laugardagur, febrúar 18, 2017

Meistarar mánaðarins

Það er ekki vegna konudagsins á morgun sem hér verður vísað á ýmisleg skrif eftir konur, heldur er þetta samviskjujöfnum vegna skammarlegs kynjahalla, því blogghöfundi verður það sífellt á að vitna oftar í karlmenn en konur. En ekki núna sko.


Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage skrifaði pistil um líkamsstaðla, ofbeldi og neikvæðar fyrirmyndir drengja.
„Jafnvel þótt ofurhetjukvikmyndir séu vinsælar núna og ekki ætlaðar börnum þá virðast ungir drengir vera aðalskotmark varnings sem tengist ofurhetjum. En fyrst ofurhetjur eru góðar og bjarga heiminum er það ekki bara hið besta mál?

Að mínu mati eru þetta ekki æskilegar fyrirmyndir fyrir unga drengi þar sem þeirra helsta og eina lausn á vandamálum er ofbeldi. Slagsmál, vopn og sprengjur eru oftast meginþema þessara kvikmynda og birtist þetta einnig í teiknimyndaþáttum um þessar ofurhetjur sem eru ekki bannaðir börnum. Nútíma ofurhetjur eru í breyttari mynd, þær setja ákveðna líkamsstaðla sem erfitt er að fylgja. Hægt er að kaupa ofurhetjubúning með viðbættum vöðvum, því ofurhetjur eru og eiga að vera vöðvastæltar. Hetjurnar starfa flestar einar, eru miklir einfarar og virka oft félagslega bældir menn sem eiga erfitt með að festa ráð sitt. Ofurkraftar þeirra og vopn gera þeim kleift að sigrast á illmennum sem heilum her af lögregluþjónum er ógerlegt. Ef ofurhetjurnar hafa ekki ofurkrafta þá hafa þeir vopn eða rosalega bardagahæfileika.“
Ingibjörg Björnsdóttir sem búsett er í Sisimut á Grænlandi skrifaði áhrifamikinn pistil um ofbeldi í uppeldi sínu í Breiðholti og aðstæður í Grænlandi (birtist fyrst á Kalak.is og svo á Vísi).

Kristín Ólafsdóttir skrifaði glansandi fínan bakþankapistil um „harkalega ádeilu á stjórnlausa neytendavæðingu hátíðisdaga“ og ber að lesa hana sem slíka.

María Bjarnadóttir skrifaði sömuleiðis bakþankapistil en hennar viðfangsefni var meistaramánuðurinn (þessi sem nú stendur yfir). Hún talar um eigin markmið og annarra og segir jafnframt að:
„Sum meistaramarkmið geta haft jákvæðar afleiðingar fyrir fleiri en okkur sjálf. Til dæmis gætu allir sett sér það markmið í meistaramánuði að nauðga engum. Ég hef lesið að þegar manneskjur eru búnar að gera sama hlutinn 21 dag í röð séu verulegar líkur á að það hafi varanlega áhrif og verði auðveldlega hluti af daglegri rútínu í framhaldinu. Það eru 28 dagar í febrúar, svo meistaramánuður ætti akkúrat að duga.

Fyrir suma verður þetta mjög auðvelt af því að þeir eru ekkert að nauðga. Þetta verður erfiðara fyrir aðra. Það væri betra ef enginn þyrfti að hafa nokkuð fyrir því að ná þessu markmiði. Það væri best ef okkur gengi svo vel í meistaramánuði að það tækist að gera nauðgunarlausan lífsstíl að sjálfsögðum hluti í lífi okkar allra.“
Sara Stef. Hildardóttir sagði frá því í viðtali við Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttir blaðamann þegar ráðist var á dóttur hennar og ræddi ofbeldi gegn konum yfirleitt.
„Konur hafa of lengi verið hluti af hagkerfi karla en það kerfi fjallar ekki bara um vald þeirra yfir konum heldur líka aðgang þeirra að þeim. Það er þar sem kynferðisofbeldið á sér stað; þegar karlar upplifa konur sem hluta af rétti sínum í samfélaginu. Þetta valdakerfi er orðið gamalt og lúið og því miður eru það svona hræðilegir atburðir eins og árásin á Birnu og morðið á henni sem verða notaðir til að kynda undir umræðunni um að konur þurfi að draga sig í hlé, láta lítið fyrir sér fara og bera ábyrgðina og skömmina ef á þær er ráðist. Ítrekað og endurtekið.

Það er óþolandi samfélag sem reynir ekki að bæta sig. Kynbundið ofbeldi er reglulegt og kerfisbundið í samfélaginu. Birna er dæmi um það. Við skulum ekki vera sammála um að konur eigi að láta sér blákalt morð á ungri konu að kenningu verða. Við skulum ekki vera sammála um að konur og stelpur geti ekki gengið einar um á kvöldin, að þær þurfi að hafa lyklana á milli fingranna eða þykjast tala í símann, að þær þurfi bara að fara á sjálfsvarnarnámskeiðið og hafa piparúðann tiltækan því þannig geti þær verið frjálsar; innan ákveðinna marka og ef þær bara taka á sig ábyrgðina.“
Viðtöl við fleiri konur fylgja þessari ágætu umfjöllun Kristjönu blaðamanns sem einnig er vert að lesa.

Sif Sigmarsdóttir, alltaf góð, skrifaði í janúar opið bréf til Guðlaugs Þórs Þórðarssonar utanríkisráðherra. Tilefnið er Trump og tilskipun hans um að stöðva ríkisstyrki til erlendra hjálpasamtaka sem styðja fóstureyðingar (eins og var reyndar fjallað um hér á blogginu). „Ríkisstjórn Hollands vinnur nú að því“, segir Sif, „að koma á alþjóðlegum sjóði sem ætlað er að vinna gegn tjóni því sem fornfáleg viðhorf Trumps til fóstureyðinga valda“. Og Sif spyr hvort ríkisstjórn Íslands hyggist eiga aðild að þessum sjóði. Góð spurning og góð hvatning.

Veronika Ómarsdóttir skrifaði pistil um viðmótið sem mætir henni í Austurríki þar sem hún býr.
„Ég get ekki annað en verið þakklát landinu sem ég bý í og fólkinu fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér. Ég hef aldrei fundið fyrir fordómum, fólkinu hérna úti finnst það yfirhöfuð bara vera frekar magnað, að ég hafi bara flutt til annars lands til að læra og að ég hafi náð tungumálinu svona vel á svona stuttum tíma.

En ég er auðvitað hvít ung kona frá Íslandi. Ég er ekki að flýja stríð. Ég fór ekki til landsins nauðug og allslaus. Ég er ekki flóttamaður.“
Og svo kemur fremur átakanleg lýsing á samferðafólki hennar í lestarferðum: flóttamönnum á öllum aldri sem eru daprir og áhyggjufullir. Áhrifamikil lesning.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði fínan pistil um brennivín-í-búðir frumvarpið. Hann byrjar svona:
„Hver er munurinn á því að afnema sykurskattinn og leyfa sölu áfengis í matvörubúðum? Hvort tveggja stríðir gegn lýðheilsumarkmiðum og leggur auknar byrðar á heilbrigðiskerfið. Réttur þingkonunnar Áslaugar Örnu til að kaupa sér hvítvín með humrinum í Melabúðinni, svo tekið sé frægt dæmi úr umræðunni, kostar peninga og þeir eru sóttir í vasa einhverra annarra.

Munurinn er í raun enginn.

Þegar við rekum hér sameiginlegt samfélag er eðlilegt að huga að hagsmunum heildarinnar. Ákvörðun um að auðvelda aðgengi að áfengi er ákvörðun um að auka neysluna. Henni fylgir tilheyrandi álag á heilbrigðisstofnanir og það kostar peninga og ómældar þjáningar. Ákvörun um að skattleggja sykur minna en innflutt grænmeti er að sama skapi ákvörðun sem stuðlar að óheilbrigði.“
Allt er þetta holl lesning.

En síðast en ekki síst ber að dást að Julie Andem sem skrifað hefur handritið að Skam og leikstýrði einnig öllum 33 þáttunum sem gerðir hafa verið. Algjör snillingur.

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,