abuse.**

Svo er aftur annað mál að lengi var í íslenskum lögum gerður greinarmunur á alvarleika þess að beita konur kynferðislegu ofbeldi eftir því hvort þær voru edrú eða ekki. Ofurölvi kona sem ekki gat spornað við árásarmanninum, henni var ekki nauðgað samkvæmt þessum lögum, nei hún hafði orðið fyrir misneytingu.***

Samt hef ég séð skjátexta við sjónvarpsþætti þar sem fjallað er um eiginmenn sem misþyrma eiginkonum sínum, þar sem stendur ‘hann misnotaði hana’.

Hér má sjá eitt dæmi um óþolandi notkun á misnotkunarhugtakinu, því hér er greinilega átt við ofbeldi.
„Mannfólkið hefur meiri samúð með misnotuðum hvolpum en fulllorðnu fólki sem orðið hefur fyrir margvíslegu ofbeldi.
Í rannsókninni kom einnig fram að konur sýni misnotuðu mannfólki og dýrum almennt mun meiri samúð en karlmenn.“
Svo það sé alveg á hreinu, álpist einhver til að lesa eingöngu þessa bloggfærslu en engar aðrar; bloggskrifari fordæmir allt ofbeldi gegn fólki og dýrum, andlegt, líkamlegt sem og kynferðislegt. Þetta tuð um málfar er hvorki til marks um lítilsvirðingu við þolendur ofbeldisins í Sýrlandi né á Kópavogshæli, hvað þá við aðra þolendur ofbeldis af neinu tagi.

___
*Dæmi : „Björg Eva Erlendsdóttir, fráfarandi stjórnarmaður RÚV, segir Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa misnotað nýgerðan þjónustusamning stofnunarinnar til að réttlæta eigin ritskoðunartilburði.“

** Abuse hefur samkvæmt Merriam-Webster fimm merkingar. Gamla góða Ensk-íslenska orðabók Arnar og Örlygs gefur aðeins 4 merkingar, enda ekki búið að koma kynferðislegu misbeitingunni í orðabók á þeim tíma, enda bara hafði það orðalag aðeins verið notað þrisvar sinnum, skv. timarit.is frá árinu 1975 - 1983. Misnota er þýtt yfir á ensku í Ensk-íslenskri orðabók Iðunnar sem ‘misuse’ árið 1989.

*** Nú hljóða lögin svo: „Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Efnisorð: , , , , ,